Karlína Friðbjörg Óskarsdóttir Hólm fæddist 29. september 1950. Hún lést 17. desember 2023. Útför hennar fór fram 10. janúar 2024.
Með fáeinum orðum viljum við minnast skólasystur okkar hennar Köllu eins og hún var ávallt kölluð, en hét fullu nafni Karlína Friðbjörg Hólm.
Árið 1969 hittumst við 30 ungar stúlkur í Hjúkrunarskóla Íslands til að læra hjúkrun í þrjú ár.
Margar okkar voru utan af landi, þ. á m. Kalla frá Seyðisfirði. Margar bjuggu í heimavist skólans og þess vegna myndaðist mjög gott samband milli okkar allra.
Þetta voru góð ár – krefjandi en líka skemmtilegur tími. Eftir útskrift fór hún eins og við allar að starfa við hjúkrun og vann við það starf meðan heilsan leyfði.
Fljótt sáum við að Kalla var góðum gáfum gædd, mjög listræn bæði á mynd og ljóð. Málaði falleg verk og eftir hana liggja mörg yndisleg ljóð sem hafa verið gefin út.
Við þökkum Köllu fyrir samfylgdina og biðjum henni Guðs blessunar og látum hér fylgja með eitt af fallegum ljóðum hennar:
Falla laufin eitt og eitt
áfram þar til ekki neitt
eftir er á einum hlyn,
ungan kveð ég sumarvin.
Kaldur vetur kveður hljóðs,
kulna raddir sumaróðs,
nú er mál að ljúki leik,
loft er grátt en jörð svo bleik.
Aðstandendum Köllu sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Skólasystur E-holls,
Berglind Sigurðardóttir.