Alþingi Alþingi kemur saman eftir viku, en nefndir funda í þessari viku.
Alþingi Alþingi kemur saman eftir viku, en nefndir funda í þessari viku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Alþingi kemur saman eftir rétta viku, mánudaginn 22. janúar, en nefndavika þingsins hefst í dag og verður fundað í fjórum fastanefndum Alþingis; stjórnskipunar- og…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Alþingi kemur saman eftir rétta viku, mánudaginn 22. janúar, en nefndavika þingsins hefst í dag og verður fundað í fjórum fastanefndum Alþingis; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fjárlaganefnd, atvinnuveganefnd og allsherjar- og menntamálanefnd.

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um breytingar á stjórnarmálefnum ráðuneyta er eina málið á dagskrá stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í úttektinni kemur m.a. fram að forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneyti þurfi að efla miðlæga verkstjórn og setja skýrari viðmið og verkferla innan Stjórnarráðsins áður en ráðist verði í frekari breytingar á skipulagi þess. Kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið gefinn nægur tími til undirbúnings vegna flutnings verkefna á milli ráðuneyta og fjárheimilda sem tengjast þeim. Þess séu dæmi að sum ráðuneyti hafi skort fullnægjandi yfirsýn yfir fjármál sín og undirstofnana í tæp tvö ár og að skort hafi nauðsynlega þekkingu og getu til að hafa umsjón með fjárheimildum málefnasviða.

Fjárlaganefndar bíður staðfesting ríkisreiknings 2022, en frumvarp forsætisráðherra um almennar sanngirnisbætur er á dagskrá allsherjar- og menntamálanefndar sem og frumvarp til breytinga á vopnalögum. Hvorugt frumvarpið náði fram að ganga á haustþingi.

Atvinnuveganefnd mun fjalla um eigið frumvarp til breytinga á raforkulögum sem kveður á um að orkuöryggi almennings og fyrirtækja, annarra en stórnotenda, verði tryggt og þeim veittur forgangur að raforku. Frumvarpið var umdeilt og var ákveðið skömmu fyrir þingfrestun í desember að taka það af dagskrá og betrumbæta á vettvangi atvinnuveganefndar. Til stendur að taka málið fyrir á ný þegar þing kemur saman með það að markmiði að lögfesta það á fyrstu dögum vorþingsins.

Um ástæður frestunar málsins sagði Óli Björn Kárason alþingismaður í desember sl. að Landsvirkjun hefði óskað eftir frestun málsins og að fyrirtækið myndi vinna að því með atvinnuveganefnd að finna farsæla niðurstöðu til að tryggja raforkuöryggi út frá skyldum Landsvirkjunar og hlutdeild fyrirtækisins á raforkumarkaði í sölu og framleiðslu. Sagði Óli Björn að skv. upplýsingum nefndarinnar væru hverfandi líkur á því að til þess myndi koma að virkja þyrfti heimildir til skerðinga á raforku í janúar og því var ákveðið að hinkra við og vinna málið áfram.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson