Annir Skólastjórinn Eysteinn Þór Kristinsson var á vaktinni í gær í Laugalækjarskóla, hér með nemendum.
Annir Skólastjórinn Eysteinn Þór Kristinsson var á vaktinni í gær í Laugalækjarskóla, hér með nemendum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við sjáum ekki lengra en fram á vorið, klárum skólaárið og svo vitum við ekki hvað gerist í framhaldinu,“ segir Eysteinn Þór Kristinsson, skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur. Skólastarf er nú komið á fullt og enn er starfsemi skólans á fjórum stöðum í Reykjavík

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við sjáum ekki lengra en fram á vorið, klárum skólaárið og svo vitum við ekki hvað gerist í framhaldinu,“ segir Eysteinn Þór Kristinsson, skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur.

Skólastarf er nú komið á fullt og enn er starfsemi skólans á fjórum stöðum í Reykjavík. Áfram er kennt í Hvassaleitisskóla, Ármúla 30 og í Laugalækjarskóla en kennsla 3.-4. bekkjar var færð úr Víkingsheimilinu í Safamýri í aðstöðu KSÍ í Laugardal. Þar hafa nokkrir grunnskólar borgarinnar verið með aðstöðu síðustu ár vegna mygluvandræða. Eysteinn segir að færri nemendur séu í þessum safnskólum nú heldur en var fyrir jól. Skýringin er talin vera sú að fleiri hafi nú fundið sér varanlegt húsnæði og börnum hafi því verið komið í hverfisskóla.

„Skólaskyldan kom aftur á 4. janúar og nú eru börnin annaðhvort hjá okkur eða í hverfisskólunum. Við vorum með 300 börn á okkar snærum fyrir jól en nú eru þau 230. Mesta fækkunin er hjá þeim yngri. Eldri krakkarnir halda enn þá meira saman,“ segir Eysteinn.

Hann segir að skýringin á því af hverju yngri krökkunum hafi frekar fækkað kunni að liggja í því að aðlögunarhæfni þeirra sé oft meiri og þeir eigi auðveldara með að aðlagast nýjum aðstæðum. Þá kunni foreldrar ef til vill síður við að senda þau yngri með rútum í skólann en rútuferðir eru á hverjum degi til og frá Reykjanesbæ, Árborg, Hafnarfirði um Garðabæ og Kópavog og frá Mosfellsbæ þar sem stoppað er í Grafarvogi og Grafarholti.

Utan þessara safnskóla sem reknir eru á fjórum stöðum hafa börn úr Grunnskóla Grindavíkur komið sér fyrir víða. Eysteinn segir að alls séu um 320 börn í hverfisskólum og dreifast þau á tæplega 70 grunnskóla á 30 stöðum um landið.

„Við reynum að fylgjast með öllum okkar nemendum að einhverju leyti, til að mynda með því að skrásetja hvar þeir eru. Þá reynum við að fylgja eftir þeim nemendum sem kannski hafa þurft stuðning, að þau fái þann stuðning áfram á nýjum stað.“

Kennarahópurinn hefur haldist nokkuð óbreyttur í safnskólunum að sögn skólastjórans. „Við höfum þó lánað kennara, ef svo má segja, bæði í Reykjanesbæ og í Árborg. Þeir fóru í launalaust leyfi hjá okkur og réðu sig í nýja vinnu út skólaárið. En þetta er mjög öflugur hópur og hefur staðið sig ótrúlega vel. Því er þó ekki að neita að það urðu ákveðin vatnaskil síðasta sunnudag. Einn af okkar kennurum horfði á húsið sitt brenna. Það er ekki eins bjart yfir framtíðinni og var fyrir síðustu helgi.“

Hann játar það aðspurður að það sé ærinn starfi að sinna skipulagningu skólastarfs á þessum erfiðu tímum. „Við þurfum að passa vel upp á að krakkarnir okkar hafi það sem best og fái sem besta umönnun og kennslu.“

Hins vegar verði því ekki neitað að betur mætti fara í skipulagningu að mati Eysteins. „Í þessari óvissu allri væri mun betra að geta haft allan hópinn saman. Það hefur hins vegar gengið illa hjá ríkinu að finna til þess húsnæði. Við erum alls staðar inni á Reykjavíkurborg og hún hefur staðið sig frábærlega en við höfum haft minna af ríkinu að segja. Draumastaðan væri að vera á einum stað en ekki fjórum.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon