Með foreldrum og systur Frá vinstri: Gunnar, Bryndís, Lilja og Aðalheiður Rósa.
Með foreldrum og systur Frá vinstri: Gunnar, Bryndís, Lilja og Aðalheiður Rósa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bryndís Gunnarsdóttir er fædd 15. janúar 1939 í Vallartúni í Vestmannaeyjum en fluttist nokkurra mánaða til Fáskrúðsfjarðar og ólst þar upp í nánum tengslum við Guðrúnu ömmu sína og Þórð afa í Víkurgerði

Bryndís Gunnarsdóttir er fædd 15. janúar 1939 í Vallartúni í Vestmannaeyjum en fluttist nokkurra mánaða til Fáskrúðsfjarðar og ólst þar upp í nánum tengslum við Guðrúnu ömmu sína og Þórð afa í Víkurgerði. Eftir dauða Guðrúnar flutti fjölskyldan til Akraness, en þar andaðist Gunnar faðir hennar og Lilja móðir hennar fluttist með dæturnar tvær til Vestmannaeyja þar sem hún varð fyrsta ráðskona á Elliheimili Vestmannaeyja og starfaði þar næstu tvö ár, eða þar til hún giftist Emil Sigurðssyni.

Bryndís hélt tryggð við ættingjana á Fáskrúðsfirði og sérstaklega Bínu á Búðum, föðursystur sína. Þær áttu eftir að semja saman smábækur um Dúbba Dúfu og Mábba sem átt höfðu skjól hjá Bínu og urðu bækurnar síðar vinsælar meðal barna sem voru að læra að lesa.

Bryndís gekk í Barnaskóla Akraness og Barnaskóla Vestmannaeyja og lauk skólagöngu í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1955. „Sem dæmi um hvað ég tók mér fyrir hendur á sumrin á unglingsárunum má nefna barnapössun, vinnu á stakkstæðum og kaupavinnu á Hlemmiskeiði á Skeiðum og á Hafranesi við Reyðarfjörð.“ Hún starfaði á Pósthúsi Vestmannaeyja í tvö ár og 1957 fór hún í lýðháskóla í Osby á Skáni. Þar kynntist hún Borgari og fluttist með honum til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu saman í tíu ár.

Hún lauk handavinnukennaraprófi frá KÍ 1969, almennu kennaraprófi 1973 og stúdentsprófi 1974. Hún starfaði við Breiðagerðisskóla, Ölduselsskóla, Æfingaskóla KÍ, Kennaraháskóla Íslands og Vesturbæjarskólann. „Aðalstarf mitt var kennsla yngri barna með áherslu á lestur og skapandi starf. Lestrarkennslan tók breytingum á þessum árum og vakti áhuga minn lestrarkennsluaðferð sem byggðist á talmáli barna og lesskilningi og var skammstöfuð LTG-lestrarkennsluaðferð, Läsning på talets grund. Upphafsmaður hennar var Ulrika Leimar frá Svíþjóð.“

Námsgagnastofnun hóf útgáfu bókaflokks sem nefndist Smábækur og skrifaði og myndskreytti Bryndís tíu bækur í anda LTG-aðferðarinnar. Hún og Þóra Kristinsdóttir sömdu stafrófskverið Í stafaleik. Einnig gerði hún í samstarfi við Kristínu Gunnarsdóttur og Kristján Inga Einarsson myndasafnið Ég og fólkið mitt og Ég þarf margt að gera. Hún gerði einnig myndband um eina sögupersónu smábókanna, hann Dúbba dúfu, allt efni sem hæfði byrjendum í lestri.

Leikræn tjáning var nokkuð notuð sem kennsluaðferð á þessum tíma og einnig leikbrúður. Bryndís var einn fjögurra stofnenda brúðuleikhússins Leikbrúðulands og starfaði með þeim í 30 ár, eða frá 1968-1998. Leikbrúðuland ferðaðist víða, bæði innan lands og utan, þennan tíma.

