Vígsla Birgir sá um að bjóða nefndarmenn velkomna í Smiðjuna þennan fyrsta dag þeirra í nýju skrifstofuhúsnæði.
Vígsla Birgir sá um að bjóða nefndarmenn velkomna í Smiðjuna þennan fyrsta dag þeirra í nýju skrifstofuhúsnæði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Smiðjan, nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis, er hægt og bítandi að taka á sig mynd. Voru nefndaherbergi Alþingis í húsinu vígð í gær, auk annarrar aðstöðu sem nefndirnar hafa í húsinu. Skömmu fyrir jól fluttu þingmenn og hluti starfsmanna inn í…

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Smiðjan, nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis, er hægt og bítandi að taka á sig mynd. Voru nefndaherbergi Alþingis í húsinu vígð í gær, auk annarrar aðstöðu sem nefndirnar hafa í húsinu. Skömmu fyrir jól fluttu þingmenn og hluti starfsmanna inn í skrifstofur sínar og þar með hefur stór hluti húsnæðisins verið tekinn í notkun, þó enn eigi eftir að klára ýmislegt. Má þar helst nefna fimmtu hæð hússins, sem hýsir mötuneyti, auk þess sem ljúka þarf frágangi umhverfis húsið.

Þrátt fyrir að ekki sé komin mikil reynsla á notkun húsnæðisins kveðst Birgir Ármannsson forseti Alþingis ánægður með það og telur flesta spennta að starfa í húsinu. Er það sérstaklega í ljósi þess að nú hefur skrifstofum þingmanna og hluta starfsmanna verið komið fyrir í húsnæði sem þingið á og er skipulagt með þarfir starfseminnar í huga.

Spurður hvort húsnæðið rúmi alla þá þingflokka sem nú eru starfandi og þá flokka sem gætu bæst við í framtíðinni segir Birgir skrifstofuhæðirnar hafa verið hannaðar þannig að bregðast megi við bæði fjölgun og fækkun þingflokka.

Hönnunin er að mörgu öðru leyti margbrotin og hugsað út í minnstu smáatriði. Því fékk blaðamaður að kynnast þegar hann gekk um húsið í fylgd Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra Alþingis. Hófst leiðsögnin við gryfju sem staðsett er í anddyri hússins. Gryfjan hefur að geyma endurbyggðan stíg sem fannst við fornleifauppgröft á lóð hússins, auk gamalla muna sem jafnframt verða til sýnis í gryfjunni. Því næst var gengið á efri hæðir hússins þar sem skrifstofur þingmanna og starfsfólks Alþingis eru. Ragna segir liti einkenna hæðirnar og bendir blaðamanni á rautt gólfið á hæð þingmanna og grænt á hæð starfsmanna. Þá er sjónsteypa áberandi í húsinu, blaðamaður tekur helst eftir súlum úr sjónsteypu við glugga hússins sem jafnframt eru upphitaðar og koma þannig í stað ofna.

Aðspurður segir Birgir ekki ljóst hver endanlegur kostnaður verður, endurskoðaðar áætlanir geri þó ráð fyrir kostnaði í kringum sex milljarða. Bindur hann vonir við að kostnaður fari ekki mikið fram úr því, enda hafi ekkert komið upp sem ætti að raska kostnaðaráætlun mikið.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir