Óhjákvæmilegt var orðið að grípa til aðgerða gegn ofbeldi Húta á alþjóðlegri siglingarleið

Bandaríkin og Bretland, í samstarfi við nokkur önnur ríki, gerðu árásir á hernaðarlega mikilvæg skotmörk á yfirráðasvæði Húta í Jemen fyrir helgi. Sú aðgerð var ekki aðeins réttlætanleg heldur löngu tímabær.

Hútar, sem ráða yfir stórum hluta Jemen og hafa með stríðsrekstri sínum þar stuðlað að miklum hörmungum í landinu, eru líkt og Hamas, Hesbollah og fleiri hryðjuverkasamtök á framfæri klerkastjórnarinnar í Íran. Þaðan hafa Hútar fengið vopn og annan stuðning, þar á meðal þær sprengjur sem þeir hafa notað undanfarnar vikur til að ráðast á flutningaskip á Rauðahafi.

Þessar árásir hafa valdið miklu tjóni og hafa meðal annars keyrt upp kostnað við skipaflutninga, fyrir utan hættuna sem sjófarendum stafar af slíkum árásum.

Hútar hafa ítrekað verið varaðir við því að þessum árásum yrði að linna, ella yrði að grípa til aðgerða gegn þeim. Þeir hafa í engu sinnt slíkum aðvörunum og þá voru hernaðaraðgerðir það eina sem eftir var.

Rót vandans er þó ekki Hútar, heldur klerkastjórnin í Íran sem ber ábyrgð á svo að segja öllum ófriði í Miðausturlöndum um margra ára skeið. Þau stjórnvöld voru verðlaunuð fyrir ódæðisverkin með milljarða dala greiðslu frá bandarískum stjórnvöldum og mátti fljótt sjá eftir að sú greiðsla var innt af hendi hvernig klerkarnir forhertust.

Miklu skiptir að lærdómurinn sem dreginn verður af ofbeldisverkum skjólstæðinga Írana verði ekki aðeins sá að stundum þurfi að bregðast við árásum skjólstæðinganna. Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt fyrir þau ríki sem vilja frið og öryggi í heiminum að beita Írana mun meira aðhaldi og þrengja að þeim á allan máta þar til þeir hætta stuðningi við hryðjuverkahópa.