Erling Laufdal Jónsson fæddist 21. desember 1954. Hann lést 2. desember 2023. Útför hefur farið fram.

Elsku Erling, mér finnst þú kveðja allt of snemma. Ég hefði samt hugsanlega átt að merkja af okkar síðustu samtölum í hvað stefndi. Sérstaklega í haust þar sem þú baðst mig að skrifa minningargrein um þig og draga ekkert undan, það sem meira var, þú vildir fá að sjá greinina á meðan þú varst á lífi. Ég benti þér á að maður skrifar ekki minningargrein um lifandi mann, þú sættir þig við það en tókst af mér loforð um að ég skrifaði minningu um þig að þér látnum. Tæpum tveimur mánuðum síðar ertu allur. Ef ég á að skrifa minningargrein og draga ekkert undan, þá gæti ég rétt eins skrifað heila bók. Ég læt því þessi fáu minningarorð fylgja þér inn í sumarlandið.

Ég byrjaði að vinna hjá Erling á níunda áratugnum í Nautinu, þá nýflutt til Keflavíkur, og vann hjá honum næstu sjö árin. Fyrst á Nautinu í Keflavík, síðar í Hafnarfirði og að endingu á skrifstofu Sælgætisgerðarinnar Völu. Erling var hörkusölumaður og hafði gott „nef“ fyrir viðskiptum, hann kenndi mér margt gott og var minn helsti „mentor“ í viðskiptum á sínum tíma. Erling hafði svo sannarlega munninn fyrir neðan nefið og fór létt með að halda hverja söluræðuna á fætur annarri. Það fór oft mikið fyrir honum enda stór og litríkur persónuleiki, duglegur og með endalausar hugmyndir um nýjar leiðir til tekjuöflunar. Ég kynntist mörgu góðu fólki í gegnum störf mín hjá Erling og vil nota tækifærið og þakka öllum gott samstarf. Þegar ég lít til baka var einna skemmtilegasti tíminn okkar saman í vinnu þegar við vorum á Austurgötunni í Hafnarfirði og framleiddum pítsur og hrásalat. Við Erling vorum með pítsukynningar svo til alla föstudaga í hinum ýmsu matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þar seldum við pítsur og salat í „bílförmum“. Erling var þarna í góðum málum, búinn að kaupa íbúð fyrir sig og fjölskylduna og koma vel undir sig fótunum. Ég átti alltaf í góðum samskiptum við konu Erlings, Hafdísi, og man vel eftir börnum hans, Ragnheiði og Brynjari, sem litlum krökkum, hann var afar stoltur af þeim. Við Erling héldum vinskap okkar áfram í gegnum árin þrátt fyrir að við værum langt frá því að vera sammála um alla hluti. Eftir að hann flutti úr landi lét hann alltaf heyra í sér þegar hann kom til Íslands. Mér er það minnisstætt að í gegnum öll þessi ár voru fyrstu spurningar Erlings til mín ávallt um hvað væri að frétta af fólkinu mínu. Þegar hann var búinn að fá upplýsingar um sem flesta og að allir væru í lagi, þá gat samtal okkar hafist.

Kæri vinur, ég á svo sannarlega eftir að sakna símtalanna okkar. Þú tókst einlæglega þátt í sorginni vegna dauðsfalla sem orðið hafa í fjölskyldu minni undanfarin ár. Studdir mig og komst með huggunarorð, þrátt fyrir að þú værir í annarri heimsálfu. Það er hægt að segja ýmislegt um þig Erling en ég get vitnað um að þú varst góður maður með stórt hjarta. Börnum þínum og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð. Elsku Erling, blessuð sé minning þín.

Gyða Hrönn
Gerðarsdóttir.