Dagný Hermannsdóttir fæddist á Seyðisfirði 24. mars 1942. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli Hvolsvelli 28. desember 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Gísladóttir, f. 28. mars 1916, d. 17. nóvember 2009, og Hermann Hermannsson, f. 3. febrúar 1907, d. 21. júlí 1976.

Hún var þriðja í röðinni af systkinum sínum en þau eru: 1) Smári, f. 1938, maki Elva Jónsdóttir, f. 1940, látin 2023. 2) Gígja, f. 1940, látin 2000, maki Guðmundur Jónsson, f. 1935, látinn 2007. Seinni maður Gígju er Önundur Björnsson, f. 1950, þau slitu samvistum. 3) Hermann, f. 1948, maki Sigríður Guðmundsdóttir, f. 1950. 4) Gísli, f. 1954, maki Margrét Kristjánsdóttir, f. 1954. 5) Ragnheiður, f. 1956, maki Hugo Þórisson, f. 1949, látinn 2013. 6) Stefán, f. 1957, maki Arnfríður Einarsdóttir, f. 1957.

Dagný giftist Inga Ísfeld Guðjónssyni, f. 1943, látinn 2022. Börn þeirra eru: 1) óskírð dóttir, f. 1962, d. 1962. 2) Hermann, f. 1963, börn Telma Björk, Unnur Lilja, Jón Þór, Daníel Dagur. 3) Guðrún, f. 1964, maki Gunnar Sveinsson, f. 1961, börn Magnús Ingi, Ragnheiður Elín. 4) Lára, f. 1967. 5) Ingi, f. 1969, börn Viktor Ingi, Hjálmar Andri, Maron Lárus. Fyrir átti Dagný soninn Ívar Ásgeirsson, f. 1959, faðir Ásgeir Vilhjálmsson f. 1938. Maki Ívars er Þórunn Árnadóttir, f. 1957, dóttir þeirra er Dagný, f. 1986. Langömmubörnin eru orðin sex og eitt í viðbót er á leiðinni.

Seinni maður Dagnýjar var Páll Axelsson, f. 1935, d. 2009.

Dagný fluttist með fjölskyldu sinni til Akureyrar árið 1948 þar sem hún gekk í barna- og unglingaskóla, en að því loknu stundaði hún svo nám við Héraðsskólann á Núpi 1957-1958.

Hún fluttist á Hvolsvöll fyrir tvítugt með fjölskyldu sinni sem rak þar félagsheimilið Hvol um tíma og þar kynntist hún tilvonandi manni sínum Inga Ísfeld Guðjónssyni. Hún hafði mikinn áhuga á alls kyns félagsstörfum og var ötul á þeim vettvangi og lét mikið að sér kveða, hún átti til að mynda stóran þátt í stofnum leikskóla á Hvolsvelli. Samhliða barnauppeldi og heimilisstörfum á stóru heimili starfaði hún svo á símstöðinni. Ingi og Dagný slitu samvistum árið 1977 og fluttist hún þá til Reykjavíkur. Dagný starfaði hjá Sjónvarpinu sem myndveljari í myndstjórn í allnokkur ár.

Árið 1988 giftist hún Páli Axelssyni og saman ráku þau húsgagnaverslunina Útskála. Þau hjónin fluttust svo til Lúxemborgar og ráku þar fiskvinnslu á ferskum fiski frá Íslandi, ásamt því að reka fiskbúð, sem naut mikilla vinsælda hjá Íslendingasamfélaginu.

Þau hjónin fluttust aftur til Íslands árið 1997 og Dagný vann um tíma hjá Hollustuvernd. Vefjagigtin var orðin verulega slæm þá svo hún varði mestum sínum tíma eftir það í að rækta heilsuna, vera með fjölskyldunni og hitta gömlu skóla- og vinnufélagana. Á efri árum fór svo málstol að gera vart við sig og síðar heilabilun.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 15. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku amma.

Við kveðjum þig með söknuði en hlýju yfir góðum minningum um sól á meginlandinu, bollukaffi, jólatónleika Sinfóníunnar og spjall yfir rjúkandi pítsu og smákökum.

Við kveðjum þig með undirleik lagsins sem þú unnir svo:

Dagný

Er sumarið kom yfir sæinn

og sólskinið ljómaði um bæinn

og vafði sér heiminn að hjarta,

ég hitti þig, ástin mín bjarta.

Og saman við leiddumst og sungum

með sumar í hjörtunum ungu,

- hið ljúfasta, úr lögunum mínum,

ég las það í augunum þínum.

Þótt húmi um hauður og voga,

mun himinsins stjörndýrð loga

um ást okkar, yndi og fögnuð,

þótt andvarans söngrödd sé þögnuð.

(Tómas Guðmundsson)

Þín barnabörn,

Telma Björk, Unnur Lilja og Jón Þór.

