Framtíðarsýn Trjágróður og hvíldarsvæði setja svip sinn á Austurstræti. Landsbankahúsið gamla í bakgrunni.
Framtíðarsýn Trjágróður og hvíldarsvæði setja svip sinn á Austurstræti. Landsbankahúsið gamla í bakgrunni. — Tölvumynd/Sp(r)int Studio og Karres en Brands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Til stendur að gera breytingar og endurbætur á Austurstræti. Að þeim loknum verður allt Austurstræti göngugata, milli Lækjartorgs og Aðalstrætis. Þetta fékkst staðfest hjá Reykjavíkurborg. Núna er bílaumferð leyfð milli Pósthússtrætis og Aðalstrætis en milli Lækjartorgs og Pósthússtrætis er göngusvæði.

Þetta verða mikil tímamót í sögu þessarar fornfrægu götu Reykjavíkur. Upp úr aldamótunum 1800 myndaðist götuslóði eftir blautlendum jaðri Austurvallar frá megingötu bæjarins, Aðalstræti, að Læknum. Árið 1848 var götunni formlega gefið nafnið Austurstræti og er þá miðað við afstöðu hennar til Aðalstrætis. Fyrsti bíllinn kom til Íslands 20. júní árið 1904, Thomsen-bíllinn svokallaði. Bílar hafa því ekið um Austurstræti frá upphafi bílaaldar hérlendis eða í 120 ár. Nú verður breyting þar á.

Mikilvægasta gatan

Forhönnun að breyttu Austurstræti var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar sl. miðvikudag.

Ýtir hönnunin undir að gatan verði áfram ein mikilvægasta gata miðborgarinnar og mannlíf og rekstur geti dafnað á svæðinu til framtíðar, segir á heimasíðu borgarinnar. „Austurstræti verður nútímalegt borgargöngusvæði, þar sem „ys og læti“ fá að ríkja áfram með pláss fyrir fólk að tala saman, fólk á hlaupum, í innkaupum og líka rými til að leika, slaka á og njóta veitinga,“ segir þar.

Verkefnið byrjaði með samkeppni fyrir um tveimur og hálfu ári og nær yfir stærra svæði. Karres en Brands og Sp(r)int Studio báru sigur úr býtum í samkeppninni með tillögunni Borgarlind og kynntu jafnframt þessa nýju hönnun. Í mars 2022 var kynnt hönnun á breyttu Lækjartorgi en nú er komið að næsta kafla, segir á vef Reykjavíkurborgar.

Framkvæmdir á Lækjartorgi munu að öllum líkindum fylgja borgarlínuframkvæmdum, segir í svari borgarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Borgarlínan mun renna eftir Lækjargötu endilangri. Tímalínan þar helst því í hendur við áætlun Verkefnastofu borgarlínu hjá Vegagerðinni.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundinum í vikunni að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Austurstræti. Einnig verður hafist handa við endurskoðun deiliskipulags Kvosarinnar sem göngusvæðis í samræmi við umferðarskipulag Kvosarinnar, hönnunarforsendur og fyrirliggjandi forhönnun á svæðinu, í Kirkjustræti, Austurstræti og á Lækjartorgi.

Meirihlutaflokkarnir í ráðinu bókuðu að í könnun Maskínu síðastliðið haust hefði komið fram að meirihluti borgarbúa væri hlynntur göngugötum og stuðningurinn hefði aukist verulega milli ára. „Fyrirliggjandi tillögur að forhönnun munu gefa Austurstræti heildrænna og mildara yfirbragð með auknum gróðri og vönduðum yfirborðsfrágangi sem mun án efa efla mannlífið í þessari lykilgötu Kvosarinnar.“

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson