Guðný Sigríður Finnsdóttir fæddist í Skrapatungu í Laxárdal, A-Hún. 3. apríl 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sæborg Skagaströnd 10. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Finnur Guðmundsson, f. 1891, d. 1971, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1889, d. 1970, bændur í Skrapatungu en þau fluttu síðar til Blönduóss þar sem þau bjuggu til dauðadags.

Guðný, sem oftast var kölluð Gýja, var næstelst af fjórum systkinum sem öll eru látin. Hin voru: Ottó, f. 1920, d. 1998, Kristín, f. 1924, d. 1987, og Elísabet, f. 1929, d. 2023.

Guðný giftist 13. júlí 1948 Kristni Jóhannssyni, f. 13. júní 1922, d. 9. nóvember 2002, skipstjóra og síðar verkalýðsformanni frá Ósi á Skaga. Kristinn var sonur Jóhanns Jósefssonar og Rebekku Guðmundsdóttur. Börn Gýju og Kidda eru: 1) Ingibjörg, f. 1948, maki Jón Gunnarsson. 2) Óskar, f. 1951. 3) Finnur, f. 1953, maki Guðbjörg Ólafsdóttir, dætur þeirra eru a) Guðný Kristín, b) R. Petrea, c) Arnrún Bára. 4) Guðbjörg, f. 1954, maki Þórarinn Grétarsson. Börn þeirra eru a) Hákon Unnar, b) Rebekka Maren.

Barnabarnabörn Gýju eru orðin sjö talsins.

Gýja fæddist í gömlu torfbaðstofunni í Skrapatungu og ólst þar upp þar til hún hleypti heimdraganum. Ung að árum þurfti hún að sjá um heimilið í Skrapatungu með föður sínum er móðir hennar þurfti að dvelja á Vífilsstöðum í nær tvö ár. Eftir það fer hún í vist suður á land og í önnur störf. Árið 1944 fer hún í Kvennaskólann á Blönduósi og útskrifast þaðan í maí 1945 með ágætiseinkunn. Höfðu Gýja og Kiddi byrjað búskap fyrir sunnan en komu norður til Skagastrandar þegar byrjað var á byggingu síldarverksmiðjunnar þar. Á Skagaströnd settust þau að fyrir fullt og allt og bjuggu þar til dánardags.

Gýja hafði sérstaka ánægju af blómum og allri garðrækt. Hún las mikið og kunni ógrynni af vísum og ljóðum. Einnig hafði hún gaman af að grúska í ættfræði. Gýja vann í gegnum tíðina ýmis störf, s.s í frystihúsinu, rækjuvinnslunni og lengst af á saumastofunni Víólu. Gýja var mikil hannyrðakona og ung að árum fór hún að gera útprjónaðar lopapeysur sem þá var nýlunda. Eftir fráfall Kidda hélt Gýja áfram heimili á Hólabraut 7 til 95 ára aldurs, er hún flutti á Hjúkrunarheimilið Sæborg.

Útför Gýju fer fram frá Hólaneskirkju í dag, 19. janúar 2024, klukkan 14.

Mig langar til að minnast í fáum orðum móður minnar, sem lést háöldruð þann 10. janúar. Mamma fæddist í gömlu torfbaðstofunni í Skrapatungu og lifði í heila öld og upplifði allar þær miklu breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi hingað til. Undraðist hún oft yfir öllum þessum framförum og breytingum á aðbúnaði og lífi fólks.

Ég minnist uppvaxtaráranna undir Höfðanum á Skagaströnd, við vorum svokallaðir útbæingar. Talaði mamma oft um hve hún átti góðar vinkonur þar og síðar er við fluttum í innbæinn.

Mamma hafði mikið gaman af allri garðvinnu og það litla sem ég veit um slíka hluti lærði ég af henni. Mamma var mikil hannyrðakona og hafði gaman af alls konar föndri. Alltaf studdi hún mig í alls konar smíði og föndri sem ég tók mér fyrir hendur nema þegar ég tók til við að smíða pramma eða litla báta og fór með þá niður í fjöru og sjósetti. Þá varð mamma reið.

Hún las dönsku auðveldlega og þýddi ekkert fyrir mig að fara ólesinn í dönsku í skólann. Hún passaði vel upp á að maður lærði skólaljóðin. Um fermingaraldur minn flutti fjölskyldan í innbæinn. Á unglingsárunum þar var oft glatt á hjalla á Hólabrautinni og tónlist mikið spiluð. Eitt sinn er búið var að spila þungarokk af krafti og hljóð varð á milli laga þá heyrðist mamma segja: „Þá vil ég nú heldur Úría minn Hepp.“

Þegar ég ákvað að fara í iðnskóla og læra járniðn var mamma ekki ánægð því hún vildi að ég yrði trésmiður og sagði að í okkar ætt væru svo margir trésmiðir og ég yrði að viðhalda því.

Alltaf verð ég þakklátur mömmu hve vel hún tók Guðbjörgu minni þegar við tókum saman og þegar við byrjuðum að byggja húsið okkar studdu hún og pabbi okkur vel. Hún var ætíð boðin og búin að gæta dætra okkar. Alla þeirra skólagöngu gátu þær hlaupið í morgunkaffi til ömmu og afa. Sérstakt samband var milli hennar og Gýju dóttur okkar. Mamma vann úti ýmsa vinnu meðan hún gat og var góður vinnukraftur. Eitt sinn heyrði ég á tal milli verkstjóra og mömmu þar sem verkstjórinn sagði þetta: „Þú ert sómi á vinnustað Gýja mín.“

Mér eru minnisstæðir allir sunnudagsmorgnarnir þar sem vinir pabba og mömmu komu í kaffi og heimsmálin voru rædd og krufin til mergjar.

Mamma naut þess að ferðast og fóru pabbi og hún í nokkrar utanlandsferðir. Eina ferð fóru þau með okkur til Norðurlandanna. Siglt var með Norrænu.

Ekki vissi ég til að hún legði illt orð til nokkurs manns meðan hún lifði. Síðustu ár fór heilsu mömmu að hraka mjög enda aldurinn orðinn hár. Sjónin var orðin léleg. Þó svo að ég hafi ekki verið sá duglegasti við heimsóknir til hennar á síðari árum þá tók mamma mér alltaf vel og spurði margs. Þremur dögum áður en mamma kvaddi þennan heim þá kom ég til hennar og tók um hendurnar á henni. Ljómaði þá andlitið á henni því hún þekkti hver var kominn. Þreifaði hún á höndunum mínum og sagði síðan að líklega væri ég að vinna minna en áður því hún fyndi ekkert sigg.

Mamma elskaði landið, Skagaströnd, fjöllin, flóann og fólkið sitt. Nú er hún komin í Sumarlandið til sinna sem á undan eru gengnir.

Finnur og Guðbjörg.

Guðný Sigríður Finnsdóttir fæddist í torfbæ í Skrapatungu í Laxárdal 1922. Þegar hún var þriggja ára gömul valdi hún að láta kalla sig „Gýju“. Hún minntist oft á Laxárdalinn sinn og sögur hennar báru þess merki að hún hefði átt góða æsku. Það kom snemma í ljós hversu hæfileikarík hún var. Hún lærði að prjóna eftir uppskriftum af sjálfsdáðum og lærði dönsku með því að lesa dönsk blöð. Eftir tvítugt hélt hún suður á vit ævintýra þar sem hún kynntist ástinni sinni Kristni Jóhannssyni sjómanni frá Kálfshamarsvík. Í hennar huga kom aldrei neinn annar til greina. Peningar voru af skornum skammti og saumaði hún föt fjögurra barna sinna sjálf eftir að þau voru háttuð. Hún eldaði bragðgóðan mat þótt henni fyndist hann aldrei nógu góður og talaði um kaffibrauðskvíða. Alltaf var til heimabakað með kaffinu og allt bragðaðist vel í litla sæta eldhúsinu hennar á Hólabraut 7. Á Skagaströnd var hennar fólk og vildi hún hvergi annars staðar búa. Hún lét lítið á sér bera en var vinsæl meðal þeirra sem hana þekktu. Hún hlustaði á aðra með athygli og komu margir reglulega í kaffi.

Gýja hafði áhuga á ættfræði og var mikill lestrarhestur. Daglega eftir hádegismatinn lagði hún sig eftir að hafa litið í bók sem oft datt niður á ennið á meðan kría var tekin. Að eiga kyrrðarstund með sjálfri sér í amstri dagsins átti meðal annars þátt í langlífi hennar.

Gýja elskaði blóm og yndislega landið okkar Ísland. Hún gróðursetti tré og eyddi miklum tíma í garðinum sínum sem var einstaklega fallegur. Hún vildi gefa öðrum afleggjara svo aðrir gætu eignast fallega blómlega garða.

Gýja varð amma í fyrsta sinn 52 ára gömul þegar ég fæddist. Var ég skírð í höfuðið á bæði ömmu og afa og kölluð Gýja. Dvaldi ég öllum stundum sem ég gat hjá þeim. Þar var gott að vera og var ég umvafin skilyrðislausri ást og kærleika og studd í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Við amma tengdumst afar sterkum böndum og oft þegar ég átti að fara heim sneri ég við í hliðinu og hljóp aftur inn og sagði: „Amma, ég tími ekki að fara frá þér.“ Eftir að ég varð eldri var nóg að hugsa til hennar og þá hringdi hún. Hún sagði iðulega þegar ég hringdi: „Ég var einmitt að hugsa til þín Gýja mín.“ Það var nóg að segja „hæ“ og þá vissi hún hvernig mér leið. Þegar hún var spurð hvernig hún hefði það svaraði hún að það væri ekkert að henni. Hún kvartaði aldrei og var heilsuhraust fram á síðasta dag. Eftir að ég flutti frá Skagaströnd töluðum við daglega saman ef við gátum þar til hún fór á Dvalarheimilið Sæborg 95 ára gömul.

Það hefur verið mín gæfa í lífinu að eiga einstaka ömmu og fá að hafa hana svona lengi. Söknuðurinn er mikill en þakklæti, kærleikur og minning um vandaða konu lifir. Hún hafði það að leiðarljósi að vera trú og trygg í öllum verkum í gegnum farsælt ævistarf. Það er mín ósk að ég nái að verða jafn góð amma þegar þar að kemur og hún amma.

Ég elska þig amma mín og mun bera nafn þitt með stolti. Þú verður ávallt í hjarta mínu. Ég veit að þú ert umvafin kærleika og ljósi á góðum stað.

Guðný Kristín Finnsdóttir.

Amma var konan sem alltaf var hægt að fara til sama hvað bjátaði á. Hún gaf þau ráð að ég ætti að koma vel fram við alla óháð því hvernig aðrir kæmu fram við mig. Hef reynt mitt besta að fylgja þessum orðum hennar.

Við áttum saman margar góðar stundir. Spiluðum á spil m.a. ólsen-ólsen, fant, veiðimann, hjónasæng og lönguvitleysu, svo eitthvað sé nefnt.

Hún var góð að nenna þessu með mér, því hún hafði ekkert svakalega gaman af því að spila, en gerði það fyrir mig.

Hún tók blöð og braut saman hatt úr þeim, lítil veski, kassa til að geyma eitthvað létt ofan í eða klippti út litlar konur og kalla sem héldust í hendur. Svo eftir því sem ég varð eldri bætti hún við bakstri, eldamennsku og kenndi mér grunn í handavinnu sem ég er mjög þakklát fyrir í dag að kunna.

Amma átti það til að klæða mig í svuntu og setti slæðu á höfuðið á mér og sagði núna ertu eins og lítil sveitakona og brosti.

Mér fannst svo gott að vera í kringum hana, hún var róleg, hlédræg og stundum með sterkar skoðanir, t.d. á klæðnaði fólks. Hún var fljót að segja við mig: Rebekka mín, er þetta nú ekki einum of flegin flík, ætlarðu að fara svona klædd út? Enn þann dag í dag á ég erfitt með að klæðast flegnum flíkum og hlæ innst inni að því hvað þessi orð höfðu mikil áhrif á mig. Að kona sem ólst upp í torfkofa væri að ráðleggja stelpuskotti eins og mér hvernig ætti að klæða sig um aldamótin 2000.

Stundum þurfti hún ekki að segja neitt. Það var nóg að ég mætti koma í heimsókn, leggjast upp í sófa heima hjá henni og horfa á sjónvarpið. Bara að vita af henni í húsinu hennar lét mér líða vel og öruggri.

Amma elskaði blóm og var með fínt blómabeð heima hjá sér og kartöflugarð.

Þetta stytti henni stundir að geta farið út og dundað sér í garðinum í góða veðrinu.

Þegar ég var yngri var hún að gefa litlum villiketti sem hún nefndi Gul. Gulur var orðinn hændur að henni og kom alltaf inn í forstofu til að fá mjólkina sína. Enginn vissi hvort einhver hefði átt þennan kisa, þannig að hún tók það að sér að gefa honum að éta og drekka þegar hann leit inn hjá henni. Okkur fannst þetta gaman og vorum farnar að mega klappa honum en svo kom að lokum og Gulur sást ekki meir. Við sögðum bara að hann hefði sennilega verið orðinn gamall og kominn á vit nýrra ævintýra.

Svona var amma, hvort sem það var við þennan ókunnuga kisa sem fann hana eða við vini mína sem komu með mér að spila og borða hjá henni.

Hún tók á móti fólki óháð því hvernig henni leið innst inni og lét lítið á því bera.

Sönn húsmóðir var hún og átti alltaf til bakkelsi á borði og varð ómöguleg ef það var lítið til þegar einhver kom í heimsókn án þess að láta vita af því fyrir fram. Þá var maður beðinn um að skjótast fyrir hana í búðina og fá jafnvel íspinna í staðinn.

Amma var mjög góð vinkona mín og er ég þakklát fyrir hvað ég fékk að eiga hana lengi að.

Elsku Gýja amma, takk fyrir allar stundirnar okkar saman. Minning þín mun ávallt lifa í hjarta mínu um ókomin ár.

Takk fyrir að vera þú.

Þín verður sárt saknað.

Kveðja, þín

Rebekka Maren Þórarinsdóttir.

Þá hefur elskuleg vinkona mín og mannkostakonan Guðný Finnsdóttir kvatt þessa veröld. Það vantaði einungis þrjá mánuði upp á að hún yrði 102 ára. Það er margs að minnast þar sem slík kona á í hlut. Alltaf kom hún fram til góðs í öllum málum og hin ljúfa og rólynda framkoma var aðalsmerki hennar.

Kynni okkar hófust þegar þær æskuvinkonurnar, Gígja og María Magnúsdóttir, komu í félagsstarf aldraða sem ég hafði umsjón með. Þær sögðu að þær hefði lengi langað til að koma í hópinn en ekki haft kjark til að koma inn í fyrsta sinn. En þegar það skref var stigið var bara mikið um gleði og glens og ýtti Bjartur í Vík endalaust undir glettnina með snilldarskemmtisögum frá gamalli tíð og allir veltust um af hlátri.

Gígja var alltaf áhugasöm um nýjungar í handavinnu og afskaplega vandvirk í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Garðurinn var hennar líf og yndi, þar sem hún naut þess að sýsla við plönturnar og blómin sín meðan hún gat enn dvalið heima. Hún var ein af þessum manneskjum sem auðga lífið í kringum sig bara með því að vera til. Það var aldrei neinn fyrirgangur í kringum hana, aðeins þessi hljóðláta og sálarlega rósemi. Hún gaf af sér í lífi og starfi alla tíð, það var henni eðlisleg blessun að fylgja og allir fundu það og löðuðust að henni og fundu í henni góða nærveru og vinkonu.

En nú er kveðjustundin komin og Gígja hefur lokið sinni löngu ævi. Vil ég færa henni hjartans þakkir fyrir góð kynni og vináttu alla tíð. Bestu þakkir fyrir alla kaffibollana, allar sögurnar, gleðina og hláturinn gegnum árin.

Nú er hún komin í blómabrekkuna og farin að hlúa að blómunum og hlaupa um grundir með unga fólkinu úr Laxárdalnum.

Blessuð sé minning þín elsku vinkona.

Guðrún Þ.

Guðmundsdóttir.