María Arnlaugsdóttir fæddist 19. júní 1921 í bænum Akurgerði í vesturbæ Reykjavíkur. Hún lést 10. desember 2023 á Hlévangi í Reykjanesbæ.

Foreldrar hennar voru hjónin Arnlaugur Ólafsson bóndi og verkamaður í Reykjavík, f. 8. ágúst 1888, d. 2. september 1971, og Guðrún Guðmundsdóttir, saumakona og húsfreyja, f. 6. september 1884, d. 6. ágúst 1943.

Systkini Maríu voru Guðmundur, f. 1913, d. 1996, Skúli, f. 1916, d. 1917, Sigríður, f. 1918, d. 2007, Ólafur, f. 1920, d. 1984, Helgi, f. 1923, d. 2019, Elías, f. 1925, d. 2000, og Hanna, f. 1928, d. 1984.

María giftist hinn 24. apríl 1943 Guðlaugi Þórðarsyni, f. 11. janúar 1921 á Hallanda í Hraungerðishreppi, lést 24. desember 1993 á Landspítalanum. Hann var sjómaður og verkamaður í Keflavík. Foreldrar Guðlaugs voru hjónin Þórður Helgason, bóndi í Hraungerðishreppi og síðar verkamaður í Keflavík, f. 17. júní 1870, d. 11. apríl 1951, og Gróa Erlendsdóttir, f. 4. júní 1877, d. 28. febrúar 1960.

Börn Maríu og Guðlaugs: 1) Guðfinna, f. 28. júlí 1940, d. 5. nóvember 2018, gift Jóni Stefánssyni, f. 7. október 1939, d. 25. janúar 2023. Þau eignuðust tvær dætur, fjögur barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 2) Gunnar, f. 23. nóvember 1944, kvæntur Þorbjörgu Guðnadóttur, f. 10. október 1948. Þau eignuðust fjögur börn og átta barnabörn. 3) Þórdís Gróa Uhrich, f. 4. febrúar 1947, gift Roger Uhrich, f. 1. júní 1947, d. 27. september 2012. Hún eignaðist tvær dætur, fimm barnabörn og tvö barnabarnabörn. 4) Erna, f. 18. ágúst 1948, gift Hirti Kristjánssyni, f. 10. janúar 1952. Þau eignuðust tvö börn og fjögur barnabörn. 5) Hafdís Lilja, f. 30. apríl 1960, gift Guðmundi Ásgeiri Guðmundssyni, f. 25. apríl 1960. Þau skildu. Þau eignuðust fjögur börn og níu barnabörn.

María ólst upp í Reykjavík hjá foreldrum sínum. Hún gekk í Barnaskólann við Tjörnina og síðan Gagnfræðaskóla Reykjavíkur; Ingimarsskóla, þar tók hún gagnfræðapróf þar sem lögð var áhersla á vélritun og bókfærslu, sem kom sér vel síðar á starfsævinni. Hún flutti til Keflavíkur 1943 og bjó þar til æviloka. Hún vann sem húsmóðir, saumakona, í veitingaþjónustu og við ýmis verslunar- og skrifstofustörf. Síðustu 23 ár starfsævinnar vann hún í Sparisjóðnum í Keflavík, þar sem hún var deildarstjóri og meðal annars kosin fyrsti formaður starfsmannafélagsins.

Helstu áhugamál hennar voru hannyrðir, ferðalög og lestur. Eftir að hún flutti að Hlévangi fékkst hún við að púsla og hlusta á hljóðbækur, ásamt því að taka þátt í félagslífinu á heimilinu.

Útför Maríu fór fram í kyrrþey frá Keflavíkurkirkju 5. janúar 2024 og jarðsett í Hólmbergskirkjugarði í Reykjanesbæ.

Fallin er frá tengdamóðir mín María Arnlaugsdóttir, elsti íbúi Reykjanesbæjar, á 103. aldursári. María lést 10. desember 2023 á Hlévangi í Reykjanesbæ.

Ég man ekki hvernig María og Laugi tóku mér fyrir 50 árum þegar ég fór að gera hosur mínar grænar fyrir dóttur þeirra. Hvernig skyldi stráklingur með hár niður á herðar hafa komið þeim fyrir sjónir? Ég man þó að mér var tekið eins og öðrum fjölskyldumeðlimum í jóla- og afmælisboðum á þessum árum. Þannig líður tíminn og börnin uxu úr grasi með góðum stuðningi frá ömmu og afa á Faxabrautinni. Það var alltaf tekið vel á móti börnunum í hádeginu á skólatíma og þeir voru ófáir pulsupakkarnir sem runnu þar í gegn ásamt örugglega einhverju hollu góðgæti. Skólamatur var ekki kominn til starfa á þessum árum. Aðeins nestisbox með samloku og kókómjólk.

