Hinn dæmalausi Dómkór Þórunn er önnur til vinstri í fremstu röð, í blárri peysu og með bláan trefil.
Hinn dæmalausi Dómkór Þórunn er önnur til vinstri í fremstu röð, í blárri peysu og með bláan trefil.
Tónlist hefur fylgt Þórunni Björnsdóttur tónmenntakennara alla tíð. Hún er einn þriggja stjórnenda Hins dæmalausa Dómkórs og stjórnaði og sá um Skólakór Kársness í Kársnesskóla í Kópavogi fyrstu 40 árin, frá 1975 til 2015

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tónlist hefur fylgt Þórunni Björnsdóttur tónmenntakennara alla tíð. Hún er einn þriggja stjórnenda Hins dæmalausa Dómkórs og stjórnaði og sá um Skólakór Kársness í Kársnesskóla í Kópavogi fyrstu 40 árin, frá 1975 til 2015. „Ég hélt að vísu eitthvað áfram að snuddast en hætti endanlega í skólanum þegar covid skall á.“

Eiginmaður Þórunnar, Martin Hunger Friðriksson, stjórnaði lengi Dómkórnum og gamlir félagar úr kórnum héldu áfram að hittast eftir að hann lést 2010. „Við erum svo miklir vinir og félagar og höldum hópinn sem Hinn dæmalausi Dómkór,“ segir hún. Kórinn hafi sungið víða, meðal annars á tónleikum í Vestmannaeyjum og á kóramóti á Tenerife á liðnu ári og stefnt sé á kóramót í Barcelona í haust. „Kórstarf skilar sterkum vináttuböndunum og þau slitna ekki svo auðveldlega.“

Björn Guðjónsson, trompetleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnaði skólahljómsveit Kársnesskóla í Kópavogi, þegar ákveðið var að stofna kór í skólanum 1975. Þórunn var þá nemi í tónmenntakennaradeild og í skólahljómsveitinni. „Einn daginn sagði hann mér að ég ætti að hitta skólastjórann. Af hverju? spurði ég. Þú átt að stjórna kór, svaraði hann. Ég kann það ekki, Björn, sagði ég. Þú verður þá bara að læra það.“

Öflugir krakkar

Þórunn var 21 árs þegar hún reið á vaðið með Barnakór Kársnesskóla. Hún segir að nemendur sem hafi sýnt áhuga á að fara í kórinn hafi farið í inntökupróf og það hafi komið illa út. „Sönghefðin var ekki sterk og aðeins brot af börnunum gat sungið vel.“ Hún hafi skrifað upp nöfn þeirra sem hafi staðist prófið og þegar hún hafi ætlað að fara að tilkynna hverjir mættu koma í kórinn hafi hún mætt þremur ungum stúlkum. „Tvær þeirra höfðu komist inn en ein ekki og ég gat ekki sagt henni tíðindin. Ég fleygði listanum og sagði að allir áhugasamir mættu koma í kórinn.“

Vinsældir kórsins má rekja til góðra viðbragða leiðtoga á meðal nemenda, að sögn Þórunnar, sem útskrifaðist sem tónmenntakennari 1977 og byrjaði þá að kenna tónmennt í skólanum auk þess að stjórna kórnum. „Áhrifamiklir strákar ruddu bautina í sínum hópi og á öðru ári var ég til dæmis komin með alla bestu fótboltastrákana í Breiðabliki í kórinn. Þeir brutu ísinn.“ Hún hafi líka alltaf verið með ákveðna gulrót, að æfingarnar væru fyrir ákveðna uppákomu. „Kórinn fékk reglulega umbun og þakklæti.“

Hún byrjaði með 70 börn á aldrinum sjö til tólf ára og ári síðar skipti hún þeim í tvo hópa eftir aldri. Seinna urðu hóparnir fleiri og kynjaskiptir í elstu bekkjunum. „Fljótlega varð 100% þátttaka og þegar grunnskólar urðu einsetnir var kórstarfið í skólanum alfarið sett inn í stundaskrá.“

Þórunn segist eiga ótrúlega sterkt bakland í fyrrverandi kórfélögum. „Mörg kórbörnin eru félagar mínir og vinir, þetta er einn sterkasti og þéttasti vinahópur minn og ég er örugglega dekraðasti kennari landsins.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson