Sigríður Kolbrún Þráinsdóttir fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1948. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29. desember 2023.

Sigríður var dóttir hjónanna Ragnheiðar Þórlaugar Jóhannesdóttir, f. 29.10. 1924, d. 7.3. 2004, og Þráins Arinbjarnarsonar, f. 24.12. 1924, d. 27.6. 2006. Sigríður var miðbarn foreldra sinna. Eldri systir hennar var Ágústa Hrefna, f. 20.3. 1947, d. 7.1. 2007, og sú yngri er Margrét Jóhanna, f. 12.10. 1953.

Sigríður giftist Elíasi Bjarna Jóhannssyni, f. 20.9. 1948, þann 13.6. 1970, og bjuggu þau lengst af í Keflavík eða frá 1979. Þau eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Helena Rannveig, f. 17.8. 1968, gift Ingólfi Karlssyni, f. 12.7. 1967, börn þeirra eru Pétur Karl, f. 1987, Hallfríður, f. 1996, og Elmar Snær, f. 1996. 2) Jóhann Björn, f. 27.2. 1971, f.m. Ólafía Kristín Þorsteinsdóttir, f. 21.12. 1971. Börn þeirra eru Hrönn María, f. 1992, og Elías Bjarni, f. 2002. 3) Hulda Rut, f. 13.1. 1973, f.m. Ásbjörn Pálsson, f. 26.8. 1969, börn þeirra eru Atli Freyr, f. 1994, Guðrún Elísa, f. 1996. S.m. Ögmundur Rúnar Guðmundsson, f. 21.5. 1974, barn þeirra er Aron Elvar, f. 2001.

Langömmubörn Sigríðar eru: Bjarki Már, Ingólfur, Emil, Oliver, Axel, Eva Millý og Indía Sif.

Útför fór fram í kyrrþey.

Það er með óendanlegu þakklæti að ég minnist elsku mömmu minnar sem lést á milli jóla og nýárs á fallegum vetrarmorgni. Hún kenndi mér öll góðu gildin og var mér góð móðir, sem verður veganesti til frambúðar. Snemma urðum við systkinin sjálfstæð og nutum frelsisins og áttum góða æsku. Mamma greindist með alzheimer og svo með krabbamein í kjölfarið fyrir þremur árum. Það var erfitt að fylgjast með hvernig sjúkdómurinn tók hægt og rólega yfir og upplifa allan þann vanmátt sem fylgir að horfa á eftir elsku mömmu hverfa inn í annan heim. En svo voru líka góðar stundir þegar við lágum í hláturskasti yfir bullinu í henni og hún tók fullan þátt og hélt í húmorinn til enda.

Mamma fann lífsins hamingju í samverustundum með fólkinu sínu sem hún elskaði. Hún lagði mikla rækt við fólkið sitt og það er mikil lífsfylling fyrir okkur öll að hafa átt hana að. Ég er þakklát mömmu fyrir traustið sem hún sýndi mér á erfiðustu tímum hennar og fyrir þann dýrmæta tíma sem við áttum saman.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Með ást og þakklæti,

Helena.

Elsku besta mamma mín, loksins ertu búin að fá hvíldina og komin í sumarlandið að hitta ömmu, afa, Gústu og fleiri. Ég trúi því að þér líði vel núna, laus við veikindin. Ég á þér svo margt að þakka. Alltaf stóðst þú við bakið á mér og hjálpaðir mér og líka svo mikið með börnin. Enda var ykkar heimili þeirra annað heimili. Þér þótti svo mikið vænt um okkur öll og barna- og barnabarnabörnin áttu sko öll stóran stað í hjarta þínu. Mikið verður erfitt og sárt að geta ekki talað við þig á hverjum degi. Ég sakna þín svo mikið, elsku mömmugull, ég hugsa til þín oft á hverjum degi. Takk fyrir allt, elsku besta mamma og vinkona.

Þangað til næst, ég elska þig og sakna.

Þín

Hulda Rut.

Elsku tengdamamma, kallið er komið og loksins fékkstu hvíldina þína eftir erfið veikindi.

Það er margs að minnast og margt að þakka. Fyrir hartnær 40 árum kom ég inn í fjölskyldu ykkar og var þá varla nema stálpaður unglingur. Það hefur e.t.v. verið skrítið fyrir þig að allt í einu birtist ungur drengur í leðurjakka með sítt hár að aftan á svörtum sportbíl sem var orðinn kærasti dóttur þinnar og að hann yrði mögulega framtíðartengdasonur þinn. En ég fann strax að mér var tekið opnum örmum og fljótlega var ég orðinn heimilisvanur á Heiðarbrautinni, og í raun talinn einn af heimilisfólkinu. Við sonur þinn vorum að gera grín að því um daginn, þegar hann var að leita að myndum í fjölskyldualbúmi sínu vegna útfarar þinnar, að þá fann hann varla nokkra mynd af ykkur fjölskyldunni einni saman því ég er alltaf með á öllum fjölskyldumyndum á öllum tímamótum. Þá gengu foreldrar þínir, Hædí og Þráinn, mér í ömmu- og afastað um árabil og ég fann aldrei neitt annað en hlýhug og virðingu í minn garð frá þér og þínu fólki alla tíð. Svo kom fyrsta barnabarnið og þá kom nú heldur betur í ljós hve mikil og góð amma þú varst, alltaf boðin og búin að hjálpa okkur Helenu í barnauppeldinu og dugleg varstu að bjóða okkur í sunnudagsmat og gerðir líka stórskemmtileg rímnakvæði til okkar á stórafmælum og fleira. Þú varst mikil fyrirmynd fyrir okkur Helenu því við höfum ávallt haldið fjölskylduhefðum þínum áfram á okkar heimili með börnum og barnabörnum.

Alla tíð varstu mikill fagurkeri og það var gaman að fylgjast með ykkur Ella þegar þið eignuðust sumarbústaðinn ykkar og hvað þið gerðuð hann fallegan með allskonar hlutum sem þú safnaðir á ferðalögum ykkar. Þú gast stundum ekki beðið eftir að koma þessum hlutum fyrir á hillu og ég man einu sinni eftir þegar Elli var að rembast við að koma síðustu skrúfu í hillu til að festa hana á sinn stað þá varstu búin að raða fallegum hlut á hana.

Elsku tengdamamma, það voru forréttindi að fá að fylgja þér í þessi 40 ár og ég er þakklátur fyrir dásamlega tíma. Það var mjög erfitt að horfa á þig í veikindum þínum, en enn og aftur varstu fyrirmynd fyrir okkar hin því aldrei nokkur tímann sýndir þú örvæntingu í þessum erfiðu aðstæðum, sýndir þess í stað auðmýkt og æðruleysi.

Elsku tengdamamma, ég kveð þig með söknuði og megi góður Guð geyma þig á himnum og styrkja Ella þinn og alla fjölskylduna í sorginni. Ég mun ávallt halda minningu þinni hátt á lofti til eftirlifenda og ófæddra fjölskyldumeðlima meðan ég lifi.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

Þinn tengdasonur,

Ingólfur Karlsson.

Elsku besta amma og vinkona mín. Það er skrýtið og erfitt að hugsa til þess að lífið muni halda áfram án þín. Þú varst og hefur alltaf verið svo stór partur af mínu lífi, og verður það áfram í hjarta mínu. Svo margar minningar og margt sem þú hefur kennt mér.

Þú varst kona sem naust lífsins, og litlu hlutirnir gáfu þér gleði sem þú smitaðir frá þér. Eins og þegar við sátum lengi yfir kaffibolla að tala um lífið og tilveruna, og fengum okkur alltaf eitthvað gott með kaffinu. „Góð kaka“ og þú varst glöð. Í hvert skipti sem ég smakka góða köku mun ég hugsa til þín amma, og muna að njóta augnabliksins.

Þú elskaðir að koma í heimsókn til Noregs, og í hvert skipti sem við skoðuðum fallegt útsýni þá geislaðir þú. Í hvert skipti sem ég sé fallegt útsýni verður þú með mér í anda.

Þú varst líka mikil fjölskyldukona, og lagðir mikið upp úr því að fjölskyldan væri náin, og þú vildir eiga gott samband við okkur öll. Sem þér tókst svo vel, því það var svo gott að tala við þig. Ég mun aldrei gleyma hvað mér leið alltaf vel í kringum þig, þú sást mig og hver ég er, og hlustaðir á mig og mínar skoðanir. Og þótt við værum ekki alltaf sammála var samt alltaf svo gott að tala við þig því þú virkilega hlustaðir.

Þú varst líka mikill húmoristi, og það var svo gaman að hlusta á þig bulla einhverjar sögur og segja brandara. Ég mun virkilega sakna þess.

Þú elskaðir líka að hafa notalegt í kringum þig. Það var svo gaman að fara með þér í búðir og skoða, pæla og spekúlera. Það var alltaf svo gott að koma til þín amma, í fína og notalega húsið og bústaðinn ykkar afa.

Elsku amma, ég mun sakna þín og góðu knúsanna þinna. En þú verður alltaf hjá mér í hjartanu og ég mun ylja mér við margar góðar minningar.

Takk fyrir allt, takk fyrir að vera þú, allar góðu minningarnar, og takk fyrir að sjá mig.

Góða ferð amma, ég elska þig.

Hrönn María.

Með sorg og söknuð í hjarta kveð ég elskaða fallegu og góðu systur mína. Sigga var ekki bara systir mín, hún var líka mín besta vinkona. Við vorum mjög nánar og milli okkar var órjúfanlegur strengur.

Ég var fimm árum yngri en Sigga og oft sagði hún frá þeirri æskuminningu sinni að ég hefði verið ótrúlega leiðinlegt barn, alltaf sívælandi. Þegar hún kvartaði við mömmu sagði mamma að ég mundi lagast þegar það yrðu teknir úr mér hálskirtlarnir. Svo kom sá dagur að ég fór í kirtlatöku. Sigga lýsti því að hún hefði staðið við rúmið mitt þegar ég vaknaði eftir aðgerðina og beðið spennt eftir breytingu á mér en þvílík vonbrigði, ég hafði ekkert breyst, alveg sama væluskjóðan. Svo sagði hún að ég hefði smám saman komið til og hefði lagast og við urðum mjög góðar og nánar vinkonur upp frá því.

Þegar hún var ein með krakkana sína litla og Elli var úti á sjó fórum við Torfi flesta sunnudaga í bíltúr með þau og keyptur var ís.

Eftir að ég eignaðist mín börn og hún flutti til Keflavíkur voru fáir sunnudagar sem við fjölskyldan fórum ekki til Siggu í kaffi.

Margar ferðir fórum við saman til útlanda, oftast til Florida og svo til Noregs þar sem sonur hennar býr.

Seinna byggðu hún og Elli sér sumarbústað í Grímsnesinu. Einu sinni fórum við systurnar saman þangað í húsmæðraorlof. Við fórum í bíltúr á svæðinu sem endaði með því að við Torfi keyptum okkur bústað í sama hverfi. Sögðum við að nú værum við aftur fluttar í Bústaðarhverfið því við höfðum alist upp í Bústaðahverfinu í Reykjavík.

Yndislegur tími tók við og mikill samgangur varð á milli okkar á þessum tíma. Við skiptumst á að bjóða hvert öðru í mat og oft á drekkutíma buðum við til skiptis í kaffi og heimabakaða köku með kaffinu. Mikið var spjallað, hlegið og bullað á þessum hittingum. Eftir að hún veiktist og minni hennar var farið að svíkja hana sagði hún svo oft við mig: „Það er svo gott og gaman þegar við erum að bulla og hlæja saman.“

Mig langar til að þakka henni hvað hún var börnunum mínum alltaf góð og bar mikla umhyggju fyrir þeim.

Nú eru báðar systur mínar horfnar úr þessu lífi. Báðar kvöddu þær alltof fljótt en lífið er ekki alltaf réttlátt. Ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um þær og get yljað mér við.

Það síðasta sem Sigga sagði við mig var: „Þú mátt aldrei gleyma mér“ og því var auðvelt að lofa.

Hvíl þú í friði elskan mín.

Þín elskandi systir og vinkona, Margrét.

Ég votta Ella og fjölskyldunni allri innilega samúð.

Margrét Jóhanna Þráinsdóttir.

Mig langar að minnast fyrrverandi tengdamóður minnar til 32 ára. Takk elsku Sigga fyrir allt sem þú varst mér og börnum mínum. Alla hjálpina, samræðurnar og samverustundirnar í gegnum árin hvort sem var í Keflavík eða Noregi. Þú varst góð amma og reyndist börnum mínum vel og gátu þau alltaf leitað til þín. Þér var annt um líf þeirra og notaðir þú óspart orðin „segðu mér“ til þess að fá nánari vitneskju um hagi þeirra. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Minning þín mun lifa.

Aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafía Kristín.

Elsku besta vinkona mín, hún Sigga, er látin. Hún var mér afar kær og mikið á ég eftir að sakna hennar. Ég er búin að þekkja hana í um það bil sjötíu ár. Við bjuggum báðar á Bergstaðastrætinu, ég á 60 og hún á 66.

Við vorum samstiga með svo margt í okkar lífi. Við vorum fjögurra eða fimm ára þegar við urðum vinkonur og vorum það alla tíð. Við fórum saman í tímakennslu til hennar Elínar á Laugaveginum. Sigga flutti í Bústaðahverfið um níu ára aldurinn og ég man ennþá hvað mér fannst það sárt að missa hana úr hverfinu. En ekki missti ég Siggu þó að hún flytti. Við vorum báðar duglegar að taka Bústaðavagninn og átti hún heima á endastöðinni, sem núna er Bústaðakirkja.

Árin liðu og eitt á ég Siggu minni mikið að þakka, það var þegar hún kynnti mig fyrir Kidda mínum. Það var þannig að Elli maður Siggu og Kristó bróðir Kidda voru bestu vinir og Kiddi var líka oft með þeim. Þannig að ég var með Siggu þegar ég hitti Kidda minn fyrst og ég hef alltaf verið henni ævarandi þakklát fyrir hversu heppin ég var.

Það var vika á milli brúðkaupanna okkar. Börnin komu á svipuðum tíma, t.d. eru Jói Siggu og Hilmar minn jafngamlir.

Við hittumst oft hvor hjá annarri á þessum árum og börnin léku sér saman. Sigga flutti svo til Keflavíkur og mér fannst það ekki nógu gott að hún færi svona langt frá mér. Auðvitað slitnaði vinskapurinn ekki við það.

Við Sigga áttum yndislegan vinkonuhóp sem við erum búnar að þekkja frá því við vorum litlar. Við erum búnar að halda saumaklúbba með þeim í tugi ára. Þær áttu allar heima í næsta nágrenni við okkur. Þær eru Ásta sem átti heima á Fjölnisvegi og svo þær Gunna Þorsteins, Kristín Magg og Guðrún Osvalds á Laufásvegi. Allar áttum við heima nálægt Njarðargötunni. Elsku Guðrún Osvalds er fallin frá og núna Sigga okkar, svo að það hefur fækkað í hópnum.

Elsku Sigga mín, minningarnar eru margar og okkar líf svo samtvinnað.

Ég sé þig fyrir mér með glettna svipinn þinn, hlýjuna, væntumþykjuna og umvefjandi þegar við hittumst. Þú gast verið mjög fyndin og látið okkur vinkonurnar hlæja svo að við stóðum á öndinni. Til dæmis þegar þú tókst þín bestu tilbrigði lífsins í leikrænni tjáningu.

Ekki má gleyma hvað þú varst stolt af fjölskyldunni þinni. Þú varst svo rík, áttir stóra og dásamlega fjölskyldu sem þú lifðir fyrir. Elskaðir þegar einhver af þínum komu í heimsókn.

Missirinn er mikill hjá okkur sem þekktum Siggu. Ég vil votta Ella, Helu, Jóa og Huldu og allri fjölskyldu Siggu minnar mína dýpstu samúð.

Kristín Þórðardóttir.