„Stóra spurningin er hvort þetta skipti fyrirtæki einhverju máli. Það var einnig spurt að því hvort fólk telji annars vegar að fyrirtæki séu almennt samfélagslega ábyrg og hins vegar hvort fólk beini viðskiptum sínum markvisst að fyrirtækjum…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

„Stóra spurningin er hvort þetta skipti fyrirtæki einhverju máli. Það var einnig spurt að því hvort fólk telji annars vegar að fyrirtæki séu almennt samfélagslega ábyrg og hins vegar hvort fólk beini viðskiptum sínum markvisst að fyrirtækjum sem það telur vera samfélagsleg ábyrg fremur en þeim sem það telur ekki vera það. Þar sjáum við að þrír af hverjum fjórum eða á bilinu 75 til 80% á hverju einasta ári segjast gera það,“ segir Halldór Valgeirsson hjá markaðsrannsóknarfyrirtækinu EMC, í samtali við Morgunblaðið um mælingu fyrirtækisins á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja.

Rannsóknin var gerð meðal einstaklinga, sem að sögn Halldórs eiga að endurspegla allt þýði landsmanna. Útbúinn var listi yfir 100 stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins og þátttakendur spurðir um þau. Með samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja er átt við að fyrirtæki eigi að hafa jákvæð áhrif á samfélög og að þau axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau kunna að hafa á einstaklinga, viðskiptavini, samfélag og umhverfi.

Þrjú af hverjum fjórum lækka

Halldór bendir á að frá því að EMC hóf mælingar fyrir sex árum hafa meðaltöl fyrirtækja verið meira og minna að vaxa þangað til 2023.

„Fyrirtækin fá meðaleinkunn á kvarðanum einn til fimm, þannig höfum við fylgst með þessum fyrirtækjum yfir tíma og sjáum að meðaltölin hafa heilt yfir verið að breytast. Í 2023-mælingunni kemur smá slagsíða, heildarmeðaltalið lækkar lítillega og þegar við fórum að telja fyrirtækin saman sem eru að lækka, hversu lítið sem það var, eru þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum sem lækka í síðustu mælingu. Það er ekki gott fyrir fyrirtæki að þau lækki og séu lakasti aðilinn á sínum markaði. Þetta snertir val einstaklinga, hvar þeir vilja eiga viðskipti,“ útskýrir Halldór.

Snýst um að standa sig vel

„Okkar tilfinning út frá þessu er sú að fyrirtæki þurfa fyrst og fremst að standa sig, en það fer svolítið eftir á hvaða markaði það er og hvernig það er gert. Til dæmis að vera með sanngjarna verðlagningu þar sem hugsað er um hag neytenda, ekki bara sinn eigin hag. Með samfélagslegri ábyrgð er einnig horft til þess hvernig fyrirtæki hagi þjónustu og viðmóti við neytendur,“ segir Halldór, spurður nánar um samfélagslega ábyrgð.

Að hans sögn er sama hvernig fyrirtæki gera þetta og fara mörg þeirra mismunandi leiðir að þessu.

„Kerecis er til dæmis búið að gera mikið og gott verk á Vestfjörðum, sem er eitthvað sem vekur athygli. Fólk á landsbyggðinni metur það mikils í þessu samhengi,“ bendir Halldór á.

„Við sjáum að ef fyrirtæki sem fer í hópuppsagnir ekki löngu fyrir mælingu er það miskunnarlaust, hvað varðar skilning fólks á því hvort fyrirtæki sé að hugsa um sinn hag eða hag annarra. Í öllu falli verða fyrirtækin að standa sig og koma skilaboðum á framfæri af heilindum á trúverðugan hátt. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að monta sig of grimmt eða gera mikið úr litlu. Þá er það ekki endilega svo að fólk skynji að fyrirtæki sé samfélagslega ábyrgt. Þetta snýst um að standa sig vel og hafa trúverðugleika í samskiptum út á við þegar upplýsingum er deilt,“ segir Halldór.

Góð uppbygging getur orðið að engu

Sá breytileiki sést í rannsóknum EMC að góð uppbygging fyrirtækja í mörg ár getur orðið að litlu.

„Til dæmis ef umfjöllun verður óhagstæð eða áberandi á neikvæðan hátt um fyrirtækið. Þá er þetta viðkvæmt og partur af ásýnd fyrirtækja og gefur fólki tilefni til að hugsa hvort það vill skipta við fyrirtækið eða ekki,“ segir hann að lokum.

Mælingar EMC

  • Fjármálafyrirtæki og fyrirtæki í orkusölu lækkuðu mikið.
  • Hæsta einkunn fyrirtækis árið 2022 var 4,0 og lægsta var 2,2.
  • Hæsta einkunn fyrirtækis árið 2023 var 3,8 og lægsta var 1,7.
  • Hæsta mælda fyrirtækið árið 2023 var Össur.
  • Matvöruverslanir lækka minnst á milli ára.
  • Tryggingar- og fjármálafyrirtæki eru iðulega lægst.
Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson