Magnús Gunnlaugur Friðgeirsson fæddist 20. ágúst 1950. Hann lést 3. janúar 2024. Útför hans fór fram 11. janúar 2024.

Kær frændi okkar, Magnús Friðgeirsson, er fallinn frá eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Minningar hrannast upp frá því er við vorum ungir drengir. Mæður okkar voru systur, mjög nánar og fjölskylduböndin sterk. Kærleiks- og vinabönd okkar frændsystkinanna voru einnig traust.

Flestir verða fyrir áföllum í lífinu. Þau byrjuðu því miður snemma hjá Magga, systrum hans og móður. Hann var aðeins á öðru ári þegar pabbi hans deyr og eldri systur hans einnig á barnsaldri. Þessi lífsreynsla setti mark sitt á fjölskylduna. Dugnaður og sjálfsbjargarviðleitni urðu leiðarljósin í lífinu. Síðar á lífsleiðinni varð Maggi fyrir þeirri raun að missa Davíð son sinn aðeins 22 ára. Sú lífsreynsla var foreldrunum og systrum án efa ólýsanlega erfið.

Sem börn dvöldum við frændsystkinin í sveit á sumrin að Bæ í Reykhólasveit, fyrst hjá afa okkar og síðan móðurbræðrum. Kappsmál var að komast sem fyrst vestur að Bæ á vorin til að taka þátt í sveitastörfunum, helst að ná í sauðburðinn. Heyskapurinn og önnur störf tóku við, allt fram að smölun á haustin. Að Bæ var margt um manninn og gestkvæmt á sumrin. Þurfti yngra heimafólk stundum að gista í tjöldum. Minnisstætt er þegar Maggi fékk tjald í fermingargjöf sem við tjölduðum og vorum í fram á haust eftir því sem þurfti. Þetta voru skemmtilegir og lærdómsríkir tímar.

Eftir skyldunám lá leið Magga í Samvinnuskólann. Þar naut hann sín vel og var í forystu nemendafélagsins. Hann réðst síðan fljótlega til starfa hjá SÍS. Maggi var hörkuduglegur, metnaðarfullur og vel til forystu fallinn, en jafnframt heiðarlegur og traustur. Okkur sem þekktum hann kom því ekki á óvart að hjá SÍS naut hann fljótt trausts og öðlaðist mikinn starfsframa, fyrst sem sölustjóri í sjávarafurðadeild, síðan framkvæmdastjóri búvörudeildar og loks sem forstjóri Iceland Seafood Corporation í Bandaríkjunum.

Við heimkomu hóf Maggi rekstur með verslun á raftækjum. Eftir að Maggi kynntist seinni eiginkonu sinni, Sigurveigu Lúðvíksdóttur (Sillu), starfaði hann með henni við rekstur á gjafavöruversluninni Kúnígúnd. Voru þau augljóslega mjög samhent við það verkefni.

Eftir að unglingsárum sleppti hélt hver í sína áttina í lífinu. Samskiptin við frænda okkar urðu stopulli en áður, en fagnaðarfundir þá sjaldan að við hittumst, enda var frændi okkar glaðlyndur, skemmtilegur og söngelskur, en jafnframt blíður og tilfinningaríkur. Við minnumst með hlýhug dýrmætra samverustunda með honum; ættarmóta í sveitinni fögru; giftingar Magga og Sillu með glæsilegri veislu á Hótel Loftleiðum; heimsókna á fagurgert heimili Sillu og Magga í Grafarvogi og heimsókna í sumarhús Magga og Sillu á Spáni. Allt eru þetta ógleymanleg augnablik sem við að leiðarlokum erum þakklátir fyrir.

Vegna krabbameins hafa síðustu árin verið erfið, en frændi tókst á við verkefnið af æðruleysi og var alltaf bjartsýnn um bata. Þar naut hann að sjálfsögðu mikils styrks frá eiginkonu sinni, dætrum og fjölskyldunni allri.

Við vottum Sillu, Aldísi, Maríönnu og fjölskyldunni allri samúð okkar.

Magnús Stefánsson,

Guðlaugur Stefánsson.

Elsku Maggi móðurbróðir minn hefur nú kvatt þessa jarðvist og sameinast Davíð Fannari syni sínum á nýjum stað.

Við Maggi höfum fylgst lengi að þar sem við ólumst upp saman hjá Siggu ömmu og Sigga afa á Hjallavegi við gott atlæti og deildum herbergi, hann sem unglingur og ég sem lítill drengur sem leit ávallt upp til hans.

Við áttum oft mikla samleið í gegnum lífið bæði í leik og starfi, hérlendis sem erlendis, í gegnum sorg og sigra. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa getað kvatt hann á dánarbeðinum daginn fyrir andlátið sem var afar dýrmæt stund með okkar nánasta fólki sem ég mun geyma í hjarta mínu.

Ég minnist Magga frænda míns með mikilli hlýju og kærleik þar sem hann var einstakur maður í mínum huga, hans verður sárt saknað.

Elsku Silla, Aldís, Maríanna og fjölskyldur, við Bryndís sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra, minning um ljúfan og góðan mann mun lifa um ókomna tíð.

Friðgeir Jónsson.

Vinur minn og skólafélagi Magnús G. Friðgeirsson er nú allt of snemma kallaður brott frá fjölskyldu og vinum. Magnúsi kynntist ég við nám í Samvinnuskólanum á Bifröst árið 1969. Hann var í bekk á eftir mér og með okkur tókst þar góð vinátta sem hefur haldist allt til þessa. Að námi loknu ræddum við oft um að rétt væri að bæta við þekkingu og reynslu eftir Samvinnuskólann. Það varð úr að við sóttum um skólavist í breskum skóla, London School of foreign trade. Báðir fengum við skólavist, og um haustið 1972 var flogið utan. Skólinn hafði leigusala á skrá hjá sér og að athuguðu máli ákváðum við að leigja herbergi saman hjá fjölskyldu í Suður-London. Þarna vorum við í fæði og húsnæði hjá eldri heiðurshjónum við gott atlæti. Frá þessum tíma á ég margar og dýrmætar minningar um góðan dreng.

Magnús var mjög vandaður og heilsteyptur maður. Hann var réttsýnn og mátti í engu vamm sitt vita. Hann var alltaf tilbúinn að rétta

hjálparhönd ef á þurfti að halda og krafðist einskis á móti. Hann var ákveðinn en ávallt sanngjarn. Ég varð þess fljótt áskynja að hann hafði mikinn metnað og setti markið hátt í lífi og starfi. Það var aldrei vafi í mínum huga að Magnúsi yrðu falin vandasöm og mikilvæg verkefni þegar fram liðu stundir. Sú varð einnig raunin eins og allir þekkja.

Það var mikið áfall þegar Magnús greindist fyrir nokkrum árum með alvarlegan sjúkdóm sem nú hefur lagt þennan góða vin og félaga að velli. Síðast þegar við hittumst bar hann sig vel en það leyndi sér ekki að baráttan var tvísýn. Það var ennþá von um bata þegar við kvöddumst en nú er kallið komið og undan því getur enginn vikist. Gildir þá einu atgervi og mannkostir. Við leiðarlok kveð ég góðan vin með söknuði og þakklæti og veit að vel verður tekið á móti honum handan móðunnar miklu. Fjölskyldu Magnúsar færi ég innilegar samúðarkveðjur frá okkur Björgu.

Lífið er fljótt;

líkt er það elding sem glampar um nótt

ljósi, sem tindrar á tárum,

titrar á bárum.

(Matthías Jochumsson)

Óðinn Sigþórsson.

Fallinn er frá kær vinur okkar, Magnús Gunnlaugur Friðgeirsson. Hann hafði glímt við veikindi síðustu ár. Við höfðum þekkst í tæplega fimmtíu ár, sem er langur tími. Kynntumst við á Hjallabraut 39, Hafnarfirði, þar sem við bjuggum og hann flutti þangað nokkru síðar með fyrri konu sinni Sigrúnu og þremur börnum sem voru á svipuðum aldri og okkar börn. Okkur varð vel til vina og sameiginlegt áhugamál okkar var meðal annars að ferðast saman með börnum okkar bæði innan og utanlands. Voru farnar margar skemmtilegar ferðir. Nokkrum sinnum fórum við í Litla-Bæ á Höfðaströnd þar sem bæði fullorðnir og börn skemmtu sér við silungsveiðar og annað skemmtilegt. Einnig heimsóttum við þau til Harrisburg um páska í nokkur ár þar sem Magnús var þá forstjóri hjá Iceland Seefood. Þar áttum við góðar stundir.

Seinni kona Magnúsar, hún Sigurveig, varð einnig góð vinkona okkar. Á þeim tíma eru börnin orðin fullorðin og farin að eignast fjölskyldur. Þá tóku við ferðalög okkar fullorðna fólksins og var farið víða um fallega landið okkar og oftast gist í hjólhýsum. Við fórum líka í lengri og styttri ferðir til útlanda. Fyrir tæpum tuttugu árum kaupum við okkur hús á Spáni og Magnús og Silla keyptu sér líka hús á sama degi. Þar hittumst við alltaf öðru hverju og höfðum gaman saman.

Magnús var mikill framsóknarmaður og vann í mörg ár hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Þar fóru skoðanir okkar ekki alltaf saman en það hafði aldrei áhrif á vinskap okkar.

Það er erfitt að kveðja góðan vin til margra ára. Takk fyrir allt og allt í tæplega fimmtíu ár.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Sillu og stórfjölskyldunnar allrar.

Konráð (Konni) og

Guðríður (Guja).

Farsæll leiðtogi Miðborgarinnar okkar til margra ára hefur nú verið til grafar borinn. Magnúsar G. Friðgeirssonar verður lengi minnst sem mikils fyrirmyndarmanns. Hann gekk til einstaklega góðra verka í þágu miðborgarsamfélagsins og þá ekki síður á vettvangi samvinnuhreyfingarinnar þar sem hann gegndi áður mikilvægum trúnaðarstörfum langa hríð.

Það eru sannkölluð forréttindi að hafa fengið að kynnast og starfa með manni eins og Magnúsi þar sem væntumþykjan, mildin og velvildin voru ávallt í fyrirrúmi. Hann var rekstrarmaður glöggur og góður og stýrði ásamt eiginkonu sinni, Sigurveigu Lúðvíksdóttur, fyrirtækinu Kúnígúnd á Laugavegi af mikilli kostgæfni um árabil. Dýrmæt stjórnunarreynsla af vettvangi Iceland Seafood og Búvörudeildar SÍS nýttist vel í eigin rekstri og þá ekki síður á vettvangi Miðborgarinnar okkar en þar gegndi Magnús formennsku frá 2008-2015. Þeim tíma má lýsa sem einstöku blómaskeiði í sögu miðborgarinnar. Samheldni og víðtækt samstarf rekstraraðila á þessum árum veitti borgaryfirvöldum dýrmætt aðhald sem um leið efldi samvinnu og gagnkvæmt traust milli einkafyrirtækja og hins opinbera í miðborgarmálum öllum.

Við sem störfuðum með Magnúsi á þessum árum minnumst vikulegra morgunfunda stjórnar og framkvæmdastjóra með mikilli hlýju og þakklæti. Þetta voru dýrmætar stundir sem spegluðu umhyggju, eindrægni og jákvæðni í öllum samskiptum og verkefnum sem ráðist var í. Þessum fundum stýrði Magnús af festu og myndugleika hins fjölreynda heimsmanns er hann var. Ávallt naut hann óskoraðs trausts og virðingar samstarfsfólksins. Þá eru aðalfundir Miðborgarinnar okkar einkar eftirminnilegir undir stjórn Magnúsar og Harðar Eydal fundarstjóra, fjölsóttir og glæsilegir í alla staði. Síðan var boðið heim á klassíska vísu. Allt gerði Magnús af þeirri rausn og myndarskap sem svo vel speglaði einstaka persónugerð hans.

Að leiðarlokum ber að þakka allt hið tímafreka og fórnfúsa starf sem Magnús G. Friðgeirsson vann í þágu heildarinnar og með hvaða hætti hann skóp einingu er leiddi til eindreginna framfara á þessu mikilvæga skeiði í sögu miðborgar Reykjavíkur. Öll þessi mikilvægu og tímafreku störf vann Magnús launalaust og af einstakri auðmýkt, í þágu heildarinnar.

Eiginkonu Magnúsar, Sigurveigu Lúðvíksdóttur, börnum og eftirlifandi fjölskyldu allri skulu hér færðar einlægar hluttekningar- og samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hins mæta drengskaparmanns Magnúsar G. Friðgeirssonar.

Jakob Frímann

Magnússon.

Orðtakið segir að þeir sem guðirnir elska deyi ungir. Magnús var 73 ára en ávallt ungur í anda og góður við allt og alla alla ævi. Hann var lífsglaður, jákvæður og bjartsýnn að eðlisfari. Ég mun varðveita minningarnar um samverustundir okkar og hans einskæra áhuga á öllu því sem lífið hefur fram að færa, ólíkum menningarheimum og því að vera alltaf að læra eitthvað nýtt. Fjölskyldu og vinum Magnúsar og Sillu votta ég mína dýpstu samúð. Ég vona að þið finnið huggun í minningum af innihaldsríku og yndislegu lífi hans.

Hal Carper.