Vegagerðin greinir frá því að fjöldi sprungna hafi myndast í jarðhræringum síðustu sólarhringa.
„Eftir skoðun á Suðurstrandarvegi og leiðinni inn í Grindavík að austanverðu er ljóst að margar sprungur hafa myndast í átökum síðustu sólarhringa,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Eldri sprungur hafa sumar víkkað og aðrar sprungur sem hafði verið gert við opnast.
Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að tryggja heitt vatn aftur til Grindavíkur. Vonir eru bundnar við að ný vatnslögn til bæjarins, í eigu HS Veitna og HS Orku, muni virka.
Þetta segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi HS Veitna, í samtali við Morgunblaðið.
„Það var búið að leggja nýja heitavatnslögn að Grindavík, verkinu var ekki alveg lokið, og gamla lögnin er sú sem hefur orðið fyrir töluverðum skemmdum. Nú er sem sagt verið að kanna hvort það sé hægt að koma heitu vatni í gegnum nýju lögnina,“ segir Sigrún.
Hvort hægt verður að koma heitu vatni til bæjarins eða ekki fer eftir því hvort nýja lögnin virkar. Ekki er hægt að segja til um hvenær heita vatnið verður komið á fyrr en búið er að kanna virkni nýju lagnarinnar.
Óttast mikið tjón
Spáð er frosti næstu daga og því gæti fylgt mikið tjón í húsum ef frýs í lögnum. Sigrún segir að HS Veitur geri sitt besta til að meta lagnirnar í Grindavík.
„Það skýrist mjög margt þegar við vitum hvort þessi nýja lögn komi til með að skila vatni eða ekki, því þá getum við unnið með það – upp á að tengja það við dreifikerfið og meta leka í dreifikerfinu í Grindavík og svo framvegis,“ segir Sigrún.
Bæjarbúar óttast margir hverjir að frost næstu daga eigi eftir að valda gífurlegu tjóni í húsum þeirra. Grindvíkingurinn Grétar Jónsson segir í samtali við Morgunblaðið að hann vilji vera bjartsýnn, en að hann sjái ekki annað en að framhaldið sé vonlaust með heita vatnið farið af bænum og skemmdir og eyðileggingu húsa fram undan í frosthörkunni.
Rafmagn kom aftur á í vesturhluta Grindavíkur í gær eftir að hafa verið úti í rúmlega sólarhring.
Rafmagn fór af í Grindavík á sunnudag og gerðist það fyrst í austurhluta bæjarins snemma um morguninn. Um klukkan 8 á sunnudag fór rafmagnið af í vesturhlutanum eftir að bilun kom upp í dreifikerfi HS Veitna. Sigrún segir að verið sé að meta skemmdirnar á dreifikerfinu.
Hún segir að nú verði metið hvort hægt sé að gera við þessa bilun í samspili við almannavarnir í ljósi þess að það sé enn hættuástand í bænum.
Eldvirkni í Grindavík
Hætta á gosi
í bænum
Ekki þykir ólíklegt að gjósa muni í Grindavíkurbæ, verði annað kvikuhlaup úr Svartsengi. Stóra sigdalssprungan, sem varð sýnileg 10. nóvember og liggur í gegnum Grindavík, virðist tengjast gossprungunni við Sundhnúkagígaröðina sem myndaðist í eldgosinu þann 18. desember. Þetta segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands og rannsóknarprófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, í Dagmálum þar sem eldgosið við Grindavík er til umræðu.