Sigríður Beinteins Sigurðardóttir, fv. innheimtufulltrúi hjá Reykjavíkurborg, fæddist í Hafnarfirði 4. nóvember 1931 og átti þar heima nánast alla tíð. Hún lést á heimili sínu í Hafnarfirði 1. janúar 2024.
Foreldrar Sigríðar voru Sigurður Árnason kaupmaður í Hafnarfirði, f. 7.8. 1879, d. 9.9. 1942, og eiginkona hans Gíslína Sigurveig Gísladóttir, f. 29.9. 1896, d, 26.10 1975. Þau voru bæði gift áður og höfðu misst maka sína; hann Sigurlínu Helgardóttur og hún Sigurjón Melberg Lárusson vélstjóra. Hálfsystkini Sigríðar voru: Samfeðra: Árni skipstjóri og hafsögumaður, f. 1908, Þráinn klæðskerameistari, f. 1911, og Halldór, matsveinn á togurum, f. 1913: Sammæðra: Sigurgísli Melberg, f. 29.6. 1919, d. 21.10. 2001, Sigríður Dagbjört, f. 13.9. 1920, d. 9.9. 2003, og Sigurjón Melberg, f. 27.11. 1921, d. 17.6. 1975. Alsystkini Sigríðar eru: Friðþjófur, f. 20.7. 1924, d. 15.1. 2023, Hulda Júlíana, f. 26.10. 1926, d. 24.8. 1928, Beinteinn, f. 26.6. 1928, d. 4.4. 2020, Hulda Júlíana, f. 30.7. 1929, d. 19.4. 2004.
Sigríður giftist aldrei og var mest alla tíð einhleyp en átti í stuttu sambandi við barnsföður sinn Geir Hjartarson, f. 24.11. 1936, d. 17.2. 2015. Barn þeirra er Sigurður Árni Geirsson, f. 27.3. 1968, maki Ásta Dagmar Ármannsdóttir, f. 14.2. 1970, þau eiga engin börn saman. Börn Sigurðar frá fyrra hjónabandi eru Daníel, f. 23.11. 1990, Georg, f. 27.8. 1994, móðir þeirra er Einhildur Steinþóra Þórisdóttir, f. 6.5. 1969, d. 27.1. 2021. Börn Ástu Dagmarar frá fyrra hjónabandi eru Oliver Jóhansson, f. 5.11. 1991, Vilmar Breki Jóhannsson, f. 31.7. 1995, og Birta Lind Jóhannsdóttir, f. 26.4. 1999.
Að loknum barnaskóla stundaði Sigríður nám við Flensborgarskóla og lauk þaðan gagnfræðaprófi árið 1949. Að skólagöngu lokinni tók Sigríður að sér hin ýmsu störf, m.a. í sælgætisgerðinni hjá bræðrum sínum sem hét Kaldá. Ævintýraþráin leiddi hana fljótlega út fyrir landsteina til Kaupmannahafnar þar sem hún starfaði sem húsþerna í um hálfs árs skeið á óðalssetri við góðan orðstír og var verðlaunuð með viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Að því loknu starfaði Sigríður á Fossunum, millilandaskipum, sem þerna og heimsótti margar borgirnar í Evrópu. Síðar starfaði Sigríður á Keflavíkurflugvelli við skrifstofustörf um nokkurra ára skeið eða þar til hún hóf störf hjá Reykjavíkurborg þar sem hún endaði starfsferilinn en þar starfaði hún í 32 ár og lauk þar störfum árið 1997.
Á sínum yngri árum æfði hún og lék með Haukum í handbolta en síðar áttu sundlaugarnar hug hennar allan. Sigríður stundaði sund og gufu reglulega sér til heilsubótar og félagsskapar og setti hún oft skemmtilegan svip á sundlaugarlífið í Hafnarfirði.
Að loknum starfsferlinum tók Sigríður þátt í hinum ýmsu félagsstörfum, hún var virk í félagsstarfi eldri borgara framan af, tók þátt í kórstarfinu og var oft hrókur alls fagnaðar í ferðum á vegum félagsins. Sigríður sótti kirkjustarfið í Hafnarfjarðarkirkju og var með í bænahópi og kórstarfi.
Útför hennar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. janúar 2024, klukkan 13.
Elsku mamma mín, hér skilur leiðir okkar, nú stígur þú út af stóra sviðinu og inn í sumarlandið og ég feta áfram lífsins braut vopnaður öllum þeim góðu heilráðum sem þú gafst mér upp í gegnum lífið. Elsku mamma mín, mér er efst í huga þakklæti fyrir samveruna og alla ástina og umhyggjuna sem þú veittir mér á lífsleiðinni, þú varst minn helsti stuðningsmaður og kletturinn sem tryggði velferð mína og gerðir mig að þeim manni sem ég er í dag og fyrir allt þetta er ég þér ævinlega þakklátur.
Við áttum mjög fallegt og sérstakt samband alla tíð sem var byggt á ást, kærleik og umhyggju. Þú bjóst okkur fallegt heimili í firðinum fagra í öruggu umhverfi og ég fékk kærleiksríkt uppeldi sem leiddi af sér glaðan og hamingjusaman dreng sem var umvafinn góðu fólki, frænkum og frændum, vinum og kunningjum. Þú kenndir mér að fara með faðirvorið og við saman bjuggum til okkar eigin bænir sem við fórum með áður en við kysstum hvort annað góða nótt.
Ég á margar minningar um þig mamma mín og allar eru þær fallegar, þú varst alveg einstök kona, svo yndisleg, hlý og skemmtileg, jákvæð og hress. Þú varst opin og hreinskiptin og alveg ófeimin í samskiptum við fólk, þannig áttirðu auðvelt með ná til fólks og losa um málbeinið hjá viðmælendum þínum og keyra í gang stuðið ef með þurfti, allt með léttleika þinn og jákvæðni að vopni.
Mamma mín, þau voru mörg kvöldin sem við sátum saman og ræddum um lífið sjálft. Þú spurðir oft um Daníel og Georg og þér var umhugað um þeirra líf og velferð. Við ræddum svo um allar lífsins áskoranir og hvernig best væri að takast á við þær.
Mamma mín þetta voru gæðastundirnar okkar sem gáfu okkur svo skýra sýn á lífið til að öðlast gleði og hamingju í lífsins leik og fyrir þessar stundir hef ég alltaf verið þakklátur. Þú varst mjög fylgin þér, með sterka réttlætiskennd og með sterkt innsæi, þú varst kona sterkra skoðana og með skýra lífssýn sem í stórum dráttum var byggð á máltækinu „hver er sinnar gæfu smiður“.
Mamma mín, þú þreyttist seint á því að þakka sundiðkun þína góðu heilsu og mæltir með því við alla og sagðir að allir góðir hlutir sem gerðust væru vegna jákvæðni þinnar og sundiðkunar. Þú sýndir minni nýju fjölskyldu svo mikinn áhuga og varst svo hamingjusöm fyrir mína hönd og það þótti mér vænt um. Mamma mín, við vorum nánast í daglegu sambandi og oft þegar ég hringdi þá sagðir þú: „Sigurður Árni minn, ég var einmitt að hugsa hvenær þú myndir eiginlega hringja og þá bara akkúrat hringir þú! Já svona er nú sterk taugin á milli okkar ástin mín.“
Í alvörunni mamma mín, eftir að þú fórst þá kemur alveg fyrir að ég ríf upp símann til að hringja í þig eða taka mynd af einhverju fyrir þig til að sýna þér nú eða ég lít snöggt á klukkuna því það er kominn tími til að heyra í þér en átta mig jafnharðan á því að þú ert farin. Ég er auðvitað ekkert utan við mig eins og halda mætti heldur trúi ég því að þú sért að pota í mig og að þú sért hjá mér og vakir yfir mér ástin mín.
Hvíl í friði elsku mamma mín.
Sigurður Árni.
Elsku amma.
Minningar okkar um þig eru fullar af ást og gleði og við erum svo þakklát fyrir tímann sem við áttum saman. Við höfðum ekki alltaf tækifæri til samverustunda með þér í uppvextinum en í hvert sinn sem við komum í heimsókn á sumrin frá Noregi hlökkuðum við alltaf til að koma heim til þín í Hafnarfjörð. Við munum alltaf eftir gráa húsinu með spennandi trénu í garðinum sem við klifruðum í langt fram á kvöldin. Sumardögunum eyddum við í sund og leik í sundlauginni í Hafnarfirði og alltaf hélst þú flottu hárgreiðslunni þinni í busluganginum í okkur. Þú varst full af lífi, hafðir sterkar skoðanir og varst alltaf svo glæsileg að eftir var tekið í öllum fjölskylduboðunum. Við kunnum alltaf að meta öll samtölin sem við áttum, hugulsemina og alla umhyggjuna sem þú sýndir okkur og í okkar litlu fjölskyldu vorum við stolt og þakklát að eiga þig sem okkar Siggu ömmu.
Takk fyrir samveruna elsku amma.
Daníel, Georg og Lindsey.
Elsku Sigga frænka er nú fallin frá.
Sigga frænka var systir ömmu og átti heima rétt hjá ömmu og afa þannig að stutt var fyrir mig að kíkja í heimsókn til hennar á mínum yngri árum. Ég fékk oft að skottast yfir hraunið og í heimsókn á Álfaskeiðið, þar sem Sigga bjó lengstum. Mér var alltaf tekið fagnandi af henni frænku minni þar sem hún passaði mikið upp á að maður færi nú ekki svangur heim og bauð mér oft upp á þann dýrindis mat, að mati ungrar stúlku, bakaðar baunir með tómatsósu og svo fylgdi djús með. Þetta var litla ég alltaf himinlifandi með. Það var þó ekki einungis þessi dýrindis matur sem fékk mig til að heimsækja Siggu en hún var með eindæmum skemmtileg kona og fann upp á alls konar skemmtilegu að gera. Þar standa helst upp úr allir upptökudagarnir okkar þar sem ég fékk að láta gamminn geisa og tala tímunum saman inn á kassettu. Það væru nú ekki allir fullorðnir með þolinmæði fyrir þessu en við Sigga skemmtum okkur alltaf konunglega yfir þessu.
Sigga frænka hugsaði alltaf vel um sjálfa sig og sást það einkum í sundinu en hún var ávallt með sólgleraugu, til að vernda augun, og klút á hausnum, til að vernda hárið, þegar hún var að synda. Það var alltaf gaman að hitta Siggu frænku í sundinu og spjalla. Það sem kemur efst í hugann frá sundinu er þegar ég var í skólasundi á mínum unglingsárum, þið vitið þessum gelgjuárum þar sem er kannski ekki beinlínis töff að þekkja eina með klút og sólgleraugu í sundi. En það átti nú ekki við um Siggu því mér fannst hún alltaf svo flott og skemmtileg og hikaði ekki við að flagga því að þetta væri hún frænka mín.
Í seinni tíð voru samtölin okkar meira um lífið, tilveruna og tæknina en hún Sigga lét nú aldurinn ekkert stoppa sig við að læra á nýja tækni og hélt hún þeim áhuga alveg undir það síðasta, þrátt fyrir að vera komin yfir nírætt.
Ég á eftir að sakna Siggu frænku og okkar samtala, en hún var alltaf með puttann á púlsinum um það sem var að gerast í þjóðfélaginu en um leið vildi hún alltaf vita hvernig mér vegnaði í lífinu.
Siggi og fjölskylda, ykkur sendi ég samúðarkveðjur við fráfall móður, tengdamóður og ömmu.
Hvíl í friði elsku Sigga frænka og takk fyrir allar okkar stundir saman.
Kristjana Þorradóttir.
Sigga frænka er látin. Þar með hafa öll börnin hennar ömmu Línu kvatt þennan heim.
Hún Sigga skar sig úr fjöldanum fyrir margra hluta sakir. Rúmlega níutíu ára gekk hún létt í spori og teinrétt í baki um götur bæjarins og oftast lá leiðin í laugina. Þar var hún daglegur gestur og vakti athygli fyrir að synda með sólgleraugu og höfuðið upp úr því ekki vildi hún bleyta hárið. Eftir dágóðan sprett kom hún sér fyrir í heita pottinum og naut þess að spjalla við hvern þann sem áhuga hafði á að ræða málin. Hún fylgdist vel með því sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hún var einstaklega fróðleiksfús og kunni vel að hlusta á það sem viðmælandinn hafði til málanna að leggja.
Sigga byrjaði ung að vinna. Um tíma vann hún hjá Varnarliðinu. Þaðan lá leiðin yfir höfin blá þar sem hún vann á Fossunum og þjónustustúlka í Kaupmannahöfn. Yfir henni sveif ævintýraljómi. Í herbergi undir súð hjá ömmu Línu var kommóða sem forvitin frænka læddist í til þess að skoða útlenska dótið hennar Siggu. Skartgripir og flott gleraugu sem Sigga setti upp þegar hún puntaði sig. Þetta djásn kom sér vel síðar þegar það fékkst að láni fyrir hinar ýmsu uppákomur.
Sigga og Sigurður Árni sonur hennar bjuggu í næsta nágrenni við okkur og voru heimagangar á Klettahrauninu. Sigga var alltaf svo stolt af syni sínum sem reyndist hennar stoð og stytta. Mamma naut þess að bjóða þeim mæðginum í mat til okkar og þá sérstaklega um jól. Að vísu fannst okkur Sigga frænka helst til lengi að borða því ekki var jólagjöfum úthlutað fyrr en allir voru búnir að borða.
Það var mikill kærleikur á milli þeirra systra sem sýndi sig í því hversu oft Sigga kom til mömmu á Hrafnistu þar sem hún lá með alzheimer á efri árum. Sigga frænka var sjálfstæð kona og hafði sinn eigin fatastíl. Pældi ekkert í hvað öðrum fannst og var að vissu leyti brimbrjótur hvað margt varðar. Hún borðaði hollan mat. Í gufunni vakti hún athygli fyrir að borða appelsínur og bera á andlitið þykkt lag af Nivea-kremi. Á sundlaugarbakkanum var hún alltaf með sólgleraugu og klút yfir andlitinu. Enda var Sigga með fallega húð og ungleg í fasi.
Hún átti sama bílinn í þrjátíu ár, notaði hann sjaldan. Kaus fremur að ganga á milli staða. Hún var spennt fyrir nýjungum. Ólm vildi hún prófa skellinöðruna hans Gísla heitins og fertug skvísan í pilsi með uppsett hár og sólgleraugu brunaði niður Linnetstíginn en úbbs, hún gleymdi að spyrja hvernig ætti að bremsa. Hún tók tölvutækninni fagnandi og var dugleg að leita sér leiðbeininga hjá okkur sem yngri vorum.
Sigga mætti alltaf fyrst í fjölskylduveislurnar, dansaði eins og enginn væri morgundagurinn og fór síðust. Hún elskaði að spjalla við unga fólkið og fylgdist vel með. Yngri frænkurnar sögðu að Sigga væri aðalskvísan og svo skemmtilegur töffari. Hún vildi vita hvað væri í gangi hjá þeim og þegar hún spurði eina þeirra hvort hún væri ekki komin á séns og hún svaraði því neitandi þá hafði Sigga á orði, þá tæplega níræð: já þú ert eins og ég; enginn nógu góður fyrir þig.
Við sjáum hana Siggu ljóslifandi fyrir okkur geislandi káta létta í spori gangandi um götur bæjarins. Konu sem tók sig ekki of hátíðlega en fyrst og fremst kæra frænku sem sparaði ekki hrósyrðin og þreyttist ekki á að hvetja okkur öll til dáða.
Meira á www.mbl.is/andlat
Erla, Kristjana, Kristján, Arndís og fjölskyldur.