Kolbrún Bergþórsdóttir
Skyndilega sá ég einhvers staðar frétt þess efnis að helmingur þjóðarinnar væri búinn að setja sig í alveg sérstakar stellingar vegna alþjóðlegs boltamóts. Spenningurinn á víst að vera óskaplegur. Hann hefur algjörlega farið fram hjá mér. Kannski lifir maður bara í eigin heimi þar sem stór hluti af raunveruleikanum fer algjörlega fram hjá manni.
Allavega eru þessar fréttir af því sem kallast stórmót í íþróttum ekki góðar. Mótum eins og þessum fylgir ýmiss konar rask. Fréttatímar á Ríkissjónvarpinu raskast til dæmis iðulega. Það er mjög pirrandi að ætla að horfa á fréttatíma og sjá þá einungis spriklandi íþróttamenn. Það er viðbúið að þetta gerist einnig nú, þrátt fyrir að RÚV sé með aukarás sem ætti að vera hönnuð fyrir atburði eins og þessa.
Svo verður að segjast eins og er að maður verður ekki mikið var við að Íslendingar séu að skara fram úr öðrum þjóðum í íþróttum. Þess vegna finnst manni þetta húllumhæ allt í kringum íþróttakeppnir vera tóm tímaeyðsla. Á meðan eigum við listamenn á heimsmælikvarða, en fátt er sagt frá þeim í fréttum.
Þessi íþróttaveröld er skrýtin en um leið afskaplega heimtufrek og fær alltaf sitt pláss, þrátt fyrir ótal tapleiki.