Hjördís Elinórsdóttir fæddist 10. mars 1929. Hún lést 28. desember 2023. Útför fór fram 12. janúar 2024.

Nú þegar mín kæra tengdamóðir er lögð til hinstu hvílu minnist ég þeirra fjölmörgu ánægjustunda sem við áttum saman á þeim 40 árum sem leiðir okkar lágu saman. Þegar ég fór að venja komur mínar á heimili þeirra Hjördísar og Harðar í Varmagerði í Laugarási lágu fyrir breytingar á högum þeirra. Til stóð að selja garðyrkjustöðina og búið var að festa kaup á húsi á Selfossi fyrir fjölskylduna. Eftir að á Selfoss var komið hóf Hjördís störf hjá Landsbankanum með umsjón á veitingum fyrir starfsfólk bankans. Þegar kom að matargerð og þjónustu kunni hún ýmislegt fyrir sér, var húsmæðraskólagengin og dugleg að afla sér viðbótarþekkingar með kaupum á erlendum tímaritum sem fjölluðu um matargerð og heimili. Þegar heim til Hjördísar var komið lærðist fljótt að það stoðaði lítt að afþakka veitingar, innan stundar var kominn kaffibolli, diskur og fat með smurðu brauði og kræsingum sem maður gat ekki staðist. Þessi hægláta kona naut þess að vera í faðmi fjölskyldunnar, hún var einstaklega kærleiksrík, var alltaf til staðar, reyndist mér traustur vinur. Hún skipti aldrei skapi eða sagði ófagurt um nokkurn mann, var ávallt tilbúin að aðstoða eða létta undir ef svo bar undir. Þær voru ófáar ánægjustundirnar sem drengirnir okkar Ragnhildar áttu með ömmu sinni. Þeir minnast ferðanna með ömmu og afa í sælureitinn í Laugarási sem þau hófu að byggja upp eftir að þau fluttu á Selfoss. Sögustundirnar, maturinn hennar ömmu og oft er talað um pitsuna hennar sérstöku sem hún hóf að gera löngu áður en þær urðu þekktar hér á landi. Það var sama hvað Hjördís tók sér fyrir hendur, allt var unnið af alúð og með einstakri þolinmæði. Hún var listamaður góður, saumaði, prjónaði, heklaði, málaði myndir og á postulín. Fjölmargra af þessum verkum hennar fær fjölskyldan notið. Þegar út var komið voru það garðurinn, blómin og grænmetið, allt svo snyrtilegt og fínt. Ég er fullur þakklætis fyrir þær stundir sem við áttum og kveð þessa merku konu með hennar eigin orðum: „Takk fyrir allt það sem þú gerðir fyrir okkur.“

Kári Helgason.