Grimm „Þetta er heldur þéttari saga og kannski að einhverju leyti grimmari,“ segir Guðmundur Ingi Markússon.
Grimm „Þetta er heldur þéttari saga og kannski að einhverju leyti grimmari,“ segir Guðmundur Ingi Markússon. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Þetta er morðsaga á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar,“ segir Guðmundur Ingi Markússon um nýja bók sína Svikabirtu, sem er önnur bókin í þríleik sem hófst á verkinu Skuggabrúin (2022) og hann skrifar undir nafninu Ingi Markússon

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Þetta er morðsaga á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar,“ segir Guðmundur Ingi Markússon um nýja bók sína Svikabirtu, sem er önnur bókin í þríleik sem hófst á verkinu Skuggabrúin (2022) og hann skrifar undir nafninu Ingi Markússon.

„Sumir kalla þetta sjálfstætt framhald og hún er það að nokkru leyti. Meginþráðurinn gerist um fimm árum eftir að Skuggabrúnni lýkur. Ný aðalpersóna er kynnt til sögunnar sem heitir Agni og hans þráður er sjálfstæður til að byrja með. Það eru framin dularfull morð og hann tekst á við þennan illvirkja og leggur í ferðalag yfir heimskautið til þess. Þannig fer Svikabirta af stað sem sjálfstætt verk en fléttar sig svo rækilega inn í meginsöguþráðinn sem hófst í Skuggabrúnni. Þá koma aðalpersónur fyrri bókarinnar, Dimmbrá, Hnikar og Ugla, aftur við sögu.“

Spurður hvernig hafi verið að vinna Svikabirtu miðað við Skuggabrúna segir Guðmundur: „Heimurinn lá fyrir. Þannig að á meðan Skuggabrúin, sem er svolítið kosmísk og goðafræðileg, gekk út á að kanna þennan heim þá gat ég meira farið í samskipti milli persóna, þroskasögu og annað slíkt í Svikabirtu. Þetta er heldur þéttari saga og kannski að einhverju leyti grimmari.“

Þriðja bókin er síðan komin vel á veg. „Þar erum við að kanna hluti í þessari heimsmynd sem við höfum ekki séð áður. Við skoðum fortíðina og förum langt inn í framtíðina. Jafnframt, þegar allt er tekið saman, mynda þær allar einn söguþráð,“ segir Guðmundur.

Fornfálegur framtíðarheimur

„Í raun og veru hefði Skuggabrúin getað staðið stök. Hún opnar á ákveðna möguleika við sögulok og það hefði verið hægt að láta staðar numið þar. Ég var með hugmyndina að Svikabirtu og var byrjaður á henni áður en Skuggabrúin kom út. Mér fannst spennandi að halda áfram að kanna þessa veröld. Það má líka segja að framhaldsbókin sé svolítið í eðli þessarar tegundar bókmennta, fantasíunnar. Það er alltaf hægt að halda áfram. Og núna þegar ég er langt kominn með þriðju bókina sé ég að það var rétt ákvörðun.“

Guðmundur skapar mikinn heim í þessum bókum, kalda heimskautaveröld í fjarlægri framtíð. „Ég þurfti að leysa ákveðin vandamál um það hvernig heimurinn virkaði áður en ég gat farið að skrifa. Svo áskoranirnar voru kannski mestar áður en ég hófst handa. Plottið í Skuggabrúnni snýst um heimsmyndina. Það þurfti því að leysa ákveðna mekaníska hluti svo ferðalagið gengi upp,“ segir hann.

„Kannski stærsta áskorunin er að fá lesandann til að trúa á heiminn. Það eru ólíkar aðferðir til þess. Tungumálið er ein leið. Þótt sagan eigi að gerast í fjarlægri framtíð þá er þetta samt fornfálegur heimur. Ég forðast kerfisbundið tæknilegt orðfæri og það eru viss nútímaorð sem ég beinlínis sleppi. Ég held að það sé eitt af því sem dregur fólk inn svo það geti trúað þessu á meðan það les.“

Hefnd, trú og gervigreind

Lesandinn kemst fljótt að því að í söguheimi þríleiksins hefur mannkynið dáið út. „Þarna er ný manntegund sem hefur þróast, sem erfir á vissan hátt fallinn heim. Það eru þarna leifar af hátækni og annað sem þessi nýja tegund skilur ekki til fulls. Það er líka ljóst að þarna hefur orðið einhver umhverfiskatastrófa,“ segir höfundurinn.

„Að því sögðu er ég ekki áhugasamur um að færa fram einhvern boðskap. Mér finnst skemmtilegra að þarna séu þræðir sem megi túlka. En auðvitað hefur maður skoðanir sem koma kannski fram. Þarna er fjallað um vald og valdleysi. Sögupersónurnar eru háðar duttlungum þeirra sem ráða. Einmanaleiki kemur við sögu, hjá þeim sem hrekjast á flótta, þeim sem eru í valdastöðum, og á ýmsan annan hátt.“

Hann bætir við að í Svikabirtu sé trúarlíf ákveðið þema. „Ég er menntaður í trúarbragðafræðum. Þó svo ég sé kannski ekkert kerfisbundið að nota eitthvað þaðan þá litar það hvernig maður hugsar um trúarlíf og hvernig það þróast. Síðan koma fyrir samskipti fólks og véla og vangaveltur um meðvitund og þar með gervigreind. Án þess að það sé þema sem sé dregið skýrt fram þá liggur það á bak við. Svo er hefndin þema í báðum bókum.“

Síðasta stjarnan slokknar

Andstæðurnar ljós og myrkur eru einnig áberandi. „Í Skuggabrúnni er myrkur allan tímann. Himintunglin hafa öll horfið. Það er ein stjarna eftir sem hverfur í fyrsta kaflanum. Eftir það ríkir myrkrið. Í Svikabirtu kemur sólin upp og það sést aftur til stjarna en sólarljósinu fylgja hættur, það er svikabirta. Þetta eru andstæður sem eru erkitýpískar og heillandi. Myrkrið skapar andrúmsloft. Það var þægilegt í Skuggabrúnni að þurfa aldrei að hafa áhyggjur af tíma dags, það var alltaf myrkur. En ég þurfti að leggja töluverða vinnu í gang sólar í Svikabirtu og skoða hvernig birtir á heimskautinu. Þar er í rauninni bara ein nótt og einn dagur yfir árið,“ segir Guðmundur.

„Fyrsta kveikjan að sögunni var viðtal sem ég sá við stjarneðlisfræðing. Hann sagði að alheimurinn væri stöðugt að þenjast út, hraðar og hraðar, og það myndi enda með því að fjarlægðir milli sólkerfa yrðu svo miklar að ljósið næði ekki á milli þeirra. Hann dró upp þessa mynd: Ef þú gætir legið nógu lengi, heila eilífð, og horft til himins myndirðu sjá stjörnurnar slokkna eina af annarri. Þetta var eitthvað svo myndrænt. Ég sá strax fyrir mér tvær fígúrur sem verða vitni að þessu. Þetta gekk ég með lengi þar til ég fór að skrifa. Það var eftir að ég fór í ferðalag til Svalbarða sem var svolítið eins og að stíga inn í þennan heim.“

Guðmundur segir að lagt sé upp með að síðasta bókin í þríleiknum komi út fyrir næstu jól. „Ekki nema ég týnist og lendi í einhverjum ógöngum.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir