Marta María Jónasdóttir fæddist í 5. júní 1929. Hún lést 28. desember 2023. Útför hennar fór fram 11. janúar 2024.

Nú hræri ég í kjötsúpupotti, uppskriftin kemur frá Mörtu tengdamóður enda var það hún sem kenndi mér að elda. Ég dáðist strax að góðum mat hennar og hæfni í að töfra fram kaffibrauð, deserta og máltíðir þó ekki virtist alltaf vera fyrirvari á því. Hún hafði góð tök á matargerð, smakkaði til sósuna og setti lokapunktinn á matreiðsluna, síðast núna hjá mér á aðfangadag.

Þegar ég kom fyrst í Barmahlíðina, hálfgerður stráklingur með afmæliskveðju til dótturinnar tók hún mér opnum örmum og bauð mér inn og átti eftir það erfitt með að losna við mig. Þó ég byggi enn um hríð í foreldrahúsum laðaðist ég að þeim góða anda sem var í kringum þær mæðgur. Okkur Mörtu varð vel til vina þó hún hafi stundum kallað mig svínið svarta og sagt að ég hafi troðið mér upp á hana.

Við unga parið innréttuðum okkur íbúð í kjallaranum í Barmahlíðinni og hófum okkar búskap þar í skjóli Mörtu, innangengt var á milli hæða, samgangurinn mikill og sambúðin það góð að við borðuðum iðulega saman. Í þessu nábýli við tengdamóður mína græddi ég ekki aðeins það að kynnast henni vel heldur kynntist ég ættingjum hennar og vinum sem ég hefði farið á mis við ef ég hefði búið fjær.

Við ferðuðumst saman í flestum fríum, innan lands og utan. Ferðir í sumarbústaði í Selvík við Álftavatn í afmælisviku hennar voru upphafið að hverju sumri. Ferðirnar hafa verið farnar óslitið í nærri hálfa öld og hafa margir í fjölskyldunni notið góðs af. Marta var kona vorsins og birtunnar eins og mamma hennar, henni leið vel og vakti fram eftir á björtum sumarnóttum en kúrði sig meira í skammdeginu. Á sumarkvöldum tókum við stundum aukahring vestur í bæ til að elta sólarlagið þegar ég var að skutla henni heim. Henni leið alltaf vel í bíltúrum hvort sem hún var farþegi eða bílstjóri, en hún keyrði sjálf síðast fyrir ári. Í sumar fór hún með okkur upp á hálendið, hossaðist á óslettum vegarslóðum, naut íslenskrar náttúru og drakk kaffi úti í móa.

Þegar stefnan var tekin í Borgarnes rifjaði hún upp sögur af því þegar hún var þar sumarið 1936 hjá móðursystur sinni Svövu en annars var hún á Álftanesi á Mýrum á sumrin. Í Borgarnesi lærði hún að hjóla á Brákarbrúnni sem var eini steypti vegarspottinn á staðnum. Hún lofaði ætíð að hafa verið þarna þetta sumar því þá varð hún ekki vitni að því þegar rannsóknarskipið Pourquoi-pas fórst úti fyrir Mýrunum og líkin voru dregin á land á söndunum.

Það er aðdáunarvert hvað Marta hugsaði vel um foreldra sína þegar þau fullorðnuðust og systur þegar hún eltist. Eftir að faðir Mörtu lést gisti hún meira og minna hjá móður sinni í fimm ár til að hún gæti verið á eigin heimili á Háteigsvegi. Það var einnig ósk Mörtu að fá að vera á sínu heimili út ævina. Með aðstoð síns fólks fékk hún þá ósk uppfyllta og hélt heimili til síðasta dags.

Mér er þakklæti efst í huga, fyrir vináttuna og mikinn og góðan stuðning við mig og mína fjölskyldu. Nú verð ég að bjarga mér í matargerðinni en frá henni á ég nokkur spil uppi í erminni.

Þinn tengdasonur,

Arnar Ásmundsson.

Það er óþægileg áminning hvað tímanum líður nú þegar amma hefur kvatt okkur. Í gegnum allt mitt líf hefur amma verið til staðar, verið virkur þátttakandi og í raun hægt að segja að hún hafi verið eins og þriðja foreldrið.

Ákveðin yfirvegun fylgdi því alltaf að vera í návist ömmu. Það var ekki verið að gera mikið mál úr hlutunum og hún fór aldrei fram á neitt en ef hún bað um eitthvað þá framkvæmdi maður það strax því hún myndi aldrei biðja tvisvar um það sama. Að því er virtist var amma aldrei tímabundin. Hvort sem það var að skutla á æfingar og bíða þar til æfingin kláraðist eða líta eftir okkur systkinunum í nokkrar vikur í kennaraverkfalli, þá var hún alltaf mætt.

Amma kynnti Selvík fyrir stórfjölskyldunni og fór ég með henni í Selvík á hverju ári allt frá því að ég fæddist og síðast núna í sumar. Öll ferðalög var amma tiltæk í og þá sérstaklega ef það var í bíl um landið. Það voru margar góðar stundir í Selvík þar sem margt var um að vera. Í Selvík var oft spilað og þar kenndi amma mér að leggja kapal og þó að hún hafi aldrei viljað vera með þegar við spiluðum Trivial Pursuit þá heyrðust yfirleitt svörin koma frá henni þegar það stóð á þeim hjá okkur hinum.

Af mörgu góðum minningum þá eru mér núna ofarlega í huga heimsóknir mínar í Barmahlíð þegar ég var í götum í MH. Að koma til ömmu á miðjum skóladegi, fá að borða, lesa Moggann og kannski leggja sig í smástund skilaði manni endurnærðum út í daginn. En þrátt fyrir að stoppið hafi bara verið í einn eða tvo tíma þá náðist samt yfirleitt að borða tvær máltíðir þar sem allt sem hugurinn girntist var á boðstólum en þó alltaf egg og beikon.

Ég get vonandi tamið mér eitthvað af þínum góðu siðum. Takk fyrir mig, amma.

Jónas Arnarsson.

Það verður erfitt að fylla skarðið við fráfall þitt.

Takk fyrir sambúðina síðastliðin ár. Takk fyrir alla kaffi- og tebollana. Takk fyrir allar „Tsjernobyl“-kökusneiðarnar, sveskjukökuna, sæluna og eplakökuna. Takk fyrir alla ullarsokkana og vettlingana sem þú prjónaðir á okkur og hjálpina með handavinnuna. Takk fyrir hlýjuna, gestrisnina, hugulsemina, umburðarlyndið og vinsemdina. Takk fyrir að deila með mér sögunum af þér á ferð um heimsins höf. Sögum úr æsku þinni af Álftanesi á Mýrum og fjölmörgum sögum með skoðunarferðum okkar um ljósmyndakassana þína.

Ég mun búa að því um ókomna tíð að hafa búið með þér.

Takk fyrir að vera amma okkar allra.

Sandra Dögg Svansdóttir.

Í dag kveðjum við elsku ömmu Mörtu. Við systkinin minnumst þín með hlýju og minnumst allra góðu stundanna hjá þér í Barmahlíðinni. Þar var alltaf líf og fjör og við fjölskyldan hittumst þar í ófáum boðunum og alltaf varst þú með dekkhlaðið borð af kræsingum. Ömmu Mörtu-kakan góða verður áfram bökuð hjá okkur barnabörnunum og mun ananasfrómas alltaf vekja góðar minningar.

Það myndast tómarúm í hjörtum okkar þegar við hugsum til þess að heimsóknirnar í Barmahlíðina verði ekki fleiri, þar eigum við margar góðar minningar, enda bjóstu þar allt fram á síðasta dag, orðin 94 ára.

Við systur vorum heppnar að fá að búa í kjallaranum hjá þér þegar við fluttum að heiman. Þar áttum við dýrmætar stundir og fengum að kynnast þér betur en áður. Við áttum oft á tíðum gott spjall þegar við komum upp til þín, oft í leit að aðstoð með prjónaverkefni, enda varst þú mikil prjónakona. Þú passaðir upp á að okkur barnabörnunum og langömmubörnunum væri hlýtt og voru allir vel búnir ullarvettlingum, sokkum og peysum frá þér.

Minning þín mun lifa með okkur elsku amma.

Þín barnabörn,

Hulda Hrund, Guðlaug Dagmar og Helgi Hörður.

Það er ekki ömmu taktur að hafa mörg orð um hlutina svo það væri stílbrot að tala lengi um hana þó full ástæða sé til. Hún var iðin og vandvirk og sat ekki auðum höndum, hún gekk vel um og fór vel með. Hún var siðprúð og pen en á sama tíma glitti stundum í kaldhæðni.

Aldrei varð ég vitni að því að amma hækkaði róminn og bað hún aldrei tvisvar um hlutina, einu sinni var nóg. Þetta átti líka við í hina áttina, ef maður bað hana um greiða eins og að laga sprettu á flík þá þurfti ekki að biðja um það tvisvar. Iðulega var hún gengin í verkið áður en maður náði að snúa sér við.

Amma gerði alltaf strax upp skuldir sínar. Það má segja að hún hafi verið óþolandi samviskusöm þar sem hún hélt ekki ró sinni fyrr en búið var að gera upp reikninginn úr búðarferðinni. Það var ekki einu sinni hægt að fresta uppgjörinu fram yfir kaffibollann.

Þar sem ég hef búið í húsi ömmu á tveimur æviskeiðum hefur hún haft mikil áhrif á líf mitt. Fyrstu sex árin bjó ég í kjallaranum hjá henni með foreldrum mínum og síðan aftur undanfarin ár með minni fjölskyldu. Þar á milli var mikill samgangur milli hennar og fjölskyldu minnar þannig að það hefur varla liðið sá dagur sem ég hef ekki hitt hana.

Ég á margar hlýjar minningar um veru mína í Hlíðunum þegar ég var lítill í ömmuhúsi. Ein fyrsta minning mín er þegar ég sat uppi á eldhúsborði hjá ömmu og hún var að hræra í pönnukökur. Það var henni líkt að vera að útbúa mat sem allir nutu góðs af.

Eftir að ég fékk bílpróf sótti ég ömmu heim og læddi mér í skúrinn hjá henni til að sinna bílunum. Þá skipti okkur ekki öllu máli hvað klukkan var, það voru teknar fram veitingar þegar ég kom úr bílskúrnum. Þarna hófst okkar fullorðins samferð.

Það var notalegt að flytja aftur til ömmu á fullorðinsárum. Amma var söm við sig og gaf mér kaffi og með því. Mikilvægustu máltíð dagsins, síðdegiskaffinu, sinntum við samviskusamlega þó tímasetningin á kaffinu væri ekki heilög. Yfir kaffinu leystum við krossgátur, hlustuðum á tónlist og ræddum um hvað á dagana hefði drifið en það þurfti þó ekki að hafa mörg orð um hlutina. Okkur leið vel saman og virtumst skilja hvort annað án orða.

Við amma vorum mikið tvö saman á covid-tímum, ég vann á borðstofuborðinu hennar og hún hellti upp á kaffi fyrir mig og laumaði mola til ferfætlingsins á heimilinu. Þetta var góður taktur sem við héldum okkur við þó covid-lokanir væru afnumdar, ég kaus að sitja áfram við borðstofuborðið og sinna vinnu í návist ömmu minnar.

Á góðviðrisdögum spurði hún stundum hvort við ættum að fara í sjoppu. Þá langaði hana á Bæjarins bestu eða í ísbíltúr. Tókum við þá rúnt um bæinn og skoðuðum gamla staði og nýja. Mér fannst amma aldrei gömul kona þó hún hafi náð háum aldri, kannski vegna þess að hún var hvorki forn í fari né að býsnast yfir sveiflum nútímans. Maður áttaði sig ekki á hvað tímanum leið í návist hennar og því kemur það aftan að manni að kaffitímarnir verði ekki fleiri.

Garðar Arnarsson.