Fagfélögin, Rafiðnaðarsambandið, VM og Matvís, sem ganga saman til kjaraviðræðna, vísuðu í gær kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Félögin hafa ekki tekið þátt í viðræðum breiðfylkingar stéttarfélaga í ASÍ við SA og…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fagfélögin, Rafiðnaðarsambandið, VM og Matvís, sem ganga saman til kjaraviðræðna, vísuðu í gær kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Félögin hafa ekki tekið þátt í viðræðum breiðfylkingar stéttarfélaga í ASÍ við SA og segja forsvarsmenn þeirra að þrír samningafundir við SA hafi litlu skilað.

Tillaga um að vísa kjaradeilunni til sáttameðferðar var samþykkt samhljóða á fundi samninganefnda félaganna síðastliðinn fimmtudag. Undir eru 30 kjarasamningar þessara félaga.

Í tilkynningu um fund samninganefndanna á heimasíðu Matvís kemur fram að SA hafi lagt áherslu á að fagfélögin sláist í för með breiðfylkingunni. Hins vegar hafi Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar fagfélaganna, sýnt fram á að tillaga um krónutöluhækkun sem liggi á samningaborði SA og meirihluta ASÍ þjóni ekki hagsmunum fagfélaganna.

Viðræður samninganefnda breiðfylkingar ASÍ og SA héldu áfram í gær. Ekki dró til neinna sérstakra tíðinda á þeim fundi en boðað er á morgun til næsta fundar í viðræðunum, sem fara fram í húsnæði ríkissáttasemjara. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að samningaviðræðurnar séu flóknar en þær séu í ákveðnu ferli.

Spurður hvort einhver svör hafi fengist frá stjórnvöldum um innlegg ríkisstjórnarinnar segir hann að þau liggi ekki fyrir. Heyrst hafi að mögulega sé von á einhverju frá ríkisstjórninni undir lok vikunnar „en í ljósi stöðunnar í Grindavík þá skilur maður ef áhersla stjórnvalda liggur þar eins og sakir standa. Við vitum líka að það þarf að vera komin ákveðin niðurstaða í okkar mál áður en stjórnvöld eru tilbúin að spila öllu út.“