Harpa Orðin ansi þétt bókuð á mestu háannatímunum, segir Svanhildur Konráðsdóttir um starfið framundan.
Harpa Orðin ansi þétt bókuð á mestu háannatímunum, segir Svanhildur Konráðsdóttir um starfið framundan. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Um 1,2 milljón gesta komu í Hörpu á síðasta ári en þar voru þegar allt er saman talið um 1.400 viðburðir; tónleikar, leik- og óperusýningar, ráðstefnur, fundir, veislur, messur og markaðir. Fjölbreytnin er mikil og því er ekki að ástæðulausu að Harpa er stundum sögð vera samkomuhús allra landsmanna

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Um 1,2 milljón gesta komu í Hörpu á síðasta ári en þar voru þegar allt er saman talið um 1.400 viðburðir; tónleikar, leik- og óperusýningar, ráðstefnur, fundir, veislur, messur og markaðir. Fjölbreytnin er mikil og því er ekki að ástæðulausu að Harpa er stundum sögð vera samkomuhús allra landsmanna. Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri segir að áætlanir um starfsemi í húsinu og rekstur þess við árið í fyrra hafi gengið upp og viðburðafjöldinn hafi verið met.

„Harpa er í raun borgartorg undir þaki og er opið þeim fjölmörgu sem vilja nýta húsið fyrir alls konar viðburði. Sinfóníuhljómsveit Íslands myndar kjarnann í tónleikahaldinu með um 100 viðburði á ári og við reynum að tryggja gott aðgengi alls konar tónlistar,“ segir Svanhildur. „Við dagskrárstefnu Hörpu er lögð áhersla á að húsið er heimavöllur og heimssvið fyrir tónlist auk þess sem við stöndum sjálf fyrir fjölbreyttri fjölskyldudagskrá og opnum borgartorgsviðburðum.“

Fjölbreytni og gæði

Hörpustrengir er dótturfélag Hörpu en hlutverk þess er að standa fyrir völdum viðburðum sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og myndu að öllu jöfnu annars ekki verða að veruleika. Dagskrárráð er ráðgefandi um val á viðburðum og tryggir fjölbreytni og gæði. Nýlegt dæmi um þetta segir Svanhildur að séu stórkostlegir tónleikar fiðluleikarans Anne-Sophie Mutter og Mutter Virtuosi í Eldborg, en Magnús Lyngdal Magnússon gagnrýnandi Morgunblaðsins valdi þá nýverið sem eina af bestu klassísku tónleikum ársins 2023.

„Í Hörpu felast dýrmæt tækifæri til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag og Harpa er ekki síður alþjóðlegt ráðstefnuhús sem getur hýst stórviðburði á borð við Hringborð norðurslóða, leiðtogafund Evrópuráðsins eða Evrópsku kvikmyndaverðlaunin,“ segir Svanhildur.

Flestir þeirra um 1.400 viðburða sem efnt var til í Hörpu á síðasta ári voru á vegum þeirra sem pöntuðu salarkynni. Flestir eigin viðburða Hörpu tilheyra barna- og fjölskyldudagskrá og voru 44 þeir talsins. Svo eru stakir stærri viðburðir eins og t.d. Menningarnótt með um 40 viðburði eða ballettinn Hnotubrjóturinn og erlendir listamenn sem falla í heimssviðsflokkinn. Aðrir viðburðir eru á vegum annarra en hússins. Ráðstefnur, fundir og tengdir viðburðir hafa til að mynda aldrei verið fleiri en á árinu 2023, eða á sjötta hundrað, og fjöldi listviðburða var 688. Slíkt er fyrir utan starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar. Þá voru í Hörpu í fyrra haldnar tæplega 200 leiksýningar.

„Fyrirvarinn varðandi flesta viðburði er að meðaltali 7-8 mánuðir – en í raun spannar hann allt frá bókunum sem eru gerðar samdægurs upp í sex ára fyrirvara. Stærri fundir, ráðstefnur og tónleikar eru yfirleitt bókaðir með 1-2 ára fyrirvara eða meira,“ segir Svanhildur. Hún segir að Hörpu berist á ári hverju mörg tilboð frá umboðsmönnum og listafólki um allan heim og sé þeim hugmyndum gjarnan komið á framfæri við reynda viðburðahaldara.

„Ég myndi sjálf vilja fá hingað einhverja af þessum stóru, flottu, bandarísku sinfóníuhljómsveitum eins og Chicago, Boston eða New York Phil – en það er gríðarlega dýr pakki sem erfitt er að raungera. Draumatónlistarkona á mínum radar var einnig sítarleikarinn Anoushka Shankar sem Tónleikur ákvað svo að flytja inn og heldur tónleika í Eldborg í apríl,“ segir forstjórinn.

Víkingur Heiðar með þrenna tónleika

Einn stærsti viðburður ársins 2024 sem Harpa stendur fyrir eru tónleikar með Bamberg, einni fremstu sinfóníuhljómsveit Þýskalands. Hún kemur fram 20. apríl nk. undir stjórn Jakub Hruša sem nýlega var ráðinn næsti tónlistarstjóri Konunglega óperuhússins í Covent Garden í London. Einleikari á tónleikunum verður franski píanóleikarinn Hélène Grimaud. Sama dag, 20. apríl, verður Klassíski krakkadagurinn þar sem tvær sinfóníuhljómsveitir bjóða upp á barnadagskrá, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Bamberg. Annar hápunktur verður svo þegar Víkingur Heiðar heldur þrenna tónleika í febrúar í tilefni 40 ára afmælis síns þar sem hann leikur Goldberg-tilbrigðin. Þá verður ein af skærustu stjörnum Íslendinga, Laufey, með tvenna tónleika í mars og hin sænska Zara Larson og Tina Dickow og Helgi Hrafn Jónsson koma einnig fram í sama mánuði. Skálmöld verður svo á árinu með þrenna tónleika þar sem hljómsveitin leikur tvær mismunandi plötur á kvöldi og fer þannig í gegnum þær allar á þremur kvöldum.
Harpa verður svo í burðarhlutverki á opnunarhátíð Listahátíðar í Reykjavík þegar nýtt, hrífandi verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur verður flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands upp um hæðir í fordyri hússins. Þá hefur verið lögð mikil áhersla á að opna fyrir grasrót tónlistarlífsins og sinna vel barna- og fjölskyldumenningu og slíku og segir Svanhildur að það sé mikilvægt hvað varðar samfélagslegt hlutverk hússins.

Þetta fallega hús

„Harpa er í eigu þjóðarinnar og áherslumál okkar er að krakkar á öllum aldri, óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða færni, eigi greiðan aðgang að fjölskyldudagskrá hússins. Frá síðasta hausti hefur verið unnið markvisst með inngildingu og bættu aðgengi í samstarfi við fjölmarga aðila, svo sem Félag heyrnarlausra, Blindrafélagið, Rauða krossinn, List án landamæra og fleiri með góðum stuðningi frá Barnamenningarsjóði. Barnarýmið Hljóðhimnar, sem er sannkallað upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur til að uppgötva ævintýraheim hljóðs og tón, hefur svo slegið í gegn og þar slær hjarta barnamenningar í Hörpu,“ segir Svanhildur, og að lokum:

„Mér sýnist að þetta ár geti orðið á svipuðu róli hvað varðar fjölda viðburða. Við erum að minnsta kosti orðin ansi þétt bókuð á mestu háannatímunum. Svo er í raun alltaf tilefni til að kíkja í Hörpu jafnvel þótt leiðin liggi ekki á viðburði. Þá er spáð metfjölda ferðamanna og þar sem Harpa er einn fjölsóttasti áfangastaður þeirra í Reykjavík hlökkum við til að taka á móti góðum gestum í þetta fallega hús.“

Hver er hún?

  • Svanhildur Konráðsdóttir hefur verið forstjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss frá vordögum 2017. Hún er fædd og uppalin á Akureyri, starfaði við blaðamennsku og ritstjórn uns leiðin lá til Bretlands í háskólanám í samskipta- og ímyndarfræðum með áherslu á stjórnmál og menningu.
  • Svanhildur starfaði hjá Sjónvarpinu við þáttinn Dagsljós en síðan að menningar-, markaðs- og ferðamálum, lengst af sem sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs hjá Reykjavíkurborg.
Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson