Hamingjusöm Leikarahjónin Harrison Ford og Calista Flockhart.
Hamingjusöm Leikarahjónin Harrison Ford og Calista Flockhart. — AFP/Michael Tran
Harrison Ford hlaut heiðursviðurkenningu fyrir ævistarf sitt þegar verðlaun bandarískra kvikmyndagagnrýnenda, Critics Choice Awards, voru afhent við hátíðlega athöfn á sunnudag. Í þakkarræðu sinni sagðist Ford vera mikill lukkunnar pamfíll

Harrison Ford hlaut heiðursviðurkenningu fyrir ævistarf sitt þegar verðlaun bandarískra kvikmyndagagnrýnenda, Critics Choice Awards, voru afhent við hátíðlega athöfn á sunnudag. Í þakkarræðu sinni sagðist Ford vera mikill lukkunnar pamfíll. „Ég stend hér vegna samspils heppni og vinnu frábærra leikstjóra, handritshöfunda og kvikmyndagerðarmanna. Mér finnst ég einstaklega lánsamur,“ sagði Ford. Meðal þeirra mynda sem hann hefur leikið í á löngum og farsælum ferli eru American Graffiti, ­Apocalypse Now, Witness, The Fugitive, Work­­ing Girl og Blade Runner þó hann sé vafalítið þekktastur fyrir túlkun sína á Han Solo í Star Wars og fornleifafræðingnum Indiana Jones í samnefndum myndum. Ford þakkaði samleikurum sínum og ekki síst Calistu Flockhart, eiginkonu sinni, sem „styður mig þegar ég þarf mest á því að halda – og ég þarf mikinn stuðning.“

Kvikmyndin Oppenheimer stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins með átta verðlaun. Myndin var valin besta myndin, ­Christopher Nolan verðlaunaður fyrir leikstjórn, Robert Downey Jr. fyrir bestan leik í aukahlutverki og leikhópurinn í heild valinn sá besti. Barbie hlaut sex verðlaun, m.a. sem besta gamanmyndin og fyrir besta frumsamda handritið úr smiðju Gretu Gerwig og Noah Baumbach. Fyrir bestan leik í aðalhlutverkum voru verðlaunuð þau Emma Stone í Poor Things og Paul Giamatti í The Holdovers. Sjónvarpsþáttaraðirnar The Bear og Beef hlutu fern verðlaun hvor sería og Succession hlaut þrenn.