Bryndís stundaði nám við Háskólann í Stokkhólmi í listasögu, barnamenningu og málþroska barna. Hún lauk M.Ed.-námi í uppeldis- og menntunarfræðum við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. Hún tók þátt í og var leiðbeinandi á ótal byrjendanámskeiðum fyrir kennara. Fræðilegar skýrslur sem hún skrifaði voru Þetta er… Skýrsla um LTG-lestrarkennslu í Æfinga- og tilraunadeild KHÍ veturna 1980-1984 og Barnamenning. Könnun á aðstöðumun átta ára barna eftir búsetu þeirra á Íslandi. Hönnunarverk hennar eru: Hönnun og framkvæmd á nýjum búningum á íslensku jólasveinana og Landnámsbúningar – víkingabúningar fyrir Þjóðminjasafnið. Gunna á Hóli, myndband fyrir safnakennslu á Þjóðminjasafninu. Landnám Íslands, myndband sem ætlað er til að glæða áhuga á landnámi Íslands. Egill, byggt á Óskabókinni um Egil Skallagrímsson. Viðurkenningu frá IBBY fyrir framlag til íslenskrar barnamenningar hlaut hún 1989.

Sigurður og Bryndís giftu sig í Landakirkju 25.8. 1978. „Við höfum dansað, ferðast, veitt og gengið saman í sátt og samlyndi síðan þá. Sigurður hefur gengið barnabörnum mínum í afastað og barnabarnabörnum í langafastað.“

Eftir að Bryndís fór á eftirlaun fór hún í Myndlistaskóla Íslands og nam myndskreytingu og bókagerð og lærði vatnslitun þar í tíu ár.

Auk þess ber að geta að hún syngur í kór aldraðra kennara, EKKÓ kórnum.

Fjölskylda

Eiginmaður Bryndísar er Sigurður Jónsson, f. 30.4. 1949, eftirlaunaþegi, fil.dr. í íslensku, fyrrverandi starfsmaður skrifstofu Alþingis. Þau búa á Hávallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar Sigurðar voru Þóra Sigurðardóttir, f. 16.2. 1920, d. 9.9. 2001, og Jón Kristjánsson, f. 17.05 1920, d. 16.2. 1996. Þau voru gift, eignuðust sex börn og voru bændur á Arnarvatni í Mývatnssveit.

Sonur Bryndísar og fyrrverandi maka, Sigurjóns Borgars Garðarssonar, f. 25.10. 1938, leikara, er Gunnar Bogi Borgarsson, f. 18.3. 1958, arkitekt. Maki: Ína Salome Hallgrímsdóttir, f. 11.12. 1955, textíllistamaður. Þau búa á Marargötu í Vesturbænum í Reykjavík. Barnabörn: Kristín Gunnarsdóttir, f. 24.5. 1986, mannauðsstjóri. Maki hennar er Bjarki Páll Eysteinsson, f. 1.4. 1986, verkfræðingur. Börn þeirra eru Brynja Dís, f. 28.2. 2016, Daníel Breki, f. 11.10. 2018, og Eldur Elí, f. 1.3. 2021; Brynjar Gunnarsson, f. 25.2. 1989, d. 1.4. 2021, þjálfari í frjálsum íþróttum hjá ÍR. Maki hans: Stefanía Rafnsdóttir, f. 10.5. 1990. Börn þeirra eru Máni, f. 10.11. 2012, og Dagur Óli, f. 12.10. 2021.

Alsystir Bryndísar er Aðalheiður Rósa Gunnarsdóttir, f. 10.9. 1940, hjúkrunarfræðingur, býr á Akureyri. Hálfsystur sammæðra eru Gunnhildur Björk Emilsdóttir, f. 1.11. 1952, grænmetismatráður. Hún býr í Skerjafirði, Reykjavík, og Ásdís Lilja Emilsdóttir, f. 5.8. 1956, hjúkrunarfræðingur. Hún býr í Vesturbænum í Reykjavík.

Foreldrar Bryndísar voru Lilja Finnbogadóttir frá Vallartúni í Vestmannaeyjum, f. 15.2. 1920, d. 1.5. 1959, húsmóðir á Fáskrúðsfirði, Akranesi og í Vestmannaeyjum. Hún var fyrsta ráðskonan á Elliheimili Vestmannaeyja, og Gunnar Jónas Þórðarson frá Víkurgerði í Fáskrúðsfirði, f. 20.5. 1914, d. 14.6. 1950, bóndi og sjómaður á Fáskrúðsfirði og verkamaður á Akranesi. Þau giftu sig á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði 1940.

Stjúpfaðir Bryndísar var Karl Emil Sigurðsson, f. 8.1. 1924, d. 18.11. 2010, vélstjóri frá Hafnarnesi í Fáskrúðsfirði. Lilja og Emil giftu sig á hvítasunnu 1953. Þá var Gunnhildur skírð og Bryndís fermd.