Þorgerður Sveinsdóttir fæddist 4. maí 1930 í Arnardal við Skutulsfjörð í Ísafjarðarsýslu. Hún lést 6. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Sveinn Sigurður Sigurðsson bakarameistari á Flateyri og síðar útvegsbóndi í Arnardal við Skutulsfjörð og Hólmfríður Sigríður Kristjánsdóttir húsmóðir. Alsystkini Þorgerðar eru María Júlíana, Sigurður, Kristján Bjarni, Halldóra, Anna Guðrún, Ólafía Steinunn og Unnur Kolbrún, sem er sú eina sem er eftirlifandi úr þeim hópi. Hálfsystkini Þorgerðar eru Jón Guðmundur, Össur, Sigurður, Viktoría Júlía og Pálmi. Þau eru öll látin.

Þorgerður giftist Knúti Arnberg Bjarnasyni múrarameistara, f. 9. júní 1932, d. 6. júní 2006. Foreldrar hans voru Jóhanna Hallsdóttir og Bjarni Jónsson.

Börn Þorgerðar og Knúts eru: 1) Jóhann Bjarni, f. 1953. Kvæntur Unni Hafdísi Arnardóttur. Börn þeirra eru Sigurlína, Knútur Örn og Sonja. 2) Sigríður, f. 1956. Hún var gift Jóni Snorra Snorrasyni. Börn þeirra eru Tryggvi, Hildur og Snorri. Snorri er látinn. 3) Gunnhildur, f. 1958. Hún er gift Ragnari Hjörleifssyni. Börn þeirra eru Hjörleifur, Þorgeir og Ragnhildur. 4) Sveinn Arnar, f. 1959. Hann er kvæntur Elínu Sigurbjörnsdóttur. Börn þeirra eru Þorgerður og Ögmundur. 5) Hólmfríður, f. 1964. Hún er gift Guðmundi Ragnarssyni. Dóttir þeirra er Álfheiður Eva. 6) Kristín Björg, f. 1968. Hún á synina Þórhall með Sigurjóni Þórðarsyni og Tryggva Klemens með Tryggva Agnarssyni. Langömmubörnin eru 16 og eitt langalangömmubarn. Þorgerður eignaðist dóttur í júní árið 1949 sem lést stuttu eftir fæðingu.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma, í mínum huga varst þú ávallt glöð, vongóð, bjartsýn kona, þannig kvaddir þú hinsta sinni æðrulaus og tilbúin að mæta skaparanum í ársbyrjun.

Eins og vorblær vonin hlý

vefji þig örmum sínum,

svo þú megir sjá í því

sól á vegum þínum.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Mamma var skírð Þorgerður Sveinsdóttir en var almennt kölluð Gerða af fjölskyldu, vinum og samferðafólki sínu. Mamma sagði ávallt með stolti að hún væri ættuð að vestan, frá Heimabæ í Arnardal við Ísafjarðardjúp, þar ólst hún upp hjá foreldrum sínum í stórum systkinahópi.

Eftir að hafa lokið skólagöngu við gagnfræðaskólann og húsmæðraskólann á Ísafirði flutti mamma til Akraness, þar sem hún kynntist og giftist pabba. Saman byggðu mamma og pabbi í tvígang eigið húsnæði, hið fyrra að Stillholti 3 á Akranesi þar sem þau bjuggu ásamt börnum sínum, og seinna húsið byggðu þau að Jörundarholti 206 sem hentaði betur breyttum aðstæðum þeirra.

Það sem öðru fremur einkenndi foreldra mína er að þau voru bæði sjálfsörugg og sjálfstæðir einstaklingar sem virtu hvort annað sem jafningja og skiptu þannig með sér verkum að hæfileikar hvors um sig fengju notið sín.

Áhugamál mömmu voru ferðalög um hálendi Íslands og ljósmyndun, hún fór ófáar ferðir með ferðahópum og fjölskyldunni vítt og breitt um sveitir landsins okkar sem þúsundir ljósmynda hennar eru vitni um.

Mamma bjó yfir sjálfstrausti, þolinmæði og þrautseigju. Sjálfstraust mömmu birtist í hvernig hún virti og stóð með sjálfri sér og hafði góða stjórn á erfiðum aðstæðum sem upp komu í fjölskyldunni. Að ala upp og hafa stjórn á börnum og unglingum krefst mikillar þolinmæði og reynir á uppalandann, til viðbótar við að koma upp eigin húsnæði og sinna almennu heimilishaldi. Að sýna og viðhafa þrautseigju sem í fellst hvernig ávallt ætti að takast á við mótlæti og áföll með yfirveguðum hætti.

Mamma hafði lífssýn sem gengnar kynslóðir þekktu þar sem menn eru hvattir til að nýta eigið brjóstvit, því reynsla kynslóðanna segir okkur að ráð annarra manna reynast oftar en ekki verr en þau ráð sem við getum sótt í okkar eigið hjarta.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er getur sér góðan.

(Úr Hávamálum)

Farðu í friði, elsku mamma mín.

Þinn sonur,

Sveinn Arnar.

Á þrettándanum kveðja álfar, jólasveinar, tröll og vættir okkur mannfólkið eftir hátíð ljóss og friðar og halda aftur heim til sín út í villta náttúruna.

Í þetta sinn fór amma með þeim í táknrænum skilningi og kvaddi þannig sína jarðnesku vist á sama tíma og kyndilför fór fram á skaganum með bálkesti, flugeldum og söngvum

Amma Þorgerður var sannkölluð fjallkona sem tók okkur systkinum alltaf opnum örmum, horfði djúpt í augun og var alltaf svo góð. Djúpvitur, klár, hreinskilin og húmorísk. Við eigum auðvelt með að muna dillandi hláturinn hennar, samverustundirnar, stundum í líflegum umræðum, allt hægt að ræða og okkar kona lá ekki á skoðunum sínum en við vissum að þótt það væri ekki alltaf auðvelt að heyra sannleikann þá stóð hún keik og bauð þannig upp á heilindi, heiðarleika og visku sem þroskar og kennir virðingu fyrir almættinu, náttúrunni og lögmálum lífsins.

Heim til hennar og afa Knúts var alltaf hlýtt að koma og öruggt að vera, þið voruð okkur svo yndisleg og róleg, alltaf til í að hlusta og hafa það huggulegt.

Svo langt aftur sem við munum þá fóru amma og afi með okkur í náttúruferðir, að sjó, út í móa og upp á fjöll, alltaf ævintýri í einfaldleika, með nesti og heitt á brúsa. Við lærðum af þeim að dvelja í ró, hlusta á þögnina, fuglana, sjá tröllin í fjöllunum, helg vé vættanna, sérstaka steina og að finna dýrð Guðs umvefja, hvernig lífið er heilagt og allt er tengt.

Amma ól upp í okkur ríkidæmi tungumálsins, las ljóð og kynnti okkur fyrir mögnuðum skáldum, sögum og söngvum, slíkt er ómetanlegur fjársjóður sem dafnar og vex, við sjáum þig og það sem þú gafst af þér í nýju ljósi og minningarnar glóa.

Takk fyrir stundirnar saman, við erum þér ævinlega þakklát og finnum hvernig þú ert áfram með okkur í hjartanu.

Þó fjúki í fornar slóðir

og fenni í gömul skjól,

geta ekki fönnin og frostið

falið Álfahól.

Yfir hann skeflir aldrei,

þó allt sé af gaddi hvítt,

því eldur brennur þar inni,

sem ísinn getur þítt.

Þar á ég höfði að halla

þó hríðir byrgi sól,

fjúki í fornar slóðir

og fenni í gömul skjól.

(Davíð Stefánsson)

Með djúpri ást og virðingu, þín barnabörn,

Þorgerður og Ögmundur.

Það var einhvern veginn alltaf betra veður á Akranesi en í Reykjavík. Og þegar þú komst til Reykjavíkur fylgdi góða veðrið þér. Þegar þú fórst með okkur í ferðalög vildi það líka alltaf svo skemmtilega til að veðurguðirnir skipuðu sér með okkur í sveit. Það skipti raunar ekki sköpum hvernig viðraði. Hvert sem þú fórst var ljós, gleði, ást og kærleikur. Einfaldlega vegna þess að þú varst til staðar.

Þú sýndir okkur heiminn. Fjöllin urðu að ljóslifandi verum sem brostu kumpánlega við okkur þegar við nálguðumst þau. Fuglarnir fóru með magnþrungin tónlistarverk fyrir okkur ef við bara kærðum okkur um að hlusta. Steinarnir voru fölskvalaust óskasteinar og Skógræktin víðfeðmur töfraheimur. Hvert sem við fórum og hvað sem þú sýndir okkur gæddir þú veröldina töfrum, ljósi og gleði.

Þú bjóst yfir einstakri næmni gagnvart mönnum, náttúru og dýrum. Þú bjóst yfir ást og kærleika sem við vorum svo heppnir að fá að njóta. Lífsgleði þín og fullvissan um að til þín mætti leita hvenær sem væri var gæfa okkar.

Það hryggir okkur að þurfa að kveðja þig núna hinsta sinni, elsku fallega og kæra amma. Að fá ekki að fara upp að Akrafjalli með þér aftur, að fá ekki að sigla á bátunum aftur, að fá ekki að spjalla við þig um heima og geima, að fá ekki að heyra sögurnar þínar, að fá ekki að tala við þig. Fyrst og síðast söknum við þess að hafa þig hjá okkur svo við getum faðmað þig og sagt þér að við elskum þig.

Þótt þú sért farin lýsir ljós þitt svo sterkt að minning þín og arfleifð mun lifa í hjörtum okkar að eilífu. Nú ert þú farin til afa og biðjum við innilega að heilsa! Við skálum í prins og „öli“ en sleppum camelnum! Ætli það sé ekki kominn tími á að við látum reyna á gerð bestu pönnukakna í heimi? „Leynistaðnum“ veitum við aðeins vel völdum einstaklingum aðgang að. Ástarkveðjur, amma!

Guð blessi minningu ömmu okkar, Þorgerðar Sveinsdóttur.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þínir ævinlega,

Þórhallur Sigurjónsson og Tryggvi Klemens
Tryggvason.

Elsku amma Gerða er farin til afa Knúts.

Við systkinin bjuggum að þeim forréttindum að fá að búa við hliðina á þeim nánast alla æsku okkar. Það mátti alltaf koma til ömmu og afa, fá góðan mat, spjall, skoða gamlar myndir og svo margt fleira. Amma átti alltaf hlýjan faðm og falleg orð handa okkur. Fallegu hendurnar hennar bjuggu líka til svo flotta hluti sem var gaman að skoða og leika með. Takk elsku amma fyrir samveruna, fjöruferðirnar, sveitaferðirnar og að vera alltaf tilbúin að leyfa stubbunum að njóta með þér.

Sigurlína (Lína),
Knútur og Sonja.

Elskuleg móðursystir mín Þorgerður Sveinsdóttir hefur kvatt þennan heim. Ég hef heimsótt Gerðu annað slagið í Íslandsferðum síðastliðin ár, síðast á Dvalarheimilið Höfða þar sem hún bjó í „Arnardalnum“. Hún var ein af níu systkinum frá Heimabæ í Arnardal.

Eitt sinn dvaldi ég á Ísafirði í nokkra daga og heimsótti þá elliheimilið. Þar hitti ég Jón stýrimann, skrafhreifinn og skemmtilegan karl, sem sagði að systurnar sjö úr Arnardal hefðu þótt afar föngulegir kvenkostir. Ekki efast ég um það, þær voru hver annarri myndarlegri, athafnasamar og metnaðargjarnar, en það var þeim í blóð borið.

Eitt sinn fórum við Siggi bróðir í heimsókn til Gerðu, en hann hélt mikið upp á Gerðu. Sumum þótti Siggi stundum fyrirferðarmikill, en Gerða sagði: „Maður á bara að vera eins og maður er, Siggi minn.“ Þannig var hátt til lofts hjá Gerðu og Siggi ánægður með þetta svar frá frænku sinni.

Þeim systrum þótti afar vænt um æskuheimilið í Arnardal og ég minnist glaðlegra frásagna um jólahald og hvernig allir lögðu sitt af mörkum.

Eitt sinn kom ég í Arnardal og spjallaði við ábúandann á Heimabæ, Katarínus, og aðspurður hvort hann hefði aldrei eignast konu þá svaraði hann: „Slíkan munað hef ég aldrei getað veitt mér.“ Okkur Gerðu fannst þetta spaugilegt en samt svolítið dapurlegt svar.

Það var gaman að spjalla við Gerðu, en nú er hún farin í síðustu ferðina. Kæru frændsystkini mín og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur.

Ég læt hér fylgja ljóð eftir móður mína:

Signdu mig sól og sendu geisla þína

mín sár að græða og veit mér hugarfró

drottning allsherjar dásamlega bjarta

dýrð sé þér móðir lífs um jarðarból.

Anna Soffía Daníelsdóttir og fjölskylda, Danmörku.

Við systurnar viljum minnast móður okkar með sálmi sem ber þá ósk sem hún vildi sjá rætast hjá afkomendum sínum sem og öllum til handa.

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi

þig Guð í hendi sér.

(Texti: Bjarni Stefán
Konráðsson við írska bæn).

Þakkir fyrir samfylgdina, hlýjuna og styrkinn.

Sigríður, Gunnhildur, Hólmfríður, Kristín Björg.