Í Bandaríkjunum Ásgeir og Helga stödd í Jackson Hole, Wyoming.
Í Bandaríkjunum Ásgeir og Helga stödd í Jackson Hole, Wyoming.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Viðarsdóttir fæddist 16. janúar 1974 og er borinn og barnfæddur Skagamaður. „Akranes var hæfilega stór, samheldinn útgerðarbær þar sem allir þekktu alla þegar ég ólst þar upp. Þarna voru barnmargar fjölskyldur og kröftugt félagslíf

Helga Viðarsdóttir fæddist 16. janúar 1974 og er borinn og barnfæddur Skagamaður.

„Akranes var hæfilega stór, samheldinn útgerðarbær þar sem allir þekktu alla þegar ég ólst þar upp. Þarna voru barnmargar fjölskyldur og kröftugt félagslíf. Andinn í bænum einkenndist af vinnusemi, þrautseigju og bjartsýni líkt og annars staðar við sjóinn á Íslandi þar sem barist er daglega við náttúruöflin. Ég er alin upp af fólki sem sá glas sitt alltaf hálffullt og bjóst við betri tíð rétt handan við hornið. Þetta viðhorf hefur fylgt mér í gegnum lífið líkt og hjá svo mörgum öðrum Skagamönnum sem ég þekki.

Ég ólst einnig upp í nánd við dásamlega náttúru og mikið frelsi. Akrafjall og Langisandur gáfu tækifæri til endalausrar náttúruskoðunar og ævintýra. Ég fékk snemma áhuga á dýrum og kom upp hálfgerðum dýragarði heima hjá mér – foreldrum mínum til mikillar mæðu. Má þar nefna fiska, páfakauk, kött, hund, kanínu, dúfur, hest og svo ef ég fann dýr úti sem ég hélt að þyrftu á aðstoð að halda komu þau með mér heim. Ég man sérstaklega eftir því hvað föður mínum brá eitt sinn þegar ég kom með hrafn inn í húsið sem ég hafði fundið úti. Ég var raunar um að tíma að velta fyrir mér að gerast dýralæknir. Það varð ekki en ég brenn enn fyrir dýravelferð.

Foreldrar mínir voru með sinn eigin verslunar- og textílrekstur og vinnudagurinn þeirra var oft langur. Ég fór snemma að hjálpa til við að afgreiða eða sinna lagerhaldi. Faðir minn var með mikinn áhuga á nýjungum og frumkvöðlastarfsemi. Hann fékk verðlaun fyrir hönnun á öryggisfatnaði og fékk skráð einkaleyfi á öryggisfatnað fyrir starfsmenn álvera. Það var þessi áhugi sem leiddi mig síðar til þess að læra viðskiptafræði.“

Helga gekk í Grundaskóla á Akranesi og fékk mjög snemma áhuga á raungreinum. „Grundaskóli er góður skóli og við vorum heppin með skólastjórann, hann Guðbjart Hannesson, sem rak skólann af miklum metnaði og fékk til sín afburðakennara. Leiðin lá svo í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi þar sem ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut.“ Eftir stúdentspróf nam Helga rekstrarfræði við Háskólann á Akureyri og fór síðan í framhaldsnám til Danmerkur og tók M.Sc.-gráðu frá Viðskiptaháskóla Árósa. „Lokaverkefnið fjallaði um notkun sviðsmynda í stefnumótun og rekstri fyrirtækja. Markmið verkefnisins var að móta vel skipulagðar sviðsmyndir fyrir stofnanir og fyrirtæki sem kynnu að vilja nýta sér þá framtíðartækni í stjórnunarferli sínu. Kannski má kalla þetta raungreinaáherslu í stefnumótun fyrirtækja.“

Helga kom heim frá námi í Danmörku árið 2003 en þá var faðir hennar orðinn veikur af krabbameini og hann lést stuttu síðar. „Ég tók við fjölskyldurekstrinum sem var Trico á Akranesi. Það var mjög krefjandi að taka við rekstrinum á þessum tíma þar sem miklar breytingar voru að eiga sér stað í íslenskum iðnaði. Það voru miklar tækniframfarir og aukin samkeppni frá láglaunalöndum. Fyrirtækið framleiddi sokka bæði fyrir almennan markað og einstök fyrirtæki. Trico var t.d. einn helsti birgir Össurar fyrir hnéhlífar og sokka sem fóru upp á gervilimi og seldi einnig eldvarnarsokka út um allan heim til álvera og slökkviliða. Það var eldskírn fyrir mig að taka við þessum rekstri á umbrotatímum og við þurftum að setja allan okkar fókus á erlenda markaðssetningu.

Ég var búin að öðlast mikla reynslu í textílbransanum þegar ég var ráðin framkvæmdastjóri markaðssviðs 66°Norður 2007. Ég mat það svo þá að besta leiðin til þess að markaðsetja útivistarfatnað væri að hvetja fólk til útivistar allt árið um kring. Við hófum því átak í að fá fólk til að ganga á fjöll yfir vetrarmánuðina. Við skipulögðum ferðir með hundruðum Íslendinga og erlendum blaðamönnum á ýmsa fjallstoppa á Íslandi. Ég sjálf fór fimm sinnum á Hvannadalshnúk.“

Eftir eigendaskipti hjá 66°Norður ákvað Helga að breyta til og hóf störf hjá Norræna húsinu 2011 og settist jafnframt í stjórn Vodafone í aðdraganda skráningar félagsins á markað. Henni bauðst svo í kjölfarið að taka við rekstri hjá IMC Iceland sem rak Alterna-farsímafélagið og seldi farsímaaðgang í heildsölu til minni farsímafélaga. Loks leitaði hún aftur til upphafsins og hóf sjálfstæðan rekstur.

„Það er vitaskuld ekki á vísan að róa í fyrirtækjarekstri og í eigin rekstri stendur þú og fellur með eigin ákvörðunum. En í því felst einnig frelsi og lífsfylling. Í dag rek ég fyrirtæki sem sameinar þá þekkingu og reynslu sem mér hefur áskotnast í lífinu. Fyrirtækið heitir Spakur Finance sem sérhæfir sig í að verðmeta verkefni og fyrirtæki ásamt því að reka fagfjárfestasjóðinn Spakur Invest sem fjárfestir í skráðum erlendum félögum.“

Helga byrjaði að stunda hlaup þegar hún var í námi í Danmörku. Þar tók hún þátt í sínu fyrsta hlaupi. Ég hleyp nánast á hverjum degi. Fer út á morgnana með unnusta mínum og hundi. Börnin mín eru líka að hlaupa og hafa hlaupin sameinað okkur öll. Næsta áskorun er maraþon í París 7. apríl næstkomandi. Það eru ein mestu forréttindi í lífinu að fá að stunda íþróttir með fjölskyldunni. Það er eitthvað stórkostlegt við alla þessa súrefnisupptöku og hreyfingu sem gefur svo mikið af sér. Ég held að flestir ef ekki allir hlauparar kannist við þetta“.

Fjölskylda

Unnusti Helgu er Ásgeir Jónsson, f. 21.6. 1970, seðlabankastjóri. Foreldrar hans eru hjónin Jón Bjarnason, f. 26.12. 1943, fv. ráðherra og skólastjóri, og Ingibjörg Sólveig Kolka Bergsteinsdóttir, f. 15.10. 1947, þroskaþjálfi.

Börn Helgu úr fyrra sambandi eru. 1) Viktor Ellingsson, f. 5.7. 1998, stundar doktorsnám í efnafræði við Oxford, og Freyja Ellingsdóttir, f. 8.5. 2001, sölustjóri hjá Third Space-líkamsrækt í London.

Systkini Helgu eru Ásdís Viðarsdóttir, f. 6.2. 1972, búsett í Svíþjóð, og Magnús Viðarsson, f. 13.7. 1988, búsettur á Akranesi.

Foreldrar Helgu voru hjónin Viðar Magnússon, f. 7.4. 1952, d. 5.11. 2003, framkvæmdastjóri og Marsibil Sigurðardóttir, f. 4.9. 1951, d. 20.11. 2018, framkvæmdastjóri. Þau voru búsett á Akranesi.