Breytingar Vonast er til að umgengni batni með djúpgámunum.
Breytingar Vonast er til að umgengni batni með djúpgámunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fjögur tilboð bárust í verðfyrirspurn Reykjavíkurborgar vegna uppsetningar djúpgáma á grenndarstöð við Klambratún. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 10,8 milljónir króna en lægsta boð var frá Vogakletti slf

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fjögur tilboð bárust í verðfyrirspurn Reykjavíkurborgar vegna uppsetningar djúpgáma á grenndarstöð við Klambratún. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 10,8 milljónir króna en lægsta boð var frá Vogakletti slf. upp á tæpar 8 milljónir, 74% af kostnaðaráætlun. Boð Berg verktaka var upp á 11,7 milljónir, boð Garðasmíði ehf. 12,8 milljónir og Bergþór ehf. bauð 14,2 milljónir.

Djúpgámarnir eiga að koma í stað núverandi endurvinnslugáma og verða Flókagötumegin á bílaplaninu við Kjarvalsstaði, gegnt þeim stað þar sem nú eru endurvinnslugámar. Djúpgámarnir verða sex talsins og eru ætlaðir fyrir endurvinnslu á pappa, málmi og plasti að því er fram kemur í byggingarlýsingu. Fimm þeirra eru fimm rúmmetrar en einn verður þrír rúmmetrar.

„Frítt hellulagt athafnasvæði verður í kringum djúpgáma og settur upp ljósastólpi. Hindrunarlaus hæð fyrir ofan gáma tryggð. Gert er ráð fyrir aðkomu sorpbíls að stöð frá aðliggjandi bílaplani. Djúpgámar ná allt að 2,7 metrum undir yfirborði og stampar yfir yfirborði ná rúman einn metra yfir yfirborði gangstéttar. Lýsing á svæði verður í samræmi við samþykktir Reykjavíkurborgar,“ segir í byggingarlýsingu.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon