Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Það ríkir ófremdarástand í fangelsismálum hér á landi. Ástand sem OPCAT-eftirlit umboðsmanns Alþingis með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja ber vitni um ásamt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Fangelsismálastofnun

Það ríkir ófremdarástand í fangelsismálum hér á landi. Ástand sem OPCAT-eftirlit umboðsmanns Alþingis með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja ber vitni um ásamt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Fangelsismálastofnun. Niðurstöðurnar eru sláandi. Þetta ástand er á ábyrgð stjórnvalda, þeirra ríkisstjórna sem setið hafa undanfarin tíu ár, en allan þann tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með dómsmálaráðuneytið. Ítrekaðar ábendingar Umboðsmanns, Ríkisendurskoðunar, Afstöðu, Fangavarðafélagsins, Rótarinnar og aðstandenda fanga virðast lítil áhrif hafa á ráðherrana sem ábyrgð bera á fullnustukerfinu.

Við blasir vanfjármögnun og vanræksla. Róður Fangelsismálastofnunar er þungur en segja má að fjárskortur stofnunarinnar hafi keðjuverkandi áhrif á fullnustukerfið. Ástandið á Litla-Hrauni er til skammar og engum bjóðandi. Að telja aðbúnað fanga þar stuðla að betrun og mannrækt eru í besta falli öfugmæli. Aðstaðan sem veitt er til fjölskylduheimsókna er dapurlegur vitnisburður um hvað við teljum börnum bjóðandi.

Endurbóta- og viðhaldsþörf fangelsa er mikil. Húsnæði Litla-Hrauns er hálfónýtt en stærsta byggingin þar er talin það illa farin að það ógni heilsu fanga og starfsfólks. Starfsemin þar uppfyllir aðeins að hluta nútímakröfur sem gerðar eru um öryggi og endurhæfingu í fangelsum, sem gerir það að verkum að ofbeldis- og fíkniefnamál eru viðvarandi vandamál. Menntun og starfsþjálfun fangavarða er brotakennd.

Undirmönnun er á flestum sviðum Fangelsismálastofnunar sem leiðir til þess að ekki er fullnýting á afplánunarrýmum. Það vantar 18 ársverk fangavarða og 10 sérfræðinga til að uppfylla öryggiskröfur og aðrar kröfur um aðbúnað fanga. Illa gengur að stytta boðunarlista og er því nokkuð um að dómar fyrnist þar sem of langt líður á milli dóms og afplánunar. Ofbeldisdómar fyrnast. Það er þannig ekki unnt að treysta því að niðurstöðum dómstóla landsins um afplánun sé í raun fylgt eftir.

Staða kvenna í fangelsum er ólíðandi. Ekki eru til sérstök vistunarúrræði fyrir konur og er konum sem ekki komast að í opnu úrræði gert að afplána dóma sína í öryggisfangelsi sem ekki er hannað til langrar fangavistar en þær hafa fæstar framið alvarleg ofbeldisbrot. Konur hafa skertara aðgengi að störfum, virkni og endurhæfingu en karlkyns fangar. Umboðsmaður Alþingis fjallaði um aðbúnað aðstæður kvenna í fangelsum í skýrslu sumarið 2023.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins lagði Samfylkingin til að fjárlaganefnd gerði þverpólitíska tillögu um nauðsynlega fjármögnun úrbóta í fangelsismálum. Stjórnarflokkarnir studdu það ekki. Það vekur furðu í ljósi stöðunnar en er vissulega tímanna tákn og segir sína sögu af erindisleysi ríkisstjórnarinnar.

Höfundur er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. thorunn.sveinbjarnardottir@althingi.is