Baksvið
Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Ef við horfum á tölurnar, hvernig einstaklingum hefur fjölgað sem fara á þessi lyf, finnst okkur ólíklegt að það geti eingöngu skýrst af fjölgun sykursýkissjúklinga. Takturinn er miklu meiri en svo. Þessi tölfræðigögn sem við höfum veita okkur vísbendingar um að það sé verið að nota þessi lyf fyrir fólk sem er ekki með sykursýki,“ segir Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, um þá þróun sem sést hefur á notkun sykursýkislyfsins Ozempic.
Notkun lyfsins hér á landi, sem og víðar um heim, hefur margfaldast á undanförnum árum. Á síðasta ári fengu 9.020 manns lyfið uppáskrifað. Til samanburðar fengu 5.595 manns lyfið uppáskrifað árið áður. Jókst kostnaður við greiðsluþátttöku ríkisins um 60% milli 2022 og 2023.
Ozempic er skilgreint sem sykursýkislyf og aðeins leyfilegt að skrifa upp á það, með greiðsluþátttöku ríksins, sem slíkt. Fyrst verður þó að prófa meðferð með öðru sykursýkislyfi áður en Ozempic er notað. Ozempic hefur þó einnig verið notað til þyngdarstjórnunar og hefur notkun lyfsins í þeim tilgangi aukist.
Sigurður segir tilvik hafa komið upp á undanförnum árum þar sem ljóst sé að meðferð var ekki raunverulega reynd með öðru lyfi þótt skrifað hafi verið upp á það í upphafi meðferðar.
Danski lyfjarisinn Novo Nordisk framleiðir lyfið og hefur grætt mikið á því. Er fyrirtækið nú metið verðmætasta fyrirtæki í allri Evrópu. Mikil eftirspurn hefur verið eftir Ozempic og mikið verið rætt mikið um lyfið á opinberum vettvangi. Þá hefur borið á umfjöllun um það á samfélagsmiðlum á borð við Instagram og TikTok.
Skortur hefur verið á lyfinu á Íslandi frá því á síðasta ári og hefur ekki enn verið mætt að fullu. Ný sending er væntanleg í dag eða á morgun, miðvikudag. Sigurður segir mögulegt að regluverkið hér á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum hafi átt þátt í að ýta undir vanda.nn „Það er mjög slæmt fyrir sykursýkissjúklinga ef það verður rof á meðferð. Við notum þessi lyf fyrir fólk sem þarf mest á þeim að halda,“ segir Sigurður.
Seint á síðasta ári hertu Sjúkratryggingar Íslands reglur og viðmið um greiðsluþátttöku á Ozempic. Á meðal þeirra breytinga er áðurnefnd regla um að sjúklingar þurfi að vera á öðru sykursýkislyfi í sex mánuði áður en þeir fá Ozempic.
Síðasta haust kom lyfið Wegovy á markað á Íslandi. Það lyf er einnig framleitt hjá Novo Nordisk og er virka efnið það sama og í Ozempic, semaglútíð. Það lyf er fyrst og fremst ætlað til þyngdarstjórnunar. Við ákvörðun um greiðsluþátttöku litu SÍ til þess sem gert hefur verið í nágrannalöndunum. Er greiðsluþátttakan því skilyrt við einstaklinga sem þjást af offitu eins og hún er skilgreind af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, eru með þyngdartengdan fylgisjúkdóm og lyfjameðferðin er einn af fleiri liðum í meðferð við offitu.
Á sama tíma var ákveðið að afnema greiðsluþátttöku fyrir lyfið Saxenda. Er það eldra lyf notað til þyngdarstjórnunar og þykir Wegovy bæði henta betur til meðferðar við offitu en einnig er lyfið mun ódýrara en Saxenda.
Sjúklingum á Saxenda hefur fjölgað umtalsvert í gegnum árin, úr 433 árið 2019 í 4.269 árið 2023. Á síðasta ári fengu hátt í þrjú þúsund manns Wegovy uppáskrifað á Íslandi.
Spurður hvort vonir standi til að Wegovy komi til með að koma í staðinn fyrir þá sjúklinga sem notað hafa Ozempic til þyngdarstjórnunar segir Sigurður já, að einhverju leyti. Ekki sé þó um nákvæmlega sama lyf að ræða þótt virka efnið sé það sama eða svipað.
„Við væntum þess að Wegovy verði notað meira, en ef það er áfram einhver freistnivandi að komast fram hjá regluverkinu gæti verið að það yrði áfram auðveldara að gera það með Ozempic,“ segir Sigurður. Hann útskýrir að sjúkdómsviðmiðin séu ólík og kannski ögn matskenndari varðandi sykursýkina, samanborið við BMI-stuðul sem notaður er í greiningu á offitu, þótt hann vilji ekki fullyrða það.
„Spurningin er bara: munu þessi hertu skilyrði varðandi Ozempic skila sér? Við getum ekki vitað það með fullri vissu fyrir fram, en við væntum þess,“ segir Sigurður.
Hann segir þróun lyfjakostnaðarins, meðal annars við þessi lyf, verða að breytast því annars verði ekki hægt að standa undir kostnaðinum.
„Að óbreyttu, ef þróun lyfjakostnaðarins verður með þeim hætti sem hún hefur verið á undanförnum árum – ekki eingöngu vegna þessara lyfja heldur meðal annars vegna þeirra – þá getur það varla talist sjálfbær útgjaldavöxtur. Það er mjög erfitt að horfa á sambærilegan útgjaldavöxt í lyfjunum,“ segir Sigurður.