Sigurður Karlsson fæddist 23. apríl 1944. Hann lést 30. desember 2023. Útför hans fór fram 10. janúar 2024.

Elsku Siggi langafi, ég var svo leið þegar mamma sagði mér að þú værir orðinn mikið veikur og það væri ekki langt eftir hjá þér. Ég spurði mömmu, af því það var svo langt síðan ég sá þig síðast, hvort ég mætti fara og hitta þig til þess að geta sagt þér hvað ég elska þig mikið og þakka þér fyrir allar minningarnar. Mamma ákvað þá að við myndum keyra til Reykjavíkur svo ég fengi að kveðja þig og það var svo krúttlegt þegar við vorum að fara og vorum að kyssa þig bless hvernig þú opnaðir augun og brostir krúttlega til okkar.

Það verður skrítið að koma til Höllu ömmu og enginn Siggi afi lengur en það var alltaf gott að fá hlýtt afaknús. Uppáhaldið mitt var alltaf þegar þú bauðst mér upp á ís og súkkulaðisósu og mér fannst alltaf svo fyndið þegar þú fékkst þér kaffi með blárri mjólk í glerglasið þitt, ég spurði þig einu sinni af hverju þú fengir þér kaffi í svona glas, þá sagðirðu að kaffið væri mikið betra svona, það kæmi vont bragð ef það væri í bolla.

Það var líka svo fyndið þegar Mía hundurinn okkar kom í heimsókn til þín þegar þú gafst henni harðfisk, þú vorkenndir henni alltaf og einu sinni vorkenndirðu henni svo mikið að þú gafst henni fulla skál af ís, þá urðuð þið bestu vinir og alltaf það fyrsta sem Mía gerði þegar hún kom til þín var að setjast fyrir framan frystinn.

Elsku Siggi langafi, sakna þín mjög mikið, en vona að þér líði vel núna.

Þín langafastelpa,

Góa Dröfn.