Tapið gegn Alfreð Gíslasyni og hans mönnum þýðir einfaldlega að möguleikar Íslendinga á að komast í baráttuna um verðlaunasæti á þessu Evrópumóti eru úr sögunni. Sigrar í þremur síðustu leikjunum munu aldrei nægja til þess að ná öðru sæti riðilsins, …

Tapið gegn Alfreð Gíslasyni og hans mönnum þýðir einfaldlega að möguleikar Íslendinga á að komast í baráttuna um verðlaunasæti á þessu Evrópumóti eru úr sögunni.

Sigrar í þremur síðustu leikjunum munu aldrei nægja til þess að ná öðru sæti riðilsins, sérstaklega fyrst liðið er búið að tapa gegn Ungverjum og Þjóðverjum og því verður ekki nóg að ná þeim að stigum.

Verðlaunasæti var svo sem aldrei það sem stefnt var að, heldur að ná sæti í undankeppni Ólympíuleikanna. Vonin um að ná því minnkaði með þessu tapi en er langt frá því að vera úr sögunni.

Þar er Ísland í baráttu við Austurríki (3 stig), Portúgal (2 stig), Slóveníu (2 stig) og Holland (0 stig) um tvö sæti í undankeppninni. Aðeins eitt þessara liða má enda ofar en Ísland til að sá draumur verði að veruleika.

Reyndar gæti Ísland fengið utanaðkomandi hjálp þegar keppni er lokið í milliriðlinum því ef Egyptar verða Afríkumeistarar um aðra helgi fer Slóvenía beint inn í undankeppnina í þeirra stað og væri þá ekki lengur að slást við Ísland um sæti þar.

Verði það niðurstaðan nægir Íslandi að enda fyrir ofan tvö af hinum þremur liðunum. Til þess þarf íslenska liðið væntanlega að vinna alla vega tvo af þeim þremur leikjum sem eftir eru.

Næsta verkefni er heldur betur stórt, Frakkar á morgun, en síðan er leikið við Króata á mánudag og Austurríki á miðvikudag.