Eyjar Hraun í Heimaeyjargosinu 1973 og Grindavíkureldar nú hafa farið yfir byggð, brennt hús og lagt í auðn. Framvindan nú er afar óljós.
Eyjar Hraun í Heimaeyjargosinu 1973 og Grindavíkureldar nú hafa farið yfir byggð, brennt hús og lagt í auðn. Framvindan nú er afar óljós. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Atburðarás í eldgosum getur verið margvísleg. Í þessum atburðum núna í Grindavík er ekkert sem nær út fyrir rammann. Breytileikinn í svona náttúruhamförum getur verið mjög mikill,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Atburðarás í eldgosum getur verið margvísleg. Í þessum atburðum núna í Grindavík er ekkert sem nær út fyrir rammann. Breytileikinn í svona náttúruhamförum getur verið mjög mikill,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus. Páll hefur fylgst vel með framvindu gossins sem hófst í gærmorgun, en telur ómögulegt að segja til um þróun þess og framvindu eða hve lengi það kunni að standa.

Eldgosið í Heimaey 1973 þótti vera með sínu sérstaka lagi og sama máli gegnir um Surtseyjarelda sem stóðu frá 1963 til 1967. Einnig Gjálpargosið 1996; stórt gos sem átti upptök sín undir þykkri íshellu Vatnajökuls. Þá voru Kröflueldar á árunum 1975 til 1984 frá sjónarhóli jarðvísindanna um margt athyglisverðir; níu eldgos á jafn mörgum árum. Fjögur fyrstu gosin voru smágos en svo komu fimm mun stærri. Síðasta gosið var stærst. Einnig má rifja upp Holuhraunsgos sem rætur sínar átti í Bárðarbungu á Vatnajökli. Það kom upp á auðnunum norðan jökuls, stóð lengi og hraun frá því náði yfir afar víðfeðmt svæði. Séu Heklugos rifjuð upp, þá er einkenni þeirra að vera afar mikil í upphafi og byrja nánast fyrirvaralaust.

Í nágrenni þéttbýlis

Eyjagosið árið 1973 og Grindavíkurgosið nú eiga sameiginlegt að hafa komið upp í næsta nágrenni þéttbýlis – þannig að glóandi hraun náði mjög fljótt húsum, brenndi þau og eyðilagði. Rannsóknir sýndu að fyrr eða síðar myndi gjósa í Grindavík, en hvort slíkt yrði á okkar tímum eða eftir aldir vissi enginn. Annars hefur sést mikill breytileiki í þeim fimm eldgosum sem komið hafa nú á um þremur árum. Geldingadalagosið sem kom fyrst var í raun mjög kraftlítið, en stóð samt í hálft ár. Það stoppaði sennilega 30-40 sinnum og lá stundum niðri í allt að heila viku. Upphaf gosanna í Meradölum og við Litla-Hrút var mjög öflugt og sama má segja um gosið við Sundhnúkagíga nú í desember. Þau dóu þó öll út á fáeinum dögum – og sama gæti gerst í því gosi sem nú er hafið, segir Páll.

Gosin í Geldingadölum, Meradölum og við Litla-Hrút komu öll úr sama eldstöðvakerfi. Desembergosið og svo jarðeldarnir núna koma úr öðru kerfi, að sögn Páls Einarssonar. Hvort eða hvernig þau tengjast verða bergfræðirannsóknir sem nú fara fram að svara.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson