Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
„Það er erfitt að setja þetta í orð, þetta er svo óraunverulegt. Ég hef fylgst með þessu í beinni útsendingu og það er agalegt að horfa á þessa atburði því þeir rifja upp eldgosið í Vestmannaeyjum fyrir 50 árum þar sem ég bjó á þeim tíma. Þá fór húsið okkar undir hraun tveimur mánuðum eftir að það byrjaði að gjósa. Það er erfitt núna að sjá eldinn gleypa hvert húsið af öðru í beinni útsendingu,“ segir Kjartan Friðrik Adólfsson, Grindvíkingur og aðalbókari Grindavíkurbæjar.
Kjartan hefur tvisvar á ævinni upplifað að þurfa að flýja heimili sitt vegna eldsumbrota og að eldgos brýst út á jaðri heimabæjarins þar sem glóandi hraun flæðir yfir hús. Hann var átta ára gamall þegar eldgosið hófst í Heimaey árið 1973 og fjölskylda hans var meðal þeirra sem þurftu að flýja heimili sín upp á land. Tók fjölskylda hans sér búsetu í Grindavík til frambúðar.
Þótt hann væri ungur að árum þegar eldgosið hófst í Vestmannaeyjum eru atburðirnir honum í fersku minni. „Á einum degi var maður rifinn upp með leikfélögunum og næsta dag er ég allt í einu kominn í allt annað umhverfi. Núna þarf maður að takast á við þetta að segja má hinum megin við borðið sem uppalandi og foreldri,“ segir hann.
„Maður er að reyna að átta sig á því hvað það er undarlegt að þetta skuli hafa átt sér stað tvisvar í byggð á Íslandi og að ég hafi upplifað að búa í báðum bæjarfélögunum þar sem atburðirnir eiga sér stað,“ segir hann.
Kjartan segir að líklega hafi hátt í 200 einstaklingar flutt frá Vestmannaeyjum og sest að í Grindavík vegna gossins 1973. Flutt voru inn 40 Viðlagasjóðshús sem reist voru í hverfi sem ber nafnið Eyjabyggð. „Þeir fóru svo smátt og smátt að tínast í burtu eins og gengur, einhverjir fóru aftur til Eyja og aðrir sameinuðust fjölskyldum annars staðar. Ég held að við höfum verið fimm eftirlifandi sem bjuggum í Grindavík þegar þessir atburðir byrjuðu,“ segir hann.
Kjartan segir að eins og útlitið var í gær sé hús hans og eiginkonu hans Geirlaugar Geirdal í Grindavík ekki í yfirvofandi hættu. Það stendur við Norðurvör 1, í svokölluðu Eyjahúsi, vestan Víkurbrautarinnar og er vestast í bænum en hraunið rann inn í byggðina austan Víkurbrautarinnar. „Eins og staðan er núna, þá er húsið okkar ekki í hættu vegna eldsumbrotanna en það er þó ef til vill í hættu ef einhverjar skemmdir verða vegna skorts á hita eftir að heitavatnslögnin fór í sundur,“ segir hann.
Flúðu bæinn strax
Kjartan og fjölskylda hans hafa ekki gist í Grindavík frá því að rýmingin átti sér stað 10. nóvember. Hafa þau verið í íbúð á vegum ættingja en nýlega fengu þau svo íbúð til búsetu í lengri tíma. „Við höfðum gælt við það að í lok þessa mánaðar gæfist kannski svigrúm til að fara og dvelja meira heima í Grindavík. Þegar tilkynnt var að rýma ætti bæinn annað kvöld höfðum við hugsað okkur að fara í dag til Grindavíkur og sækja borð og stóla og fleiri húsmuni. Við erum með fatnað og annað sem við þurfum á að halda dagsdaglega en búslóðin er í húsinu okkar í Grindavík,“ segir hann.
Kjartans segist skynja alls konar tilfinningar sem bærast með íbúum Grindavíkur, jafnvel örvæntingu, en sumir séu vongóðir og með bjartsýnina að leiðarljósi, þó hún hafi sjálfsagt dofnað núna þegar hraunið er farið að flæða inn í bæinn. „Maður verður bara að vera bjartsýnn áfram og vonast til þess að geta farið aftur til Grindavíkur og tekið þátt í uppbyggingu,“ segir Kjartan að lokum spurður hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér í bænum.