Á mínum sokkabandsárum taldi ég næsta víst, að Skóggerðingar væru ódauðlegir. – Þeir eru allir svo hraustir fallegir og gáfaðir, sagði mamma. Og ég trúði mömmu. Svo kastaði ég af mér kotinu með sokkaböndunum og öllu saman. Þar með fór barnstrúin smátt og smátt að gefa sig fyrir staðreyndum lífsins. Skóggerðingar reyndust ekki eilífir; Gíslar falla ásamt Dagnýjum; nú síðast hélt Dagný Hermannsdóttir í Sumarlandið. Reyndar var frænka mín löngu lögð af stað og hefur eflaust verið hvíldinni fegin.

Um tíma bjó frænka mín með öðrum frænkum mínum og frændum í Hafnarstræti 3 á Akureyri. Þar byggðu hjónin Sigríður Gísladóttir, móðursystir mín, og Hermann Hermannsson, þá bryti á farskipum, fjölskyldu sinni heimili eftir að þau fluttu austan af fjörðum. Hermann var löngum að heiman vegna siglinganna, en það var ævintýri að koma í Hafnarstrætið þegar hann var nýkominn heim. Hann kom alltaf færandi hendi með ýmsan varning sem sjaldan sást á íslenskum heimilum. Sælgætið maður minn, Mackintosh og annað góðgæti, sem aldrei sást í verslunum á þessum árum.

Já, útlenda sælgætið er mér vissulega minnisstætt, en einna minnisstæðast er það sem Hermann færði dætrum sínum oftar en einu sinni. Það voru hvítar mýs eða rottur, ég var aldrei viss um hvort var. Systurnar Dagný og Gígja höfðu þær í stórum kassa eða búri í herbergi sínu og margir komu til að skoða þessi sérkennilegu gæludýr, sem þær systur voru einstaklega natnar við.

En svo var Hermann fluttur yfir á Hamrafellið, sem var stærsta skipið í flotanum. Það sigldi fyrst og fremst til Sovétríkjanna eftir olíu og losaði í Reykjavík, en kom aldrei til Akureyrar. Þar með flutti fjölskyldan úr Hafnarstræti 3 suður og var það okkur Skóggerðingum sem eftir sátu mikill og sár missir. Við héldum sambandinu, en tíminn leið og unga fólkið markaði sér lífsleið eftir getu og áhuga.

Dagný frænka mín var einstaklega vel gerð kona, bráðmyndarleg og vel gefin. Hún var um margt lík Sigríði móður sinni; sagði skemmtilega frá og var ræðin. Það var alltaf gaman að hitta hana; hvort heldur sem var á ættarmótum eða bara á förnum vegi í Reykjavík. Við tókum hvort öðru alltaf fagnandi og hún lét mig finna, að sá fögnuður var einlægur. Mér er í minni ræða sem hún hélt á ættarmóti í Skógargerði forðum. Þar sagði hún einstaklega skemmtilega frá „vinnukonuárum“ sínum í Skógargerði; það er eins og mig minni að hún hafi ásamt frændfólki sem var með henni í sveit meðal annars dundað sér við að skrautmála hænurnar hennar ömmu á meðan eldra fólkið var að leggja sig eftir matinn!

Fyrir nokkrum árum fór minnið að svíkja Dagnýju og á endanum hvarf hún í grámósku heilabilunar og hefur síðustu árin dvalið á hjúkrunarheimili. En hún var lánsöm; það var vel um hana hugsað af hjúkrunarfólki, börnum hennar og systkinum, sem öll voru einstaklega artarsöm við Dagnýju. En allt tekur enda. Nú situr frænka mín eflaust að spjalli við aðra Skóggerðinga í sumarlandinu. Þar verður sitt hvað sagt. Blessuð sé minning Dagnýjar Hermannsdóttur.

Gísli Sigurgeirsson.

Dagný Hermannsdóttir, sú glæsilega Akureyramær, var skólasystir okkar á Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði veturinn 1957 til 1958.

20 árum eftir að við skildum á hlaðinu á Núpi hóuðum við skólasystkinin okkur saman. Fyrst á samkomu þar sem við fundum að það var hugur í mannskapnum að halda sambandi. Upp frá því héldum við stóra hátíð á fimm ára fresti. Þegar því tímabili lauk fórum við að hittast mánaðarlega í kaffi. Það var kosin nefnd sem sá um að halda utan um hópinn og hittingana.

Dagný var með í nefndinni í mörg ár og sérlega áhugasöm og dugleg við að viðhalda þessari góðu vináttu sem varð til þarna í einangruninni á Núpsskóla. Hún var glaðlynd og hress og alltaf til í að taka til hendinni þegar á þurfti að halda. Hún mætti vel á hittingana okkar þar til að heilsan fór að bila og hún ekki lengur með getu til að hafa samskipti við aðra. Við í nefndinni heimsóttum hana fyrir tveimur eða þremur árum á Kirkjuhvol sem er heimili fyrir aldraða á Hvolsvelli. Þar virtist henni líða vel og vel um hana hugsað.

Þessi stutta grein er rituð til að þakka hennar góða framlag til að halda hópnum okkar saman. Hennar hefur verið saknað úr hópnum eftir að hún var ekki lengur fær um að mæta.

Við sendum börnum hennar og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Dagnýjar.

F.h. skólasystkina frá Núpsskóla 1957-58,

Vilhelmína Salbergsdóttir.