Viðræður Deilunni verður mögulega vísað til sáttasemjara. Myndin er af fyrsta samningafundinum á þessu ári.
Viðræður Deilunni verður mögulega vísað til sáttasemjara. Myndin er af fyrsta samningafundinum á þessu ári. — Morgunblaðið/Kristinn
Alvarleg staða er komin upp í kjaraviðræðunum eftir þá gliðnun sem kom í ljós í fyrrakvöld á milli samninganefnda breiðfylkingar ASÍ-félaga og Samtaka atvinnulífsins. Þótt viðræðunum hafi ekki verið slitið er mikil óvissa um framhaldið

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alvarleg staða er komin upp í kjaraviðræðunum eftir þá gliðnun sem kom í ljós í fyrrakvöld á milli samninganefnda breiðfylkingar ASÍ-félaga og Samtaka atvinnulífsins. Þótt viðræðunum hafi ekki verið slitið er mikil óvissa um framhaldið. Forystumenn breiðfylkingarinnar og formenn félaga ætla að funda í dag um stöðuna sem upp er komin og ráða ráðum sínum um framhaldið.

Ekki er útilokað að viðræður komist aftur af stað en af samtölum í gær má ráða að taldar eru líkur á að viðræðunum verði formlega slitið og deilunni vísað til ríkissáttasemjara, sem taki þar með að sér verkstjórn áframhaldandi viðræðna. Aðeins eru tæpar tvær vikur til stefnu þar til samningar á almenna markaðnum renna út og eru taldar hverfandi líkur á að takast muni að ljúka endurnýjun kjarasamninga fyrir mánaðamót.

„Mátti alveg búast við þessu“

„Það mátti alveg búast við þessu. Þetta er að gliðna eingöngu vegna þess að Samtök atvinnulífsins samþykkja ekki þessa leið verkalýðshreyfingarinnar sem er mjög hógvær,“ sagði forystumaður í verkalýðshreyfingunni í gær. Vísar hann þar til tillagna um flatar krónutöluhækkanir, þar sem félögin hafi afsalað sér öðrum hækkunum í kjarasamningum, auk þess sem krafist er viðamikilla stuðningsaðgerða stjórnvalda, sem muni að öllu samanlögðu stuðla að hraðri lækkun verðbólgu og vaxta og sé reist á nákvæmum útreikningum. Viðbrögð SA hafi framan af verið jákvæð en svo hafi samtökin snúið við blaðinu og komið með aðrar tillögur, sem feli í sér mun minni launahækkanir.

Innan SA líta menn þetta öðrum augum. Góður tónn hafi verið í viðræðunum, gagnkvæmur skilningur á viðfangsefninu og ríkur vilji allra til að reyna að ná niður verðbólgu og vöxtum. Hins vegar hafi strandað á kostnaðarmati á kröfum breiðfylkingarinnar. Í upphaflegu mati á þeim hafi ekki verið gert ráð fyrir launaskriði, sem reikna megi með að fylgi í kjölfarið. Hækkanir lægri taxta valdi þrýstingi á milli tekjuhópanna upp allan launastigann og launaskriði. Í sögulegu ljósi hafi sambærilegar hækkanir leitt til 6-8% hækkunar á launavísitölu þegar launaskrið er komið fram.

Launastefnan þarf að halda gagnvart millitekjuhópum

Litlar líkur eru á því að mati viðmælanda innan samtakanna að verðbólgumarkmiðið næðist á samningstímanum ef gengið yrði að óbreyttum tillögum verkalýðshreyfingarinnar. Því til viðbótar sé ekki einhugur innan ASÍ um þessa launastefnu, hópar iðnaðarmanna vilji semja um prósentubreytingar og á opinbera markaðnum séu BHM og fleiri mótfallin þessari leið krónutöluhækkana. Ólíklegt sé því að hún gæti markað launastefnuna fyrir allan vinnumarkaðinn og yfirgnæfandi líkur á að tillögur breiðfylkingarinnar myndu leiða af sér allt of miklar kostnaðarhækkanir og áframhaldandi verðbólgu. Í breiðu samfloti þurfi launastefnan að halda gagnvart millitekjuhópunum. Erfitt sé að tala um þjóðarsátt við þessar aðstæður. Til þess þurfi helst að fá allan ASÍ-hópinn með í viðræðurnar og opinbera markaðinn líka.

Skv. heimildum Morgunblaðsins lagði SA fram þrjár útfærsluleiðir í viðræðunum við breiðfylkinguna um blandaða leið krónutölu- og prósentuhækkana, krónutöluleið og prósentuhækkanir en með sérstökum hækkunum fyrir lægst launuðu hópana. Í þeim er gert ráð fyrir töluvert minni launahækkun í krónum talið en breiðfylkingin hefur krafist. Verkalýðsforystan brást hart við þessu og gagnrýndi SA harðlega fyrir að vísa til launaskriðs, sem væri á engan hátt á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar heldur lægi hjá fyrirtækjunum sjálfum.

Stjórn VR sögð klofin

Halda átti stjórnarfund í VR í gærkvöldi. Ragnar Þór Ingólfsson formaður félagsins er í snúinni stöðu. Stór meirihluti félagsmanna er millitekjufólk á markaðslaunum og hafa bæði meirihluti þings Landssambands íslenskra verslunarmanna og trúnaðarráð VR lýst vilja til að semja fremur um prósentuhækkanir með ákveðnu þaki og gólfi en krónutöluhækkanir. Skv. traustum heimildum innan VR í gær er stjórn félagsins sögð klofin í afstöðu sinni til aðferðafræði breiðfylkingarinnar í kjaraviðræðunum. Ragnar Þór fékk þó umboð til að fara þessa leið og hefur staðið með öðrum forystumönnum breiðfylkingar fast við kröfurnar sem hún mótaði og lagði fram m.a. um 26 þúsund kr. hækkun. Fullyrt var í gær að engir brestir væru komnir fram á samstöðu formannanna um þessa kröfugerð.

Athygli hefur vakið að ASÍ hefur ekki komið að viðræðunum að undanförnu og Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ staðið utan þeirra. Grunntillögurnar í efnahags- og skattamálum sem kröfurnar byggjast á koma úr samnefndri nefnd ASÍ og fór mesta vinnan við þær fram innan svokallaðs Flasa-hóps formanna landssambanda ASÍ og stærstu aðildarfélaga.

Höf.: Ómar Friðriksson