Drottningin Reffileg með rauðan hatt.
Drottningin Reffileg með rauðan hatt. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Danir þekkja Friðrik vel fyrir alþýðleika og brosmildan svip. Þeim virðist líka vel að sjá fjölskyldumann á besta aldri taka við,“ segir Ásta Ósk Þorvaldsdóttir dönskukennari við Árbæjarskóla í Reykjavík

„Danir þekkja Friðrik vel fyrir alþýðleika og brosmildan svip. Þeim virðist líka vel að sjá fjölskyldumann á besta aldri taka við,“ segir Ásta Ósk Þorvaldsdóttir dönskukennari við Árbæjarskóla í Reykjavík. Hún bjó lengi í Danmörku og þekkir þar vel til.

Margrétar verður, að mati Ástu, minnst sem drottningar er nútímavæddi danska konungsríkið. „Sem ung kona þegar hún tók við krúnunni að Friðriki IX. föður sínum látnum. Þá strax sýndi hún hvað í henni býr og að konur ráða vel við embættisstörf. Hún færði konungsríkið nær fólkinu og lætur sig mikilvæg mál samtímans varða. Tók stóra og mikla ákvörðun þegar hún leyfði Jóakim, yngri syni sínum, að skilja við konu sína. Slíkt var alls ekki einfalt, miðað við hefðir.“

„Friðrik prins er mjög vel liðinn af Dönum,“ segir Dagmar Þórisdóttir landslagsarkitekt sem búið hefur í Danmörku sl. 30 ár. „Eiginkona Friðriks, Mary Elizabeth Donaldson, nýtur sömuleiðis vinsælda. Sú hefur raunar ekki látið mikið fyrir sér fara og leyft Friðriki að vera í sviðsljósinu. En nú vilja Danir kannski meira sjá til hennar.“

Að drottningin segi af sér nú, enn við góða heilsu, er mjög jákvætt, að mati Dagmarar. „Slíkt gerir málin öll mjög einfaldari en ef Friðrik hefði tekið við krúnunni að móður sinni látinni. Í raun tel ég að Danir séu flestir sáttir við þessi skipti í Amalíuborg sem komu ekki á óvart. Því hefur verið spáð um hver einustu áramót sennilega síðustu tíu árin að drottningin væri á förum.“

„Friðrik virðist viðfelldinn og fremur alþýðlegur. Þannig hefur hann komið mér fyrir sjónir, til dæmis þegar hann tekur þátt í langhlaupum heima á Friðriksbergi. Þar hef ég séð hann tilsýndar og ég held að Dönum þyki almennt vænt um þennan væntanlega konung sinn,“ segir Þór Jónsson, fyrrverandi fréttamaður og nú sviðsstjóri hjá Norrænu ráðherranefndinni, sem búsettur er í Kaupmannahöfn.

Þór segir að væntanlega hafi Danir vanist þeirri hugmynd og staðreynd að Friðrik, sem verður 56 ára í maí næstkomandi, verði kóngur. Sama eigi við um hann sjálfan; enginn danskur ríkisarfi hafi þurft að bíða jafn lengi eftir því að taka við krúnunni.

„Krónprinsinn er löngu búinn að máta sig í hlutverk Friðriks X. sem hann kaus sér þó ekki og hefði sennilega valið sér annað hlutskipti einhvern tímann hefði hann sjálfur fengið að ráða,“ segir Þór og heldur áfram: „Ég reikna ekki með öðru en að hann verði farsæll og vinsæll meðal almennings og sameiningartákn ef á reynir. Annars hefur þetta litla þýðingu en ég ætla samt ekki að missa af því þegar hann verður lýstur kóngur á svölum Kristjánsborgarhallar á sunnudag. Búist er við miklum mannfjölda. Skrifstofan mín er í húsinu beint á móti og þaðan verður gott útsýni.“

En hvaða sess mun Margrét Þórhildur fá í sögunni eftir að hafa gegnt embætti drottningar í meira en hálfa öld? „Ég hugsa að hennar verði minnst sem mildrar landsmóður sem hikaði ekki við að segja löndum sínum til syndanna þegar henni mislíkaði og Dönum þótti bæði vænt um og báru virðingu fyrir. Við Íslendingar þykjumst líka eiga svolítið í henni af því að hún var kóngsdóttir í konungsríkinu Íslandi,“ segir Þór að síðustu. sbs@mbl.is

„Margrét II. hefur ekki haft mikil áhrif á framvindu danskra þjóðfélagsmála en í krafti hefðar hefur hún sess í hjörtum Dana,“ segir sr. Þórir Jökull Þorsteinsson, lengi sendiráðsprestur Íslendinga í Kaupmannahöfn en starfar nú í Noregi. „Eðlilegt er að setja sögu Margrétar í sögulegt samhengi. Hún er enn höfuð þjóðkirkju Dana með biskupum hennar.“

Drottning hefur, segir Þórir Jökull, sameinað í persónu sinni hið manneskjulega og hátignarlega. „Þar glittir í lærða konu með yfirsýn, jafnvel í listhneigða persónu með næmt auga og haga hönd. Friðrik, væntanlegur konungur, er talinn feiminn og ekki mikið fyrir að vera í sviðsljósinu sem er þó óhjákvæmilega hlutverk hans.“

„Margrét sýnir nú hvað hún er sterkur leiðtogi,“ segir Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur, rithöfundur og fv. kammerjómfrú Hins konunglega fjelags. „Stígur til hliðar í stað þess að fylgja hefðum og deyja í embætti. Felur, að því er virðist á hárréttum tíma, Friðriki krónprinsi syni sínum að taka við.“

Eyrún bendir á að Íslendingar séu margir hverjir áhugasamir um dönsku hirðina. Dönsk blöð hafa sum hver gert út á fréttir af konungsfjölskyldunni og þær frásagnir verið lesnar upp til agna, m.a. hér á Íslandi. „Slíkt er skiljanlegt því saga Íslands og Danmerkur fyrr á tíð tvinnast saman á margan hátt. Munum að Margrét var líka skírð Þórhildur, enda fædd meðan Ísland var enn undir dönsku krúnunni.“

Danskir fjölmiðlar leggja allt undir í umfjöllun um embættistöku Friðriks X. jafnhliða því sem brugðið er upp svipmyndum frá ferli Margrétar Þórhildar. Á sjónvarpsstöðinni DR1 er á sunnudag umfjöllun, frá kl. 7 að morgni fram til 21. Þá má á vef stöðvarinnar sjá viðtöl meðal annars við Vigdísi Finnbogadóttur þar sem hún segir frá samfylgd sinni með Danadrottningu. RÚV verður einnig með umfjöllun.

Valdaskiptin fara fram á fundi ríkisráðs Danmerkur eftir hádegi á morgun, sunnudag. Á slaginu kl. 15 mun svo Friðrik X. koma fram á svalir Kristjánsborgarhallar sem nýkrýndur konungur, en Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnir formlega um valdaskiptin.