Magnús B. Jóhannesson
Jarðhræringar í og við Grindavík undanfarnar vikur hafa skapað ólíðandi ástand fyrir íbúa sem búa í algjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér.
Ofan á þungar áhyggjur íbúa Grindavíkur af andlegu ástandi sinna nánustu bætast fjárhagslegar áhyggjur af íbúðarhúsnæði sem sumt hvert er verulega skaddað en annað að því er virðist óskaddað með öllu sem er jafnvel verra. Hvers vegna, gæti einhver spurt, getur óskaddað hús verið verra, jú því þá fá eigendur ekki greitt út úr náttúruhamfarasjóði sem fer eftir nákvæmum reglum sem í mörgum tilvikum virðast ekki ná fullkomlega yfir þær aðstæður sem upp eru komnar. Margur húsnæðiseigandinn hefur því ekki fengið neina hjálp við húsnæði sitt, er fastur í hengingaról sem sífellt þrengist og engin undankomuleið sýnileg. Sú staða eykur á áhyggjur þessara einstaklinga og er ekki á bætandi.
Hvað er til ráða?
Til að lina þjáningar og áhyggjur Grindvíkinga gæti ríkissjóður keypt strax upp fasteignir á svæðinu, þeirra sem þess kjósa, á fasteignamatsverði. Þannig væri fólk skorið úr þeirri fjárhagslegu snöru sem margir eru í og a.m.k. fjárhagslegum áhyggjum þeirra aflétt. Grindvíkingar eru margir hverjir í áfalli, venjulegt líf þeirra í algjöru uppnámi, börn í nýjum skólum og foreldrar frá vinnu sem hefur lagst niður að verulegu leyti vegna þessa ástands og alger óvissa ríkir um framhaldið. Það er ekki á það bætandi að þurfa að hafa áhyggjur af fjárhagslegri framtíð sinni og fjölskyldunnar ofan á allt annað.
Kostnaður ríkissjóðs af uppkaupunum yrði verulegur, um það verður ekki deilt. Samkvæmt fasteignamati HMS er fjöldi fasteigna í Grindavík um 1.664 og fasteignamat 2024 um 106.507 m. kr. En spyrja má: eru náttúruhamfarir eins og þessar ekki slíkt tjón að þjóðin brennur í skinninu að koma fólkinu til aðstoðar? Er það ekki sjálfsögð skylda okkar að koma bræðrum okkar og systrum til hjálpar í neyð?
Þar sem þessi aðgerð yrði gerð undir formerkjum fjárfestingar, þ.e. ríkissjóður kaupir fasteignir á svæðinu, þá hefur ríkissjóður möguleikann á að endurheimta fjárfestinguna með sölu, láta kaupin ganga til baka þannig að núverandi eigendur eignist húsin sín aftur kjósi þeir svo, eða leigu fasteignanna að þessum viðburði loknum hvort sem það verður eftir sex mánuði eða fimm ár.
Áskorun
Er ekki kominn tími til að stíga upp og skera Grindvíkinga úr snörunni, aflétta fjárhagsáhyggjum þeirra og gefa þeim andrými, fjárhagslega hugarró, svo þau geti snúið sér að mikilvægari málum eins og að sinna velferð barna sinna og ættingja. Það óvissuástand sem skapast hefur getur varað lengur en fólk vænti í fyrstu og mikilvægt að styðja við bakið á Grindvíkingum með myndarlegum og afgerandi hætti.
Höfundur er framkvæmdastjóri Storm Orku.