Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir
Þegar íbúar kvarta yfir því að vera neyddir til að borga fyrir þjónustu sem er ekki veitt og þeir sjálfir látnir sinna fá þeir aftur skammir.

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir

Undanfarin misseri hafa afleiðingar óstjórnarinnar í ráðhúsinu hellst yfir íbúa. Gjöld hækka og hækka á sama tíma og þjónustan sem íbúar eru að greiða fyrir ýmist stendur í stað eða hreinlega minnkar. Að stytta þjónustutíma sundlauga með einum eða öðrum hætti er orðið árlegt nauðráð hjá meirihlutanum í borgarstjórn á sama tíma og sundferðin heldur áfram að vera dýrust í Reykjavík. En fólk á reyndar að vera þakklátt fyrir að komast í sund yfirleitt.

Eina ferðina enn var rusl ekki hirt hjá íbúum og í borgarlandinu svo vikum skipti. Núna var það vegna bilana í bílum, síðast vegna innleiðingar á nýju flokkunarkerfi og þar á undan var ófyrirséð orlofstaka starfsmanna ástæðan. Alltaf eru samhliða þessum afsökunum helstu viðbrögð Sorpu að skamma íbúa og kenna þeim um með ýmsum hætti. Loksins þegar starfsmenn Sorpu mættu til að hirða ruslið fengu þeir íbúar sem ekki leystu sorphirðuvandann sjálfir skammarmiða um að yfirfullar tunnur yrðu ekki tæmdar, svo mest er skilið eftir. Íbúum er þannig refsað fyrir hirðuleysi Sorpu með áframhaldandi hirðuleysi af hendi Sorpu. Þegar íbúar kvarta yfir því að vera neyddir til að borga fyrir þjónustu sem er ekki veitt og þeir sjálfir látnir sinna fá þeir aftur skammir fyrir að sætta sig ekki við þetta. Íbúar eiga líka að sætta sig við að nú sé önnur eða þriðja hækkunin á sorphirðugjöldum á leiðinni og gjöra svo vel að sækja pokana sem þeim er gert að nota undir lífrænt rusl sjálfir á endurvinnslustöð í stað þess að grípa þá með sér úr næstu matvöruverslun. Að sögn Sorpu geta íbúar bara sjálfum sér um kennt, því einhverjir tóku ársbirgðir af pappírspokum. Nú eru enn fjölmargir sem flokka ýmist lítið eða ekkert lífrænt rusl og taka sér því enga pappapoka, sömuleiðis eru margar íbúðir í útleigu til ferðamanna sem eru ekki að grípa sér pappírspoka. En hvernig væri að þakka meirihlutanum fyrir metnað sinn í að flokka sorp?

Fólk vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar loks sást tímanlega til snjómokstursbíla fyrir jól, þótt margar götur hafi gleymst þrátt fyrir splunkunýja vetraráætlun. Snjóþyngslin voru mun minni en áður og klakinn því fljótur að fara þegar hlýnaði aftur sem leiddi í ljós götur og gangstéttir þaktar sandi auk flugeldarusls og heimilisúrgangs sem fauk úr yfirfullum tunnum. Nú sást jafnvel einn og einn bíll sópa eina og eina gangstétt, þá sömu og einn og einn bíll sást moka og sanda einu sinni um hátíðarnar. Reyndar voru gangstígar sjaldnast mokaðir eða sandaðir báðum megin við götu þegar þeim var þá sinnt, bara öðrum megin. Í ljósi þess að borgin rakar inn hundruðum milljóna aukalega með árlegri stækkun gjaldsvæða og tugprósenta hækkun bílastæðagjalda ættu íbúar að fá langtum betri þjónustu á götum og gangstéttum hvort sem er í viðhaldi, mokstri eða þrifum, enda eru bílastæðagjöld ekki lengur eyrnamerkt viðhaldi eða gerð bílastæða heldur renna þau beint til umhverfis- og skipulagssviðs. En þegar íbúar voru fúlir yfir því að greiða meira fyrir ekkert var svarið frá borginni og meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og nú Framsóknar að íbúar ættu að byrja á því að skammast sín fyrir að þurfa bíl, og þess vegna væri réttlætanlegt að rukka fólk tvívegis, fyrst með útsvarinu og svo með bílastæðagjöldum, fyrir þá ósvífni að þurfa pláss í borgarlandinu. Íbúar mega þakka fyrir að fá að eiga bíl og eiga ekki að vera með einhverja tilætlunarsemi.

Síðast en ekki síst eiga þeir á annað þúsund foreldrar sem fá hvorki leikskólapláss né pláss hjá dagforeldri að skammast sín fyrir að vera ekki þakklátari borgarstjórnarmeirihlutanum. Núna, mörgum mánuðum eftir að meirihlutinn samþykkti tillöguna og stærði sig af henni, á loks að byrja að niðurgreiða vistunargjöld barna sem eru föst hjá dagforeldrum en ættu að vera hálfnuð með leikskólagöngu sína, svo gjöldin séu til jafns við leikskólagjöld. Aftur á móti dettur meirihlutanum ekki í hug að fara að bæta foreldrum þeirra barna sem fá enga vistun upp tekjumissinn. Ef borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og nú Framsóknar ætlaði raunverulega að veita öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss hefðu þau áætlað fjármagn í verkefnið og getað stutt við alla foreldra, líka þeirra barna sem fá enga vistun. Greinilega stóð aldrei til að efna loforð um leikskólapláss frá 18 mánaða aldri en sem fyrr eiga íbúar bara að þegja, skammast sín, borga sífellt hærra útsvar og gjöld og vera þakklátir.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir