Ógnar Aron Pálmarsson býr sig undir að skjóta að marki Svartfellinga.
Ógnar Aron Pálmarsson býr sig undir að skjóta að marki Svartfellinga. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Ingi Magnússon var besti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik þegar liðið vann nauman sigur gegn Svartfjallalandi, 31:30, í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í gær

Í München

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Ómar Ingi Magnússon var besti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik þegar liðið vann nauman sigur gegn Svartfjallalandi, 31:30, í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í gær.

Ómar Ingi skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæstur í íslenska liðinu ásamt því að búa til fjölda færa fyrir liðsfélaga sína.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náði mest fimm marka forskoti í leiknum. Svartfellingar neituðu hins vegar að gefast upp en Ísland var með tveggja marka forskot í hálfleik, 17:15. Íslenska liðið hélt forystunni svo gott sem allan síðari hálfleikinn, allt þangað til þrjár mínútur voru til leiksloka þegar Mirko Radovic kom Svartfjallalandi marki yfir, 29:28.

Svartfellingar fengu svo tækifæri til þess að komast yfir á lokamínútunni í stöðunni 30:30 en þá gerðu þeir sig seka um vitlausa skiptingu og boltinn var dæmdur af þeim.

Gísli Þorgeir Kristjánsson kom Íslandi svo yfir, 31:30, og Svartfjallaland fékk tækifæri til þess að jafna metin á lokasekúndunum en Björgvin Páll Gústavsson varði lokaskot Vukos Borozans og Íslandi fagnaði sigri.

Höf.: Bjarni Helgason