Sænska knattspyrnufélagið Skövde AIK staðfesti í gær að Srdjan Tufegdzic hefði verið ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins sem leikur í sænsku B-deildinni. Túfa, eins og hann er jafnan kallaður, lék og þjálfaði á Íslandi um árabil, lék með KA og…

Sænska knattspyrnufélagið Skövde AIK staðfesti í gær að Srdjan Tufegdzic hefði verið ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins sem leikur í sænsku B-deildinni. Túfa, eins og hann er jafnan kallaður, lék og þjálfaði á Íslandi um árabil, lék með KA og þjálfaði þar, í Grindavík og hjá Val, en var með lið Öster í sænsku B-deildinni síðustu tvö ár.

Kristrún Guðnadóttir og Snorri Einarsson sigruðu í 10 km skiptigöngu kvenna og karla á alþjóðlegu FIS-bikarmóti í Hlíðarfjalli við Akureyri um helgina. Kristrún keppir fyrir skíðagöngufélagið Ull og Snorri fyrir Skíðafélag Ísafjarðar. Veronika Lagun úr Skíðafélagi Akureyrar sigraði í 7,5 km göngu kvenna með hefðbundinni aðferð og Ævar Freyr Valbjörnsson, úr sama félagi, í karlaflokki. Ævar sigraði einnig í eins kílómetra sprettgöngu.

Stúlknalandsliðið í íshokkí vann risasigur á Suður-Afríku á sunnudag, 24:0, í lokaumferðinni í 2. deild B á heimsmeistaramóti U18 ára liða í Búlgaríu og hafnaði í öðru sæti í deildinni. Ísland og Nýja-Sjáland urðu efst og jöfn í deildinni með 12 stig, eftir að hafa unnið bæði fjóra af fimm leikjum sínum. Ísland var með betri markatölu, 33:6 gegn 33:9, en Nýja-Sjáland vann deildina á innbyrðis viðureign liðanna sem endaði 2:0 fyrir þær nýsjálensku.

Frakkinn Karim Benzema, knattspyrnumaður ársins í heiminum og í Evrópu 2021-22, hefur verið settur út úr leikmannahópi Al-Ittihad í Sádi-Arabíu. Benzema mætti ekki á æfingu og var fyrir vikið ekki heimilað að fara með liðinu í æfingabúðir í Dúbaí.