Friðleifur Valdimar Ægisson fæddist 12. júlí 1960 í Vallarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi. Hann lést á heimili sínu á Stokkseyri 18. desember 2023.

Foreldrar hans voru Sveinsína Guðmundsdóttir, f. 1930, frá Berserkjahrauni, d. 2021, og Ægir Breiðfjörð Friðleifsson, f. 1934, frá Hellissandi, d. 1999.

Alsystkini Friðleifs eru: Kristinn Karl, f. 1956, maki Hrönn Baldursdóttir, þau búa á Selfossi; Guðrún Breiðfjörð, f. 1958, maki Kjartan Jóhannsson, þau búa í Mosfellsbæ; Fjóla Breiðfjörð, f. 1963, maki Þorsteinn Þorvaldsson, þau búa á Selfossi; Guðmundur Breiðfjörð, f. 1965, maki Annemarie Ægisson, þau búa í Kaupmannahöfn; Björg Elísabet, f. 1967, maki Björg Þorkelsdóttir, þær búa á Stokkseyri.

Hálfsystur hans sammæðra eru: Ólafía Ingólfsdóttir f. 1952, maki Guðmundur Elíasson, þau búa á Selfossi; Gróa Ingólfsdóttir f. 1953, maki Sveinn Sigurðsson, d. 2017, hún býr á Hvolsvelli.

Þá á hann stóran hóp af systkinabörnum.

Friðleifur var ókvæntur og barnlaus.

Friðleifur ólst upp í foreldrahúsum í Vallarhjáleigu og Hamri í Gaulverjabæjarhreppi, í stórum samheldnum systkinahópi. Þá átti hann heimili hjá foreldrum sínum í Tjarnarlundi á Stokkseyri í nokkur ár en síðustu æviárin bjó hann á Sólvöllum 4 á Stokkseyri.

Friðleifur vann í fiskvinnslu á Stokkseyri og í Þorlákshöfn, var í millilandasiglingum, vann sem þjónn á ýmsum stöðum, m.a. Hótel Valhöll á Þingvöllum. Sótti hann sex mánaða þjónaskóla í London á vegum Hótels Valhallar. Þá vann hann á Dvalarheimili fyrir aldraða á Kumbaravogi og Felli í Reykjavík, einnig var hann í sjálfboðavinnu á kaffistofu Samhjálpar í Reykjavík. Friðleifur vann líka við ýmis afgreiðslustörf og þótti hafa ríka þjónustulund. Friðleifur var mikið náttúrubarn og undi sér best úti í náttúrunni. Þá var hann mikið fyrir blóm og safnaði alls konar dóti sem honum fannst vera gulls ígildi.

Friðleifur átti í mörg ár í mikilli baráttu í sjúkdómi sínum, alkóhólisma, sem tók mikið frá honum, svo sem vinnuna, og hafði sjúkdómurinn betur í þeirri lífsbaráttu að lokum. En hann var mikið ljúfmenni og vildi öllum vel.

Útför hans fór fram frá Stokkseyrarkirkju í kyrrþey hinn 12. janúar 2024. Bálför fer fram síðar og verður duftker hans jarðsett hjá foreldrum hans í Stokkseyrarkirkjugarði.

Elsku bróðir, þá er komið að leiðarlokum og margs að minnast.

Æskuminningar að vera með þér að svæla út minka til að veiða og fá pening fyrir skottin, þú að veiða fisk, það virtist alltaf bíta á hjá þér þótt enginn annar veiddi.

Svo fórstu á millilandaskip, fórst oft til Rússlands og fleiri staða. Þú komst með gos, skinku í dós, Mackintosh og fullt af nammi sem var geymt uppi á háalofti og skammtað í okkur krakkana við sérstök tilefni.

Þú að koma heim ásamt Fjólu systur á aðfangadag í brjáluðu veðri og hafa áhyggjur af því hvort þið mynduð hafa það alla leið fyrir hátíðina.

Svo fórstu að vinna á Valhöll á Þingvöllum og varst svo flottur þjónn og þar blómstraðir þú innan um frábæra vinnufélaga. Síðan fórstu til London að læra þjóninn og við vorum mikið stolt af þér.

Minning um að fara með þér til Mallorka í þrjár vikur þar sem við hjóluðum um akrana og skemmtum okkur vel með Íslendingunum sem voru á sama hóteli. Þú hafðir enga áhuga á að liggja í sólbaði heldur röltir um og spjallaðir við innfædda. Við enduðum svo í London, þar fórum við á sýningar og nutum lífsins.

Þú og mamma hjá okkur alltaf í seinni tíð á aðfangadagskvöld sem var dýrmæt samvera.

En svo fór sjúkdómurinn alkóhólismi að taka stjórn á lífi þínu og þú reyndir að ná bata og fórst oft í meðferð. Lengst náðir þú einu ári, keyptir bíl og keyrðir um allar trissur, varst frjáls og þér leið vel. En svo misstirðu tökin og fórst á þá vegferð sem þú náðir þér aldrei úr. Ég reyndi að passa upp á þig eins og ég gat en stundum þurfti ég að bakka aðeins frá, reyna að vera ekki meðvirk og passa upp á sjálfa mig, en það var erfitt að horfa upp á hvað sjúkdómurinn fór illa með þig og eyðilagði líf þitt á allan hátt. Það sem hjálpaði í öllum samskiptum var hvað þú varst góður maður, talaðir aldrei illa um aðra og hækkaðir aldrei róminn, alveg sama hvað gekk á.

Það var friður yfir þér þar sem þú sast í stólnum þínum fyrir framan sjónvarpið þegar ég kom til þín, allt bjart og fallegt og það virtist eins og án nokkurra átaka eða þjáninga hefðir þú yfirgefið þennan heim.

Við hittumst seinna elsku bróðir og guð geymi þig.

Guð gef mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ
ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get
breytt

og visku til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,

njóta hvers andartaks fyrir sig,

viðurkenna mótlæti sem friðarveg,

með því að taka syndugum heimi eins
og hann er,

eins og Jesús gerði en ekki eins og ég
vil hafa hann

og treysta því að þú munir færa allt á
réttan veg

ef ég gef mig undir vilja þinn

svo að ég megi vera hæfilega
hamingjusamur í þessu lífi

og yfirmáta hamingjusamur með þér
þegar að eilífðinni kemur.

Þín systir,

Björg.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til Friðleifs er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa alist upp sem barn í hans nærveru og búið alla tíð nærri honum og eiga því dýrmætar minningar til að ylja mér við. Einnig er ég þakklát fyrir fjölskylduna mína og ættingja fyrir að hafa, þrátt fyrir hans sjúkdóm og veikleika, ávallt gætt þess að þennan góða frænda minn vanhugaði ekki um neitt og ætti ávallt stað í lífi okkar og hjörtum.

Friðleifur sem gjarnan var kallaður Frissi var skemmtilegur, glaður og ljúfur maður en einnig gat hann verið stríðinn og kallaði mig gjarnan Irish coffee og tók ég því alltaf sem hrósi þar sem ég veit að þessi tiltekni drykkur var í miklu uppáhaldi hjá honum. Við systurnar erum þrjár og þar sem Friðleifur var mikið inni á heimilinu hjá okkur þegar við vorum börn var hann fljótur að finna viðurnefni á okkur, „Systurnar suðuskjóður“, og notaði það viðurnefni óspart í gegnum tíðina.

Það er ekki hægt að segja að Friðleifur hafi ekki verið úrræðagóður því þegar hann passaði mig einu sinni sem ungbarn angaði ég af rakspíra eða ilmvatni þegar mamma kom heim. Þá hafði ég kúkað á einhverjum tímapunkti og þar sem Friðleifur hafði sjaldan eða aldrei skipt um bleyju á ævinni spreyjaði hann öllum tegundum ilmvatna á mig til að lifa tímann af sem mamma var í burtu.

Friðleifur var mikill fagurkeri og safnari og fátt þótti honum betra en að eiga nóg af málverkum og glingri. Sem barn þótti mér algjört ævintýri að fara inn til hans og skoða alla munina sem hann safnaði og hafði sankað að sér héðan og þaðan úr heiminum. Hann gaf sér alltaf tíma til að segja manni sögur um það hvar og hvernig hann eignaðist hlutina. Þegar hann flutti svo aftur á Stokkseyri nú í seinni tíð bað hann mig að hjálpa sér við að skipuleggja og hengja upp myndir. Ég gerði það með glöðu geði en þar sem íbúðin var lítil og veggpláss ekki mikið, þá komust ekki öll málverkin upp á veggi. Ég stakk því upp á því að hann myndi skipta þeim út reglulega svo öll fengju að njóta sín. Stuttu seinna þegar ég kom til hans var hann búinn að hengja myndir og málverk á veggina niðri við gólf. Svona var Friðleifur, hann vildi fá að njóta alls þess sem hann átti öllum stundum og ekkert mátti verða út undan.

Kvöldið eftir að þú lést byrjaði að gjósa á Reykjanesinu. Aníta mín sagði að nú væru amma og afi líklegast að taka á móti Frissa frænda í Sumarlandinu með flugeldasýningu, slíkur hefur fögnuðurinn verið við endurfundina.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Elsku frændi, takk fyrir allt. Þín verður sárt saknað.

Þín

Íris Rán.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum)

Elsku bróðir og mágur, þá er lífsgöngu þinni lokið hér á jörð og þú, aðeins 63 ára, farinn í Sumarlandið þar sem við vitum að vel hefur verið tekið á móti þér, mamma og pabbi hafa eflaust fagnað því að fá þig til sín.

Þú varst í hægindastólnum þínum, með sjónvarpið í gangi, þegar hjartað þitt gafst upp. Við höfðum lengi átt von á þessu en alltaf er maður óviðbúinn, þótt maður haldi annað.

Það var mikill friður og ró yfir þér þegar Bogga systir kom að þér og við skömmu síðar ásamt Björgu mágkonu.

Þú hafðir í mörg ár verið í mikilli baráttu í þínum sjúkdómi, alkóhólisma, og Bakkus var þér harður og erfiður húsbóndi.

Þú vannst hjá okkur í N1 Fossnesti um tíma, þar varstu mjög vel liðinn bæði hjá starfsmönnum og viðskiptavinum. En þar eins og áður tók Bakkus frá þér vinnuna.

Ég, Lóa, man vel eftir því þegar þú fæddist í júlí 1960 í brakandi þurrki og sólskini. Þú fékkst heilahimnubólgu tæplega árs gamall og var mjög tvísýnt um líf þitt, en þú hafðir betur þótt þau veikindi hafi sett mark á þig.

Þú varst ljúfur og skapgóður sem krakki og reyndar alla tíð, sem hjálpaði þér mikið í lífsbaráttunni. Mikið náttúrubarn varstu, spáðir í og skoðaðir lífríkið, sérstaklega fugla, mýs, rottur og fiska og gast dundað þér heilu og hálfu dagana í því. Þá varstu mikill safnari, varst svolítið svona „glysgjarn“ og sást gull og gersemar alls staðar. Málverk, myndir og ísaumsverk voru líka í uppáhaldi hjá þér, styttu þér stundirnar og ekki síst blómin.

Með bestu minningunum sem við eigum um þig, en þær eru margar, eru spurningakeppnirnar sem þú stóðst alltaf fyrir þegar við systkinin og makar hittumst árlega. Þú hafðir leitað víða efnis í þær spurningar og þær gátu sko verið erfiðar og þá kom húmorinn þinn hvað best í ljós.

En nú ertu kominn á betri stað þar sem Bakkus ræður ekki för.

Farðu í friði, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín systir,

Ólafía (Lóa) og
Guðmundur.

Elsku bróðir minn og besti vinur er dáinn.

Mínar fyrstu minningar eru af okkur í mömmuleik á Hamri, bæði með dúkkur og kettina. Svo leið ævin, við á sveitaböllum að taka þátt í danskeppnum og unnum eina.

Vorum að vinna saman í Reykjavík og fórum á Laugaveginn í verslunina 17, keyptum þar tvær buxnadragtir, aðra gula en hina rauða, og svo skiptumst við á að nota þær. Enda pössuðum við bæði í þær. Þetta var svo góður tími.

Þú varst heill í gegn, talaðir aldrei illa um nokkra manneskju og svo skemmtilegur og gullkornin sem þú sagðir voru svo góð að við sem eftir stöndum reynum að rifja þau upp reglulega til að gleyma þeim ekki.

Eitt nýlegt dæmi er þegar þú varst að koma á Selfoss og ég að bíða eftir þér til að skutla þér í innkaupin, því strætóinn gekk ekki nema í miðbæinn. Þá sagði ég: „Friðleifur, af hverju færðu þér ekki svona rafskutlu í snattið á Selfossi?“ Þá svaraði hann um hæl: „Af hverju færð þú þér ekki hest til að ríða á í búðirnar!“ Álíka gáfulegt.

En lífið lék ekki alltaf við þig. Þú varst mikill alkóhólisti og hafðir enga stjórn á sjúkdómnum þó svo þú færir margoft í meðferð. Ég sagði nú oft við þig: „Ertu að fara í eina hvíldarinnlögnina enn?“ „Já,“ sagðir þú, „aldrei að vita nema ég sjái ljósið.“ En það varð aldrei svo gott. En nú ertu farinn í Sumarlandið og vonandi farinn að sjá ljósið.

Guð geymi þig elsku bróðir, ég elska þig.

Þó augun sofni aftur hér

í þér mín sálin vaki.

Guðs son, Jesú, haf gát á mér,

geym mín svo ekkert saki.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Þín systir,

Fjóla.

Elsku Friðleifur frændi minn.

Þú varst einstakur persónuleiki. Aldrei sá ég þig reiðan eða leiðan því þú varst alltaf brosandi þínu glettna brosi. Ég man eftir því sem barn hvað mér þótti spennandi að fá að skoða alls konar hluti inni í herberginu þínu á Tjarnarlundi hjá ömmu og afa. Þú áttir svo mikið af spennandi hlutum, þar með talinn hákarl sem var í formalíni í ílöngu gleríláti. Þetta var mjög spennandi og mjög oft sem ég skoðaði þetta. Þú varst nefnilega safnari á fallega hluti og varst einnig mjög flinkur í að mála og föndra.

Þú hefur alltaf átt pláss í mínu hjarta þó svo samskiptin væru ekki svo mikil og færu minnkandi eftir að amma dó. Mér fannst þú skemmtilegur og einstaklega gaman að tala við þig. Við áttum svo mikið af góðu spjalli yfir kaffibolla í Grænumörkinni hjá ömmu, þar var sko hægt að spjalla um allt.

Hjá Birgittu dóttir minni átt þú líka stað í hennar hjarta. Þegar hún fermdist gafst þú henni hring, þetta var sennilega ekki merkilegur hringur og örugglega keyptur á nytjamarkaði eða þess háttar stað. En hringurinn var mjög dýrmætur fyrir hana og fannst henni sem barni á fermingaraldri svo fallegt að þú hefðir farið og fundið þennan hring fyrir hana af því hún vissi að þú ættir ekki pening til að kaupa gjöf. Þessi hringur sýndi einmitt þitt fallega hjarta sem þú áttir.

Þú hafðir þinn djöful að draga eins og máltækið segir. Þessi djöfull vann og þú varst búinn að segja mér fyrir ekki svo löngu að þú gætir ekki sigrað hann. Við fjölskyldan þín vorum meðvituð um það, samt er sárt þegar kallið kemur.

Elsku Frissi minn, hvíldu í friði. Það hefur aldeilis verið gleði á himnum þegar þú hittir ömmu aftur, því þið voruð svo náin.

Þín frænka,

Aðalbjörg (Adda).

Mig langar í örfáum orðum að minnast æskuvinar míns Friðleifs sem lést nýlega. Ég var svo lánsamur að alast upp á næsta bæ við Hamar í Flóahreppi, æskuheimili Friðleifs og systkina hans. Systkinahópur Friðleifs var stór og fjörmikill og við Friðleifur vorum á svipuðum aldri. Margt var brallað: Skautað á ísilögðu flóðinu á veturna, rennt á snjónum, sungið í skólabílnum, farið í stórfiskaleik, kofi byggður, silungur veiddur, hlustað á skemmtileg lög o.fl. Þarna safnaðist í dýrmætan minningasjóð.

Friðleifur bar nafn með rentu, hann var friðsamur, hjálpsamur og glaðvær að eðlisfari, og það var stutt í brosið og gamansemina sem ávallt var græskulaus. Fyrir allt þetta er þakkað. Blessuð sé minning hans, hvíl í friði gamli vinur.

Ragnar Geir Brynjólfsson.

Hvað get ég sagt um besta vin minn Friðleif !

Ég, illa skrifandi og vel lesblindur. Mér dugar ekki heilt Morgunblað á sunnudegi, hef það mikið að segja, en ætla að reyna að vera hreinn og beinn og stuttorður.

Mér brá og það stakk í hjartað að Friðleifur væri farinn, pungurinn stakk mig af.

Við vorum búnir að plana að vera tvær fjólur saman á elliheimili og hafa pela undir koddanum og hrekkja strákanna. Við vorum sammála að þegar okkar tími kæmi þá væri best að það yrði snöggt, enginn spítali eða sársaukavesen. Enn í sannleika sagt þá hafði hann svartan skugga á seinni árum sem varð bara sterkari. Hann bar nafnið Finnskur Vodki, hann var sterkur og farinn að ráða miklu og vissi ég það. En þrátt fyrir það þá tapaði hann aldrei sínu stóra fallega hjarta, skugginn fékk aldrei hjartað hans.

Ég hef þekkt Friðleif í meir en 40 ár, maður eignast ekki alvöru vin með spjalli, heldur árum. Ég þekkti allt hans og hann allt mitt, engin leyndarmál, trúnaðarvinir alla leið, svart og hvítt.

Við töluðum saman 1-5 sinnum í viku nema þegar hann fór í þurrk, hefði óskað að honum hefði verið haldið lengur þar. Það þurfti meira til að hefta skuggann svarta, honum leið vel í meðferð, sagði „þú verður að prufa það, er svo gaman að vera í kringum alla þessa stráka“. Þá átti hann við að allir voru jafnir og gaman að spjalla, hópurinn fjölbreytilegur og einlægur og mátti finna til og sýna tilfinningar.

Jæja, svo ég klári ekki öll blöðin í Mogganum.

Friðleifur hafði einstakan eiginleika, í öll þessi ár var ekki hægt að rífast við hann eða fara í fýlu. Þar sem ég hef annað skap þá slökkti hann fljótt í því og sagði, „jæja, elskan takk fyrir spjallið heyrumst síðar“. Úff, þar var búið að slökkva í mér, nota bene, ég var rétt að byrja.

Friðleifur hafði stórt og fallegt hjarta, það tekur enginn frá honum. Hann hafði yndi og gaman af fullorðna fólkinu á elliheimilinu, sérstaklega þeim sem voru erfið og þver.

Til að ljúka því sem ég var varla byrjaður á.

Það var óþolandi að fara með honum að veiða silung í læknum á Hamri. Ég, sonur minn og Friðleifur fórum stundum að veiða, þeir veiddu endalaust og ég, sem var kallaður Simmi silungur, veiddi ekki neitt.

Friðleifur var konunglegur þjónn, einstaklega lipur og flottur og hafði þjónað forseta sem frægum í Valhöll á Þingvöllum.

Friðleifur elskaði blóm, ef hann sá rós þá þýddi ekkert fyrir mig að hnusa af henni því hann var búin að hnusa allan ilminn af henni.

Ég átti stutt spjall við hann á fimmtudeginum áður en hann kvaddi. Hann sagði: „Veistu það, ég hef það svo gott og mér líður svo vel,” svona var hann alla tíð jákvæður, ljúfur og góður og hefur oft fengið mig til að endurskoða mig.

Ég mun sakna þín elsku vinur af öllu hjarta, það verður ekki hringt meir. Hitti þig síðar.

Ég kveð þig nú kæri vinur,

kveð þig í hinsta sinn.

Íslenski eðalhlynur,

einstaki vinur minn.

(Valdimar Lárusson)

Þinn trúnaðarvinur

Sigmar.

Það var 18. desember sl. að systir mín Björg hringir í mig og segir mér að Friðleifur sé fallinn frá. Við hjónin kynnumst Friðleifi um það leyti þegar systir hans Björg Elísabet og systir mín Björg (heita báðar Björg) eru farnar að stinga saman nefjum svona sennilega um 1996-1997. Kynni okkar af Friðleifi voru einstaklega góð og hlý, hann var svo sannarlega vinur vina sinna enda átti hann þá marga en einn stóð þó upp úr; Bakkus Bakkusson, sem alveg tók hann föstum tökum eins og við öll vitum því miður.

Friðleifur var glettinn mjög, hafði lúmskan húmor. Ég man eitt sinn þegar við hjónin fórum á Bryggjuhátíð Stokkseyrar og löbbuðum sem leið lá frá heimili þeirra Bjargar að bryggjunni og slangur af fólki mætt. Heyri ég þá kallað ofan af steini: „Neinei, er ekki mesti hommi Keflavíkur mættur þarna!“ Þetta var Friðleifur sem átti þessa fleygu setningu og þarna stóð ég Keflvíkingurinn á miðri bryggjunni, algerlega varnarlaus og með alla Stokkseyringa starandi á mig. Þetta er nú bara það sem maður man af stríðninni hans Friðleifs.

Við hjónin minnumst Friðleifs með gleði í hjarta, hvernig er annað hægt – hann var hvers manns hugljúfi.

Við vottum systkinum, ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð. Hvíl í friði elsku vinur, þín verður sárt saknað.

Þínir vinir,

Jón Ásgeir og Edda.