Varðskip Skipverjar á Ægi urðu vitni að því þegar hvalir komust í æti.
Varðskip Skipverjar á Ægi urðu vitni að því þegar hvalir komust í æti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Illa gengur að stækka þorskstofninn þrátt fyrir mikla friðun og nú stefnir í nær enga loðnuveiði í vetur sem er bagalegt fyrir þjóðarbúið. Ætli hvalurinn sé sökudólgurinn?

Halldór B.Nellett

Mikil umræða hefur undanfarið verið um hvalveiðar og þá aðallega hvalveiðibann og hvernig að því var staðið. Margir telja hvalveiðar algjörlega óþarfar og okkur til skammar. Þetta séu svo gáfuð dýr að ótækt og siðlaust sé að drepa þau. Skil samt ekki alveg þau rök og hef ekki séð nein „greindarpróf“ tekin á þessum dýrum. Má þá bara veiða heimsk dýr? Þær hvalategundir sem við Íslendingar höfum verið að veiða undanfarin ár eru alls ekki í útrýmingarhættu.

Svo er lykilspurningin, hvað éta þessar skepnur mikið af sjávarfangi hér við land?

Aðalfæða skíðishvala eins og langreyðar sem við höfum verið að veiða er svifkrabbadýr, einkum ljósáta. Einnig étur langreyður uppsjávarfisk, loðnu og sílategundir. Fæða hnúfubaka er fjölbreytt en aðallega svif, áta og smáfiskur, s.s. sandsíli og loðna.

Mig langar því að segja hér frá einu atviki sem ég varð vitni að upp úr sl. aldamótum þegar ég var skipherra á varðskipinu Ægi. Við vorum við eftirlit á Halamiðum sem eru fengsæl veiðislóð togara djúpt undan norðanverðum Vestfjörðum. Margir togarar voru þar að veiðum og fréttum við eftir samtal við skipstjórana að aflinn væri prýðisgóður. Ég ákvað því að senda stýrimann og einn af hásetum Ægis í eftirlitsferð um borð í nokkra togara eins og oft er gert ef veður leyfir, aflabrögð könnuð, fiskurinn lengdarmældur, möskvastærð botnvörpunnar könnuð, farið yfir öryggismálin, lögskráningar o.fl.

Við mælingar okkar um borð í nokkrum togurum kom fljótlega í ljós að talsvert var um smáfisk á svæðinu, aðallega þorsk. Einnig var eitthvað um loðnu á svæðinu sem hafði ánetjast í veiðarfæri togaranna.

Eins og reglur segja til um í svona tilvikum var farið yfir alla togferla skipanna sem skoðuð voru eða það svæði sem viðkomandi togari fór um með veiðarfærin. Við Ægismenn settum þetta síðan út í sjókort til að við gætum áttað okkur á svæðinu og hvað það væri stórt. Síðan hafði ég samband við skipstjórana og saman ákváðum við endanlega stærð svæðisins með tilliti til togslóða umræddra togara.

Að þessu loknu hafði ég samband við vakthafandi fiskifræðing á Hafrannsóknastofnun eins og reglur sögðu til um og upplýsti hann um hvað hátt hlutfall smáfisks var í afla togaranna sem í þessu tilviki var langt yfir svokölluðum viðmiðunarmörkum og lagði til að umræddu svæði yrði lokað. Fiskifræðingurinn var fljótur að samþykkja lokunina sem var á nokkuð stóru svæði og til varð svokölluð skyndilokun sem varði í eina eða tvær vikur. Togaraskipstjórum var síðan gefinn ákveðinn frestur til þess að koma sér út úr fyrirhugaðri lokun, einhverjir tveir, þrír klukkutímar.

Meðan á þessu stóð hafði ég tekið eftir nokkrum hvalablástrum sem ekki var óalgengt. Þar sem ekkert sérstakt lá fyrir á næstunni ákvað ég að stöðva Ægi og láta fyrirberast inni í hólfinu og fylgjast með þegar togararnir yfirgáfu svæðið. Þegar lokunin gekk í gildi voru allir togararnir farnir af svæðinu til veiða á öðrum slóðum.

Mér er það enn í fersku minni þegar ég leit út um brúarglugga Ægis, svona um það leyti sem skyndilokunin tók gildi, þá voru hvalablástrar úti um allan sjó inni í umræddri skyndilokun.

Oft hafði ég séð hvali bæði stóra og smáa en aldrei neitt þessu líkt.

Þarna voru margir tugir hvala og nokkuð ljóst hvað þeir voru að gera, þó ég gæti auðvitað ekki sannað það, en án efa að gæða sér á loðnu og smáfiski og eflaust einhverju öðru góðgæti.

Mest sýndist mér þetta vera hnúfubakur ásamt öðrum smáhvölum. Ég hafði auðvitað engin ráð til að bregðast við þessum „meintu ólöglegu veiðum“ og horfði á þetta dolfallinn og hugsaði með mér: „Það var þá til einhvers að loka þessu svæði.“

Ég hef oft velt því fyrir mér og gerði þarna, hvað ætli þessar skepnur, bæði stórhveli, hrefnur o.fl., éti mikið af smáfiski, loðnu, sandsíli og öðru? Fer ekki að verða tímabært að rannsaka þetta almennilega áður en þeir éta okkur út á gaddinn? Og ekki einungis á sumrin heldur líka þegar loðnan gengur upp að landinu í febrúar, mars?

Einhverjar rannsóknir hafa farið fram hér áður fyrr með hvalatalningu og reiknilíkönum.

Á Vísindavefnum segir eftirfarandi:

„Hér við land er talið að hvalir éti um 6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega sem skiptist niður í um 4 milljónir tonna af átu og smokkfiski og 2 milljónir tonna af fiski. Hrefnan er langatkvæðamesta fiskætan en talið er að hún éti um 1 milljón tonna af fiski á ári. Ýmsir óvissuþættir eru í þessum útreikningum og gefa þeir fyrst og fremst grófa mynd af áti hvalanna.“

Illa gengur að stækka þorskstofninn þrátt fyrir mikla friðun og nú stefnir í nær enga loðnuveiði í vetur sem er bagalegt fyrir þjóðarbúið. Ætli hvalurinn sé sökudólgurinn?

Auðvitað eigum við að veiða hval og nýta til verðmætasköpunar án þess að stofna þeim í hættu með ofveiði og stórauka rannsóknir. Vistkerfi sjávar er flókið og því er enn meiri ástæða til að efla rannsóknir á því.

Nokkuð ljóst er að hvölum hefur fjölgað mikið hér við land á undanförnum áratugum og mun fjölga enn meir ef engar veiðar verða leyfðar og þá mun sneiðin til okkar mannfólksins af stóru kökunni sem sjávardýr við Ísland eru alltaf verða minni og minni.

Höfundur er fyrrverandi skipherra.

Höf.: Halldór B.Nellett