Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Fátt er um gatnaframkvæmdir sem auðvelda greiðari umferð enda hefur meirihlutinn í borgarstjórn lítið aðhafst í umferðarmálum Reykjavíkur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Sundabraut yfir Kleppsvík frá Holtagörðum hefur verið sýnd á aðalskipulagi Reykjavíkur frá árinu 1984 eða í 40 ár. Sundabraut er tenging fyrir norðurhluta Reykjavíkur að Kjalarnesi. Jafnframt myndar hún ásamt Sæbraut og Reykjanesbraut meginstofnveg höfuðborgarsvæðisins frá norðri til suðurs. Ótalmargar skýrslur hafa verið gerðar vegna þessarar fyrirhuguðu framkvæmdar sem enn ekki bólar á. Mikilvægi Sundabrautar er augljóst. Ekki síst myndi Sundabraut draga verulega úr umferð um Ártúnsbrekku og stytta talsvert akstursleiðir þar sem afar þung umferð er í dag. Einnig mun hún leiða til þess að umferðarálag á Miklubraut verður minna en ella.

Seinagangur og aðgerðaleysi

Það er í raun ótrúlegt hve seinagangurinn og aðgerðaleysið hafa einkennt þessa fyrirhuguðu framkvæmd, jafn mikilvæg og hún er. Ríkisstjórnin hefur nú gefið grænt ljós á að hafinn verði undirbúningur að gerð 1. áfanga Sundabrautar sem er yfir Kleppsvík frá Sæbraut að Gufunesi. Vonandi verður því fylgt eftir. Annar áfangi var síðan frá Gufunesi og allt að Kjalarnesi en á þeirri leið þarf að þvera Eiðsvík. Allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi þessa framkvæmd liggja fyrir og hafa gert í áratugi. Það verður áhugavert að fylgjast vel með því hver framvinda þessa máls verður.

Því er skorað á borgarstjórn, ríkisstjórn og vegamálayfirvöld að þessari yfirlýsingu verði fylgt fast eftir en verði ekki einungis enn ein yfirlýsingin um gerð Sundabrautar, sem síðan lítið er gert með. Nóg er komið af skýrslum um þetta mikilvæga verkefni sem fjallað hefur verið um í áratugi en ekkert aðhafst hvað framkvæmdir varðar. Það þarf ekki fleiri skýrslur. Framkvæmdaáætlun fyrir Sundabraut ætti að verða hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eftir þá endurskoðun sem nú stendur yfir. Á fundi borgarstjórnar hinn 17. okt. sl. var fjallað um Sundabraut. Þar kom m.a. fram hjá borgarfulltrúum meirihlutans að stigin hefðu verið nokkur markviss skref við undirbúning Sundabrautar í samvinnu við Vegagerðina og nú stæði yfir kynningarferli umhverfisáætlunar og verklýsing aðalskipulags. Vonandi er það ekki enn ein innantóm yfirlýsingin um framkvæmdir við Sundabraut.

Engar stórar samgöngubætur síðustu árin

Almennt má segja að samgöngur í borginni hafi þyngst verulega síðustu árin. Fátt er um gatnaframkvæmdir sem auðvelda greiðari umferð enda hefur meirihlutinn í borgarstjórn lítið aðhafst í umferðarmálum Reykjavíkur. Engar stórar samgöngubætur hafa átt sér stað í borginni undanfarinn áratug. Það er mikilvægt að horfa til framtíðar varðandi uppbyggingu innviða, svo sem gatnakerfis. Þetta hafa núverandi borgaryfirvöld kært sig kollótt um, frekar torveldað umferð með margvíslegum hætti. Það er ljóst að með íbúafjölgun höfuðborgarsvæðis og þéttingu byggðar þarf gott og skilvirkt samgöngukerfi. Borgarbúar hafa enn fengið eitthvað allt annað.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson