Friðrik X. Konunglegur koss á hallarsvölum.
Friðrik X. Konunglegur koss á hallarsvölum. — AFP
Þegar Karl III. Bretakóngur var krýndur í maí í fyrra sá Ríkissjónvarpið á Íslandi ástæðu til þess að vera með beina útsendingu. Þar var sjónvarpið vissulega ekki eitt á báti og ugglaust fylgdust margir með, þótt langdregið væri og frekar fyrirsjáanlegt

Karl Blöndal

Þegar Karl III. Bretakóngur var krýndur í maí í fyrra sá Ríkissjónvarpið á Íslandi ástæðu til þess að vera með beina útsendingu. Þar var sjónvarpið vissulega ekki eitt á báti og ugglaust fylgdust margir með, þótt langdregið væri og frekar fyrirsjáanlegt.

Um helgina fóru fram valdaskipti í konungsríki, sem stendur okkur nokkuð nær. Þegar Margrét Þórhildur afsalaði sér krúnunni til Friðriks sonar síns á sunnudag var hins vegar engin bein útsending hjá ríkismiðlinum.

Auðvelt væri að bera blak af þeirri ákvörðun að senda ekki út frá viðburðinum með því að benda á hamfarirnar við Grindavík. Á þessum tíma dagsins skilaði sjónvarpið hins vegar auðu í þeim efnum. Á aðalrásinni var reyndar danskur framhaldsþáttur um hárrúllur og á aukarásinni mátti heyra útvarpsútsendingu Rásar 2 og fylgjast með gosinu á vefmyndavél.

Þar sem gosið var mál málanna fór fjarstýringin á heimilinu af stað og rataði er hún var að kanna hvort erlendir miðlar væru að fjalla um gosið inn á danska ríkissjónvarpið rétt í þann mund sem Margrét Þórhildur sagði: „Gud bevare kongen.“ Þar nam hún staðar allt þar til Friðrik X. hafði tárvotur kysst Maríu drottningu sína á svölum Kristjánsborgarhallar.

Höf.: Karl Blöndal