Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Mikil fækkun hefur orðið á beiðnum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á síðustu misserum. Um 2,4 milljarðar hafa verið endurgreiddir fyrir síðasta ár vegna endurbóta einstaklinga á íbúðarhúsnæði en árið á undan námu þær endurgreiðslur 7,9 milljörðum króna. Fjöldi afgreiddra umsókna fyrir 2023 er nú 14.115 en þær voru 35.771 árið á undan. Nemur fækkunin 61% milli ára. Hins vegar kunna enn að vera umsóknir sem bíða afgreiðslu hjá Skattinum.
Skýring á þessari fækkun kann að liggja í því að stjórnvöld hættu með hið svokallaða Allir vinna-úrræði sem komið var á til að bregðast við efnahagssamdrætti af völdum kórónuveirunnar. Það fól í sér hækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts úr 60% í 100%. Átakið stóð fram á mitt ár 2022 en náði hámarki árið 2021 þegar 42.265 umsóknir um endurgreiðslu frá eintaklingum voru afgreiddar og tæpir 10 milljarðar króna voru greiddir út.
Umsóknum um endurgreiðslu frá almannaheillafélögum hefur sömuleiðis fækkað mikið síðustu tvö árin. Þær voru 281 árið 2021 en 34 í fyrra. Þá fengu almannaheillafélög um 40 milljónir króna endurgreiddar.
Breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi endurgreiðslu af greiddum virðisaukaskatti af vinnu á verkstað, vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds um mitt síðasta ár. Hlutfallið var þá lækkað úr 60% niður í 35%. Hins vegar er enn hægt að sækja um 60% endurgreiðslu fyrir tímabilið 1. september 2022 til 30. júní næstu sex ár frá framkvæmdatíma. Hið sama gildir um 100% endurgreiðslu fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. ágúst 2022.