Inga Björk Sigurðardóttir fæddist í Teigakoti í Skagafirði 21. júlí 1944. Hún lést á HSN Sauðárkróki 15. desember sl.

Foreldrar hennar voru Sigurður Eiríksson, f. 12.8. 1899, d. 25.1.1974 og Helga Guðrún Sveinbjörnsdóttir, f. 27.9. 1918, d. 4.7. 2005. Hún var yngst 3ja systkina, elstur var Guðmundur Eysteinn, f. 19.12. 1937 og Þórdís Jóna, f. 21.9 1941. Þau eru bæði látin.

Björk giftist 31.1. 1965 Guðsteini Vigni Guðjónssyni, f. 5.5. 1940, d. 17.3. 2017. Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, f. 27.1. 1902, d. 30.7. 1972 og Valborg Hjálmarsdóttir, f. 1.5. 1907, d. 27.9. 1997. Börn:

a) Valborg Inga, f. 29.9. 1964, maki Ólafur Kr. Jóhannsson, f. 8.6. 1964. Börn: 1) Brynjar Páll, f. 14.3. 1994, sambýliskona Linda Íris Emilsdóttir, f.30.12. 1993. Barn þeirra Bergur, f. 8.4. 2021. 2) Jóhann Steinn, f. 20.8. 2003.

b) Heiðrún Edda, f. 11.12. 1968, maki Haraldur Birgisson, f. 10.8. 1964. Börn: 1) Birgir Þór, f. 19.4. 1991, sambýliskona Harpa Birgisdóttir, f.17.3. 1993. Börn þeirra: Ágúst Ingi, f. 14.3. 2020 og Bjarki Fannar, f. 29.7. 2022. 2) Bjarki Már, f. 6.6. 1995, sambýliskona Sigríður Vaka Víkingsdóttir, f. 9.2. 1999.

c) Guðrún Brynja, f. 8.12. 1971, maki Gylfi Ingimarsson, f. 14.3. 1970. Börn: 1) Hafþór Smári, f. 18.10. 1993, maki Hólmfríður Lilja Böðvarsdóttir, f. 9.8. 1993. Barn þeirra: Steinþór Sölvi, f. 25 10. 2019. 2) Hugrún Ása, f. 6.7. 1999, sambýlismaður Jón Áki Friðþjófsson, f. 28.8. 1998. Börn þeirra: Ernir Áki, f. 14.10. 2022 og stúlka, f. 31.12. 2023.

d) Ásdís Anna, f. 12.3. 1977, maki Magnús Kristjánsson, f. 9.3. 1974. Börn: 1) Sunna, f. 25.4. 2000. 2) Óskar Logi, f. 29.9. 2015.

Útförin fór fram 29. desember sl. í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku amma Björk.

Það verður tómlegt að hafa þig ekki með okkur á nýju ári. Við sem heyrðumst svo gjarnan í síma og fórum yfir búskapinn.

Nú minnist ég þess þegar ég var í Laugardal hjá ykkur afa. Á morgnana vaknaði ég við kaffikönnuhljóðið og þegar fram var komið sagðir þú ávallt „góðan daginn Biggi minn“, svo varstu alltaf í viðbragðsstöðu ef eitthvað vantaði við eldhúsborðið þegar afi sýndi lágmarkstilburði til að sækja glas eða annað sem ef til vill vantaði á borðið. Iðulega á kvöldin, áður en ég fór í háttinn, settist ég á bríkina á rúminu ykkar og við spjölluðum um heima og geima, oft hlóstu mikið og þá helst þegar afi var að gantast í mér.

Oft minnist ég þess þegar við fórum í reykhúsið seint á kvöldin. Þá með vasaljós og græna snjóþotu til að draga kjötið heim. Ef það var tunglskin og glampaði á snjóinn söngstu oft svo glaðlega lagið í Mánana ljósi og hlóst á eftir.

Ég man alltaf þegar þú kenndir mér að keyra gamla Land Crusier. Hafði reynt við ökunám hjá afa sem hafði takmarkaða þolinmæði og skildi ekkert í 13 ára dreng að ná ekki betri tökum á jeppanum úr því hann gat keyrt dráttarvél. Svo fórum við á rúntinn, settum í lága drifið og þú lánaðir mér púðann undir afturendann sem þú keyrðir ávallt með og svo brunuðum við eftir túninu og höfðum gaman af og allt kom þetta með blíðum ráðum og tilsögn frá þér. Og ég man hvað við hlógum þegar ég gat ekki sett sætið framar og allt stóð fast, en þegar betur var að gáð hafði afi, eða pápi þinn eins þú sagðir svo oft, stungið Ballantine’s-fleyg undir sætið. Ég rétti þér fleyginn og sætið varð laust og þú gantaðist með það að nú gætum við komið kát heim í hlað.

Þér féll sjaldan verk úr hendi og alltaf varstu að. Held að það hefðu ekki allir farið í fötin þín, en það var enginn barlómur í þér. Komst alltaf út í öll verk en samt var alltaf tilbúið kaffi eða matur þegar allir komu inn. Heitur matur í hádegi og að kvöldi og mikið áhyggjuefni að maður fengi ekki nóg að borða.

Síðast þegar að við hittumst varstu svo glöð að einhver væri kominn til að klæmast við þig. Það minnti mig á þegar við störfuðum saman í Laugarmýri og í hádegismatnum var ég látinn lesa klúru brandarana í Séð og heyrt fyrir þig, Rut í Tunguhlíð, Jónínu í Laugarmýri, og Siggu gömlu. Þá var oft hlegið og mikið gaman.

Minningarnar eru óteljandi og mun ég ylja mér við þær. Ég mun ávallt hugsa af hlýhug til þín, elsku amma, og um allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Mér mun þó alltaf þykja vænst um það þegar við áttum viðskipti og að þeim loknum féllumst við í faðma og felldum tár, en það sá ég þig ekki gera nema í þetta eina skipti.

Birgir Þór Haraldsson.