Hérna í den var María oft að glugga í dönsku tímaritin „Se og hör“ og þess háttar. Ég tók eftir því að búið var að ráða krossgátur í tímaritunum, auðvitað á dönsku. Ég spurði Maríu að þessu og hún sagði mér að þegar hún var ung stúlka hefði hún átt danskan pennavin og til að halda dönskunni við væri hún að dunda við að ráða krossgátur á dönsku.

María var afar félagslynd kona og var oft leitað til hennar ef þurfti að skipa í stjórnir félaga. Hún kom að stjórnun hjá Verkakvennafélaginu og Laugi var á svipuðum tíma í stjórn Verkalýðsfélagsins. Hún var formaður í Árnesingafélaginu um tíma og tók þátt í félagsstarfinu hjá Félagi eldri borgara og söng í Eldeyjarkórnum, sem er kór eldri borgara. María var fyrsti formaður starfsmannafélags Sparisjóðsins sem var stofnað 1977.

Ég minnist þess þegar ég vann í Sparisjóðnum að oft var sest niður í kaffi- og matartímum og menn tóku stuttar skákir. Allir kunnu að tefla skák á þessum tíma. Einu sinni var ákveðið að taka þátt í fyrirtækjakeppni hjá skákfélaginu í Keflavík. Þá urðu menn gjarnan uppteknir og höfðu ekki tíma fyrir það. Leitað var til Maríu með að tefla með liðinu og hún sló til og tefldi með körlunum í Sparisjóðnum og hún var svo auðvitað eina konan sem tefldi í mótinu.

Fyrir stuttu rakst ég á ökuskírteini Maríu. Þar kemur fram að ökuskírteinið hafi fyrst verið gefið út 1963 og það rann síðast út í ágúst 2016. Hún hafði sem sagt haft ökuréttindi þar til hún varð 95 ára. Ekki rekur mig minni til að hún hafi nokkurn tíma lent í neinum stóráföllum á bílnum og kannski segir það meira til um sjálfstæði hennar að hún lét sig hafa það að endurnýja skírteinið árlega með allri þeirri skriffinnsku og læknisheimsóknum sem þurfti til. Ég veit ekki til þess að nokkur pressa hafi verið sett á Maríu með að hætta að keyra. Það var ákvörðun sem hún tók þegar henni þótti nóg komið af akstri. Hún lagði bílnum og setti hann á sölu.

Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að vera samferðamaður Maríu í rúmlega 50 ár, bæði sem fjölskyldumeðlimur og samstarfsmaður í Sparisjóðnum í Keflavík. Nú er komið að kveðjustund.

Blessuð sé minning Maríu Arnlaugsdóttur.

Hjörtur Kristjánsson.

Hún mamma mín var einstök.

Hún kenndi mér umhyggju, þú hugsar vel um þá sem þér þykir vænt um, engin mörk þar. Hún flíkaði ekki tilfinningum sínum, sýndi umhyggju ekki með blíðuatlotum en var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda, heil og sterk. Hún var dugleg að koma í heimsókn og viljug að sinna barnabörnunum sem áttu hjá henni góðar stundir, þar sem alltaf var tími fyrir spil.

Hún var besta vinkona mín og ég stundum hennar, við
áttum okkar stundir þar sem hún sagði mér margt sem á daga hennar hafði drifið um ævina. Hún ásamt systkinum sínum ólst upp í strangri trú sem sýndi ekki alltaf mildi. Ekkert þeirra fylgdi þeirri hefð sem þarna var í heiðri höfð en öll voru þau góðar manneskjur sem sinntu sínu fólki af alúð, hvert með sitt sérsvið í vinnu gegnum árin. Þau lifðu lífi sínu í hófsemd og hugsuðu vel um að rækta líkama sinn. Afi fór sinna ferða á hjóli, þegar hann var á seinni árum farinn að vinna frá klukkan átta til
sextán sagðist hann vera að vinna hálfan daginn. Þegar hann hætti að vinna fór hann oft á Grund til að heimsækja og lesa fyrir íbúa þar. Hann var henni mjög kær.

Dugnaður einkenndi mömmu alla hennar daga, hún þáði ekki hjálp með nokkurn hlut þó svo hún ætti í vandræðum með að gera hlutina sjálf á seinni árum. Þetta gerði það að verkum að hún reif sig upp úr alvarlegum veikindum ítrekað og náði undraverðum bata sem hún viðhélt með því að hreyfa sig skipulega og borða reglulega. Hún lagði einnig áherslu á að þjálfa hugann, var á yngri árum góður skákmaður, leysti krossgátur á dönsku og íslensku í gegnum tíðina, las mikið og á sínum síðustu árum sat hún við púsl hluta úr hverjum degi. Hún var mikil handavinnukona, saumaði fatnað, heklaði og prjónaði á allt sitt fólk fram undir tírætt. Hún hafði mikinn áhuga á matargerð, oft var tilraunaeldhúsið í gangi, ýmsar uppskriftir sem hún fann úr dönsku blöðunum eða spann af fingrum fram, ég hafði mismikinn áhuga á þessum tilraunum á mínum unglingsárum en sé í dag að hún var langt á undan sinni samtíð. Hún bar gæfu til að finna sátt og aðlaga sig að þeirri getu sem hún hafði eftir veikindi hverju sinni í gegnum árin, jákvæðni og seigla voru henni í blóð borin. Hún sagði okkur í bréfi sem hún skildi eftir sig að hún hefði beðið fyrir afkomendum sínum á hverjum morgni og þakkað á hverju kvöldi.

Elsku mamma, takk fyrir að vefja mig umhyggju þinni með því að vita alltaf hvar ég var sem barn og unglingur og passa upp á að ég kæmi heil heim. Fylgjast vel með mér og mínum þegar ég varð fullorðin. Líf okkar hefur alla tíð verið samofið, þú hefur alltaf verið svo stór hluti af mínu daglega lífi. Elska þig alltaf.

Þín

Hafdís Lilja
(Haddý).

Komið er að því að kveðja Maríu Arnlaugsdóttur, eina af aðalpersónunum í mínu lífi. Amma hefur alla tíð átt alveg sérstakan stað í hjarta mínu. Ég hóf ævigöngu mína, með mömmu, í hennar húsum og er svo heppin að hafa haft hana nálæga mér allt mitt líf.

Amma var einstök kona; hógvær en um leið kröftug og sístarfandi, hvort sem það var við bakstur, hannyrðir, saumaskap, eldamennsku, að leggja kapal, leysa krossgátur, spila við barnabörnin, taka slátur, keyra í Þjórsárdalinn, fara á rúntinn, moka innkeyrsluna, lesa bækur og ljóð og Familie Journal. Þetta gerði hún allt með fullri vinnu en hún vann lengi sem deildarstjóri í víxladeild Sparisjóðsins í Keflavík. Hún naut þess að ferðast og tók í seinni tíð virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara, þangað sem hún m.a. skutlaði „gömlu konunum“ úr húsinu þar sem hún bjó, þær voru yngri en hún en löngu hættar að keyra. Sjálf keyrði hún eins og herforingi fram á tíræðisaldur og sló hvergi af. Þegar getan fór þverrandi tók hún sjálf ákvörðun um að nú væri tímabært að sækja um í dagdvöl fyrir eldri borgara og hún gekk í málið. Þannig var amma, hörkudugleg, tók ábyrgð á sjálfri sér og tók skynsamlegar ákvarðanir.

Í minningunni finnst mér að hún hafi alltaf átt óþrjótandi tíma og það var notalegt að koma til hennar. Hún var til staðar og bjó yfir þessari virku hlustun sem er svo gefandi. Hún fylgdist þannig vel með öllu sínu fólki og hafði velferð okkar allra að leiðarljósi.

Hún bjó yfir mannkostum og góðum gildum sem einkenndust af hógværð, heiðarleika og skyldurækni. Hún var stolt og sterk og það var reisn yfir henni. Hún hafði ekki þörf fyrir að vera í sviðsljósinu en valdist samt sem áður til forystu og naut virðingar fyrir störf sín. Hún mætti áföllum af æðruleysi en það má kannski segja að hún hafi verið óþarflega dul á eigin tilfinningar sem hún flaggaði ekki. Það var hins vegar létt verk að kalla fram hjá henni hlátur og manni duldist aldrei væntumþykjan sem hún bar fyrir fólkinu sínu.

Mér finnst við fjölskyldan einstaklega heppin að hafa fengið ömmu úthlutað í okkar líf. Ég veit að eftir því sem aldurinn færðist yfir þá vorum við oft að hafa smávegis áhyggjur af henni. Hún var að þvo bílinn, klifra upp á stól til að hengja upp jólaljósin eða taka niður gardínur, keyra á jeppa um sveitir landsins, halda jólaboð og svoleiðis og það mátti helst aldrei hjálpa henni. Ég trúi því þó að það sé nákvæmlega vegna þessa, að hún hélt stöðugt áfram, lét ekkert stoppa sig, gerði eins mikið og hún gat, að hún varð 102 ára gömul.

Amma var okkur í fjölskyldunni dýrmæt fyrirmynd. Hún var alltaf til staðar, stoð og stytta, tók þátt í sigrum okkar og sorgum á sinn stillta, raunsæja og vandaða hátt. Ég held að áhrifa hennar gæti í okkur öllum og að þannig lifi hún áfram.

Mér hefur alltaf þótt einstaklega vel við hæfi að hún ætti afmæli þann 19. júní, á hátíðis- og baráttudegi kvenna, af því að í mínum huga var amma kvenskörungur, hún var íslenska konan.

Ég mun varðveita dýrmæta minningu ömmu í hjarta mér um ókomna tíð.

Guðlaug María Lewis.