Guðný Bech fæddist í Reykjavík 2. apríl 1950. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 5. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Halldór Bech flugstjóri, f. 9. júlí 1921, d. 10. september 1994, og Lára Bech, verkakona og húsmóðir, f. 26. mars 1924, d. 20. mars 2005.

Bróðir Guðnýjar var Þórarinn Bech prentari, f. 21. júlí 1948, d. 14. september 2023. Þórarinn var ógiftur og barnlaus. Börn Guðnýjar eru: 1) Anna R. Ingvarsdóttir, f. 19.6. 1970, eiginmaður hennar er Pétur V. Reynisson og eiga þau þrjú börn: Ingvar Hugin, Lilju Hugrúnu og Baldur Hrafn. 2) Halldór Rune Bech, f. 18.9. 1979, eiginkona hans er Auður Jónsdóttir og eiga þau einn son, Tryggva. 3) Lára Björg Grétarsdóttir, f. 7.9. 1988, eiginmaður hennar er Hafsteinn Hjartarson og eiga þau þrjú börn: Grétar Snæ, Eriku Diljá og Eldar Kristján.

Guðný ólst upp í Reykjavík. Tvítug flutti hún til Noregs í ár og fór þaðan til Danmerkur þar sem hún bjó í u.þ.b. níu ár en flutti aftur til Íslands árið 1980.

Guðný fór í nám í Danmörku og útskrifaðist sem sjúkraliði. Hún vann stærsta hluta starfsævi sinnar sem sjúkraliði, fyrst á öldrunarheimili í Árósum, svo á áfangaheimili í Víðinesi (Bláa Bandinu) og endaði hún starfsævina á Droplaugarstöðum.

Útför Guðnýjar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 15. janúar 2024, klukkan 11.

Í dag kveð ég mömmu mína og það er sárt. Þær eru margar minningarnar sem renna í gegnum hugann. Mamma var falleg kona, að utan sem innan. Hún var hlý, góð og skemmtileg. Fólk laðaðist gjarnan að henni og hún tók hverjum og einum eins og hann var. Hún kenndi mér margt, meðal annars að maður kemst langt á góðmennsku og kurteisi, að öll erum við mismunandi og við höfum engan rétt til að dæma aðra. Hún var mjög umhyggjusöm enda starfaði hún sem sjúkraliði stærstan hluta starfsævi sinnar. Hún vann við aðhlynningu aldraðra og undi sér vel í því starfi. Hún talaði fallega um starf sitt og af miklum áhuga sem varð til þess að ég fór í hjúkrunarfræði. Ég var líka svo heppin að fá að vinna með henni nokkur sumur og tók ég mér hana til fyrirmyndar.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá mömmu og það má segja að hún hafi ekki alltaf valið sér einföldu leiðina í lífinu, hún var einstæð móðir og vann mikið. En okkur skorti aldrei neitt og meira að segja þegar ég varð unglingur og langaði í einhverjar rándýrar flíkur sem „allir áttu“ fékk ég þær líka þrátt fyrir að fjárhagurinn væri oft naumur. Hún var opin fyrir öllum óskum mínum, til að mynda fékk ég kött, hamstur og fiska sem endaði svo með að hún þurfti að sjá um þessi dýr mín. Hún studdi mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og ég fann og veit að hún var stolt af mér.

Henni fannst æðislegt að eignast barnabörn og var svo hrifin af þeim öllum. Hún kom út til okkar í Svíþjóð á hverju ári meðan heilsan leyfði. Þar áttum við góðar stundir og það voru ófá skiptin sem horft var á bíómyndina Mamma Mia! en hún var í miklu uppáhaldi hjá mömmu og okkur öllum.

Mamma lagði mikið upp úr því að vera vel til höfð og klæddi sig upp á þegar hún fór út úr húsi og þótti skemmtilegt að kaupa sér föt. Hún vildi hafa fötin í fallegum litum. Það var svo yndislegt að fá hana í heimsókn og hún búin að punta sig upp og ljómaði eins og sólin. Hún var líka svo mikill húmoristi og það sem við gátum hlegið saman, aðallega á eigin kostnað samt.

Þegar við bjuggum á Íslandi komu þau ósjaldan til okkar, mamma og Tóti frændi. Mamma kom þá oft með köku sem hún hafði bakað og við komum okkur fyrir í sófanum, horfðum á mynd í sjónvarpinu og höfum það notalegt.

Hún var aðeins rúmlega fimmtug þegar lungnasjúkdómurinn fór að segja til sín og heilsan fór svo hægt versnandi eftir því sem árin liðu. Sjúkdómurinn skerti lífsgæði hennar verulega en hún var samt svo jákvæð og umburðarlynd gangvart veikindunum og tókst að lifa með sjúkdómnum og aldrei kvartaði hún. Einstöku sinnum gat hún sagt „æi, þessi elli kerling er alveg að fara með mig“ þegar lungnabólgur herjuðu á hana.

Það var mikið áfall fyrir hana þegar Tóti bróðir hennar dó en þau voru svo samrýnd alla tíð. Elsku mamma mín, nú eruð þið sameinuð á ný og ég veit að þú ert komin á góðan stað þar sem þú getur andað léttara. Ég kveð þig með sorg og þakklæti í huga.

Þín

Anna.

Elsku mamma. Það er óhætt að segja að þú hafir átt níu líf þar sem upp hafa komið erfið tímabil undanfarin ár tengt þínum veikindum sem hafa verið löng og erfið. Þegar þú varst sem veikust þá héldum við oft að þú værir að yfirgefa okkur en alltaf komstu til baka. Þegar þú veiktist skyndilega nú á nýju ári þá var fyrsta hugsunin: „Hún nær sér úr þessu eins og hún hefur alltaf gert.“ Ég hef reynt að hugga mig í gegnum erfiðu veikindin þín undanfarin ár með því að hugsa að sorgin geti varla verið meiri en í þau skipti sem við héldum að við værum að kveðja þig en ég finn það núna að það er ekkert sem gat undirbúið mig fyrir að missa þig alveg.

Mínar fyrstu minningar með þér eru frá því að við vorum í Víðinesi. Ég man tilfinninguna sem fylgdi því að bíða með ömmu eftir því að þú kláraðir vinnu. Ég man eftir að standa útí glugga og horfa á þig ganga heim, yfir bílaplanið og grasið. Ég var svo spennt að fá þig heim að ég stökk alltaf af stað til að hoppa í fangið þitt og fylgja þér heim. Þú varst svo hlý og þolinmóð.

Ég á margar dýrmætar minningar sem ég mun alltaf rifja upp þegar ég þarf á þér að halda. Ég hélt mikið upp á baðferðir með þér eða ein. Þegar ég kom upp úr fékk ég dekur frá þér. Ég fékk hrein föt, þú greiddir á mér hárið og passaðir að fæturnir væru mjúkir og neglurnar vel snyrtar. Þú fórst yfirleitt snemma upp í rúm til að lesa og borða popp eða nammi. Ég man að ég hafði unun af því að leggjast hjá þér, ég fann svo mikla ró og vellíðan á þessum stundum. Ég er ekki svo viss um að þú hafir verið sammála þar sem ég kjaftaði þig stundum í kaf þegar þú varst að reyna að eiga góða stund. Ég svaf líka lengi uppi í á milli þín og pabba því mér fannst svo gott að finna hlýjuna þína, klípa þig í olnbogabótina, fikta í hárinu þínu og svo hélt ég stundum fast í hálsmenið þitt til að þú færir ekki frá mér.

Ef það var til smá aukapeningur þá fórstu stundum með mig í Kringluna og leyfðir mér að velja mér flík eða skó, það fannst okkur gaman. Vegna veikinda þinna hefurðu ekki getað eldað undanfarin ár og það er eitthvað sem ég mun alltaf sakna. Þú gerðir dásamlega góðan mat, sérstaklega heili kjúklingurinn með brúnu sósunni, salatinu og baunum. Þegar Grétar fæddist varstu stoð mín og stytta í fæðingunni og fyrst um sinn. Þú varst mikil amma þegar þú hafðir heilsu til og varst öll af vilja gerð fyrir barnabörnin þín. Ég var líka svo ánægð með hvað þú varst alltaf yfir þig hrifin af Hafsteini mínum. Ég var svo heppin að vinna með þér á Droplaugarstöðum þar sem þú heillaðir alla með vinnusemi þinni og elju. Þú varst stoltur sjúkraliði og ég leit upp til þín. Þú varst góð vinkona og leituðu margir til þín.

En elsku mamma. Nú ertu farin og mér finnst svo ósanngjarnt að ég hafi ekki fengið að fylgja þér lengur því það er margt sem ég á eftir að upplifa sem ég vil svo gjarnan hafa þig með í. Þrátt fyrir að vegir þínir hafi verið grýttir á köflum og ýmislegt gengið á sem hafði áhrif á samband okkar þá varstu samt alltaf mamma mín. Ég elska þig. Þín dóttir,

Lára Björg Grétarsdóttir.

Guðnýju kynntist ég þegar þau Ingvar bróðir minn felldu hugi saman ung að árum. Eftir að Anna Ragnheiður dóttir þeirra fæddist 19. júní 1970 bjuggu þær mæðgur hjá okkur í Álfheimum um sumarið. Það var yndislegt að hafa þær á heimilinu og var ansi tómlegt í kotinu eftir að þær fluttu til Noregs þar sem bróðir minn stundaði nám. Guðný hafði starfað í Svíþjóð og talaði góða sænsku. Þegar hún vildi að litla mágkonan gerði sér greiða sagði hún „snälla rara“ (elsku besta) í blíðum tón sem ég stóðst að sjálfsögðu aldrei og gerði allt sem hún bað mig um. Þátt fyrir mikinn aldursmun á þessum árum, hún tvítug og ég 14 ára, myndaðist ævilög vinátta á milli okkar sem aldrei hefur fallið skuggi á. Þau Ingvar fluttu síðan til Danmerkur þar sem Ingvar stundaði nám og Guðný vann. Þau bjuggu í námsmannanýlendu í litlu húsi upp á þrjár hæðir. Ég heimsótti þau þegar ég var 17 ára og kom óvænt í heimsókn. Þegar Guðný opnaði og sá mig kallaði hún í Ingvar og sagði að systir hans væri komin. Þá svaraði hann: „Hver af þeim?“ en hann átti eina systur. Eftir að leiðir skildi með þeim Ingvari bjuggu þær mæðgur áfram í Danmörku um stund en fluttu síðan heim til Íslands. Það var ómetanlegt að fá þær heim og var Anna alla tíð mikið hjá ömmu og afa í Álfheimum. Þvílík gleði fyrir alla og þær nöfnur voru mjög nánar.

Guðný var einstaklega falleg kona, ytra sem innra. Hún var yndisleg og vildi öllum vel, alltaf glöð í minningunni. Líf hennar var ekki alltaf dans á rósum en hún gerði sitt besta, menntaði sig og missti aldrei sitt góða skopskyn og áttum við ófá hlátursköst saman yfir einhverri vitleysunni. Undanfarin ár hafa verið þung fyrir Guðnýju vegna veikinda en alltaf var stutt í hláturinn þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm. Guðný eignaðist einnig börnin sín, Halldór og Láru sem er yngst þeirra systkina. Hún var afar náin bróður sínum Þórarni, Tóta, sem féll frá nýlega. Nú er komið að leiðarlokum í þessu jarðlífi en minning elsku Guðnýjar lifir áfram meðal okkar sem þekktum hana og elskuðum. Ég sendi afkomendum og ástvinum Guðnýjar mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Rósa Marta Guðnadóttir.