Sérsveitin Gauti Sigurgeirsson, Sonja Steinarsdóttir, Þorsteinn Þórólfsson og Almar Freyr Valdimarsson klár í slaginn fyrir utan Hofbrähaus í gær.
Sérsveitin Gauti Sigurgeirsson, Sonja Steinarsdóttir, Þorsteinn Þórólfsson og Almar Freyr Valdimarsson klár í slaginn fyrir utan Hofbrähaus í gær. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kópavogsmærin Sonja Steinarsdóttir er ein af þeim sem er í forsvari fyrir Sérsveitina, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins í handbolta, en hún hefur verið meðlimur í stuðningsmannasveitinni frá árinu 2018

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kópavogsmærin Sonja Steinarsdóttir er ein af þeim sem er í forsvari fyrir Sérsveitina, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins í handbolta, en hún hefur verið meðlimur í stuðningsmannasveitinni frá árinu 2018.

Sveitin var stofnuð árið 2018, á gólfinu í Húsasmiðjunni, eins og Sonja orðar það sjálf en hún er mætt á sitt sjötta stórmót hjá landsliði Íslands.

Hún fór á sitt fyrsta stórmót árið 2019, einmitt í Þýskalandi, þegar heimsmeistaramótið var haldið í Danmörku og Þýskalandi. Hún hefur mætt á öll stórmót karlalandsliðsins síðan þá, að undanskildu heimsmeistaramótinu í Egyptalandi árið 2021 þegar kórónuveirufaraldurinn var í hámarki en hún fylgdi íslenska kvennalandsliðinu einnig til Noregs í nóvember á síðasta ári.

„Ætli það sé ekki hægt að titla mig sem ákveðinn skipulagsaðila innan sveitarinnar og ég sé um öll samskipti sveitarinnar, við HSÍ meðal annars. Annars erum við öll saman í þessu og við reynum að vinna hlutina saman,“ sagði Sonja í samtali við Morgunblaðið.

Ellefu mætt á EM

Kjarninn í Sérsveitinni hefur nánast verið sá sami frá stofnun sveitarinnar.

„Við ræddum það á sínum tíma hvort það þyrfti ekki að stofna handboltadeild innan Tólfunnar en svo var ákveðið að stofna sér stuðningsmannasveit. Kjarninn í Sérsveitinni er í rauninni sá sami í dag og þegar sveitin var stofnuð. Það eru í kringum 15 til 17 manns í sveitinni í dag en við erum ellefu hérna úti núna til þess að styðja liðið á EM.

Það myndast alltaf skemmtilegri stemning þegar bæði konur og karlar vinna að sama markmiðinu og það er ein af ástæðum þess að ég var dregin inn í þetta á sínum tíma. Konur eru ekki endilega staðalímyndin að stuðningsmanni og við vildum breyta því. Þetta er ótrúlega skemmtilegt starf að fá að taka þátt í og þetta er eitt það skemmtilegasta sem maður gerir, að styðja íslensku landsliðin.“

Fer alla leið

Sonja er mætt til Þýskalands með alla fjölskylduna með sér en hún er gift Almari Frey Valdimarssyni og saman eiga þau tvær dætur.

„Þegar ég geri eitthvað þá fer ég alla leið í því, allavega í flestu og að fara á sitt fyrsta stórmót í München árið 2019 var mikil upplifun. Við vorum mun færri þá sem fylgdum landsliðinu eftir, ætli við höfum ekki verið um 350 manns þegar mest lá við. Ári síðar, á EM 2020 í Austurríki, Noregi og Svíþjóð vorum við svo í kringum 650 manns sem fylgdum liðinu þannig að aukningin hefur orðið svakalega mikil á síðustu árum.

Janúar er svo dauður mánuður heima á Íslandi og þessi stórmót í handboltanum bjarga algjörlega þessum mánuði að mínu mati. Undanfarin ár höfum við nýtt sumarfríið okkar í það að fylgja liðinu eftir og þetta er alltaf jafn gaman. Maðurinn minn og dætur okkar tvær eru til dæmis með okkur núna og foreldar mínir komu líka út með okkur til þess að hafa auga með stelpunum inn á milli. Það er líka stór hópur sem fylgir okkur fjölskyldunni í ár sem gerir þetta ennþá skemmtilegra,“ sagði Sonja í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason