Við upplifum nú hrikalega atburði. Atburði sem fara í sögubækurnar til allrar framtíðar.
Það er erfitt að skrifa grein um slíkt þegar það er nýhafið. Þegar ég hóf skrif með annað augað á útsendingu frá eldsumbrotunum sá ég að hraunið var komið nærri húsi vinafólks í Grindavík.
Ég beið í von um að atburðarásin skýrðist og vonaði að það drægi úr hraunflæðinu en þegar þetta er skrifað ríkir enn algjör óvissa um framtíð Grindvíkinga.
Bæjarbúar hafa mátt þola hryllilegt ástand og viðvarandi óvissu mánuðum og árum saman. Nú vitum við að vonir okkar um að þetta liði allt hjá án frekara tjóns eru að engu orðnar.
Við blasir ástand sem við höfum ekki upplifað í 50 ár, eða frá því að gaus í Heimaey.
Á neyðartímum standa Íslendingar saman, allir sem einn. Það munum við gera núna. En nú þegar áfall er orðið, þótt óvissa ríki enn, skulum við öll sverja þess dýran eið að þær raunir sem Grindvíkingar eru að ganga í gegnum gleymist ekki eða missi vægi eftir að umbrotunum lýkur.
Einsetjum okkur að tryggja framtíð Grindvíkinga og Grindavíkur hversu langan tíma sem það tekur og hvað sem síðar kann að grípa athyglina.
Grindvíkingar þurfa á stuðningi okkar að halda en þeir þurfa líka alla þá vissu sem hægt er að veita í óvissuástandi. Vissu um að þjóðin öll, stjórnmálamenn, stjórnkerfið og almenningur muni standa með þeim. Loforð um að við sameinumst um að bæta tjón eins og kostur er og loforð um að samfélag með sögu sem hófst fyrir meira en 1000 árum muni lifa áfram, sama hvar og hvernig það verður.
Á næstu misserum þarf allt að snúast um Grindvíkinga, það mun kalla á að stjórn verði náð á málaflokkum sem hafa verið stjórnlausir. Það kallar á nýja forgangsröðun og endurmat útgjalda og það kallar á þrautseigju eins og þá sem Grindvíkingar hafa sýnt.
Heimaey reis úr öskunni en andlega áfallið sem fólk mátti þola lifir enn með mörgum. Þannig verður það líka meðal Grindvíkinga. Þrátt fyrir þrautseigjuna munu grindvískar fjölskyldur þurfa aðstoð samfélagsins á mörgum sviðum.
Hana munum við veita nú og til framtíðar. Einungis þannig getum áfram kallað okkur Íslendinga.
Höfundur er formaður Miðflokksins. sdg@althingi.is