Ævintýraþrá Fanney og eiginmaður hennar, Steinþór Runólfsson, létu drauminn rætast og ferðuðust um heiminn.
Ævintýraþrá Fanney og eiginmaður hennar, Steinþór Runólfsson, létu drauminn rætast og ferðuðust um heiminn.
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Hugmyndin að bókinni kviknar í raun þegar ég er á fjórða ári í lögfræði og sit þar áfanga sem heitir réttarheimspeki en þar kynnist ég kenningu Johns Rawls um fávísisfeldinn. Svo er það þannig að einstaka sinnum á ævinni verður maður fyrir einhverri upplifun sem hvolfir örlítið heimsmyndinni eða fær mann til að líta allt öðruvísi á allt sem maður hefur séð áður og þetta var svona eitt af þeim augnablikum,“ segir Fanney Hrund Hilmarsdóttir, höfundur bókarinnar Dreim – Fall Draupnis, sem er fyrsta bók í þríleiknum um Dreim.

Í lok árs 2019 lauk Fanney við sköpun heildarsögunnar, skipulag og viðfangsefni þríleiksins en fyrsta bók hennar, Fríríkið, sem kom út haustið 2021, er eins konar upptaktur að þríleiknum um Dreim.

Sjálfsvitund þín hverfur

Lýsir Fanney bókinni sem heimspekitrylli fyrir unglinga, ungmenni og fantasíufólk og segir að um sé að ræða sögu af vináttu, sjálfhverfu og samkennd. Þá megi lýsi innihaldi kenningarinnar um fávísisfeldinn á þann hátt að undir feldinum sé þér ómögulegt að taka sjálfsmiðaða ákvörðun þar sem þú hefur ekkert sjálf og þróunarleg sjálfhverfa þín hafi ekki lengur áhrif á hugmyndir þínar um réttlæti. Þeir sem liggi undir feldinum gleymi sjálfsvitund sinni og vita ekki hverjir þeir séu, af hvaða kyni, kynþætti, stöðu eða stétt.

„Ég hugsaði með mér að það væri svo gaman ef inntak kenningarinnar kæmist einhvern veginn víðar og þannig væri, sérstaklega með yngri kynslóðir, hægt að færa þeim eitthvert tæki til að opna félagslega umræðu, jafnvel að velta hlutunum, löggjöfinni og þessum viðmiðum samfélagsins fyrir sér, út frá þessum fávísisfeldi.“ Segist Fanney þá í framhaldinu hafa hugsað með sér að klæða söguna í ævintýrabúning.

„Þá varð til þessi veröld þar sem annars vegar eru raunheimar og hins vegar ævintýraveröldin og skilin þar á milli. Þar sem þú ferð í gegnum skilin, það er í rauninni þessi fávísisfeldur.“

Þörf fyrir að skrifa og skapa

Að sögn Fanneyjar hafði hún sjálf sem barn mjög auðugt ímyndunarafl og var dugleg að skreyta og bæta við sögur sem hún las og hlustaði á.

„Undir niðri kraumaði þessi ofsalega mikla þrá að skapa og skrifa sem bæði mamma mín og amma hafa. Þær höfðu alltaf skrifað ofan í skúffu en þarna kom þetta einhvern veginn saman þegar þessi veröld hafði kraumað í mér í fimm, sex ár. Ég útskrifaðist úr lögfræði og fór svo að starfa sem héraðsdómslögmaður. Þá hugsaði ég: þetta er enn þá þarna. Enn þá fyllist maginn minn af fiðrildum þegar ég hugsa um þetta þannig að kannski ætti ég að gefa þessu raunverulegan séns.“

Segir hún að þá hafi eitthvað allt annað tekið við en bara kenningin því þar á ofan hafi ímyndunaraflið tekið í taumana og þau hjónin gripið tækifærið og látið gamlan draum um að ferðast um heiminn rætast.

„Við litum á þetta sem tækifæri til að kúpla okkur út úr þessari hröðu, stífu og beinu framabraut sem manni er einhvern veginn alltaf ýtt á,“ segir Fanney og bætir við að þau hafi því selt íbúðina sína og haldið af stað út í heim til að skynja, standa í sporum og sjá með augum annarra.

„Þannig flökkuðum við með bakpoka um Afríku, Asíu og Eyjaálfu, frá gullsölum olíuvelda til strákofa þjóðarbrota, frá sporum hinna berfættu til spora sem ekki einu sinni sjást á skjannahvíta marmaranum en eru þó dýpst allra.“

Fékk innblástur á ferðalaginu

Í sögunni má því finna atriði sem hafa verið skrifuð á bökkum Zamzei-árinnar, Sambíu-megin, á Likoma-eyju í Malaví-vatni, á górilluslóðum í Virunga í Úganda, í SaPa, Víetnam, í haustlitum Paradísardals Nýja-Sjálands og svo víðs vegar um Ástralíu og Ísland.

Segist Fanney hafa haldið dagbók á ferðalaginu en hjónin voru samtals á flakki í tvö ár.

„Ég fæ mjög mikinn innblástur á ferðalaginu en það talaði svo rosalega vel saman við þessa grunnhugmynd um fávísisfeldinn, sem ég hafði ekki alveg séð fyrir mér að myndi púslast svona vel saman. Sú reynsla sem þú færð að sjá og snerta á með því að ferðast svona og kynnast fólkinu á hverjum stað býr til þessa töfra. Það gerði mér kleift að koma undan fávísisfeldinum aftur og aftur að sjá virkilega líf fólks á þessum slóðum. Ég er rosalega þakklát fyrir það,“ segir hún.

Eftir öll ferðalögin og flakkið komu hjónin sér fyrir í Ástralíu þar sem þau dvöldu í heilt ár. „Maðurinn minn er læknir og fór þar í nám í utanspítalalækningum þar sem hann var meðal annars að vinna með áströlskum frumbyggjum. Ég varð algjörlega heilluð af þeirra trú og sögu en hún kemur mikið inn í þessa ævintýraveröld. Þannig er ég svolítið að vinna með tungumálið kiswahili, sem er talað í austurhluta Afríku, sem og tungumál ástralskra frumbyggja, Wagiman-tungumálið, og þeirra trú og tengingu við náttúruna,“ segir Fanney.

„Þannig byrja ég á að púsla þessu skipulega saman og enda á að vera búin að skipuleggja þrjár bækur út í ystu æsar. Ég treysti mér ekki til að fara af stað með þríleik og sjá bara hvert það myndi leiða mig. Ég vissi að til að halda öllum þráðunum og láta þetta ganga upp þá þyrfti ég að vera búin að hugsa þetta frá a-ö því í svona fantasíu ertu að byggja upp heim, lönd, mismunandi siði og menningu, gjaldmiðil, fatnað, tísku, mat og þar fram eftir götunum. Þú verður að hugsa fyrir öllu.“

Tónlistin hluti af upplifuninni

Aftast í bókinni má finna útflettanlegt kort ásamt QR-kóðum. Leiða þeir lesendur inn á sérstakan lagalista sem Fanney setti saman en tónlistina nýtti hún sjálf við skrifin og er listinn settur saman í takt við gang sögunnar. „Ég verð sjálf, líkt og svo margir aðrir, fyrir hughrifum þegar ég hlusta á tónlist. Þannig að ég eyddi mikilli vinnu í að velja saman lagalista fyrir hverja og eina persónu, sérstök atriði og kafla til að auka á upplifun lesandans,“ segir Fanney að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir