Sigrún Faulk er hjúkrunarfræðingur sem starfar með eldra fólki. Hún segir mikilvægt að undirbúa sig vel undir efri árin.
Sigrún Faulk er hjúkrunarfræðingur sem starfar með eldra fólki. Hún segir mikilvægt að undirbúa sig vel undir efri árin. — Ljósmynd/Kjartan Júlíusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hver eru allra fyrstu einkenni þess að fólk sé að eldast og hvernig getum við elst vel? „Við erum eins misjöfn og við erum mörg og í raun ómögulegt að festa fingur á hver fyrstu einkenni öldrunar eru

Hver eru allra fyrstu einkenni þess að fólk sé að eldast og hvernig getum við elst vel?

„Við erum eins misjöfn og við erum mörg og í raun ómögulegt að festa fingur á hver fyrstu einkenni öldrunar eru. Við eldumst alla ævi og það skiptir máli að hugsa um það alla daga ef við viljum lifa vel, eldast vel og deyja vel. Þannig getum við undirbúið þetta æviskeið sem allir vilja jú ná. En það er ýmislegt sem við getum gert til að eldast vel. Ég segi alltaf að það sem skipti mestu máli, þegar farið sé inn í efri árin, sé að vera með góða rass- og lærvöðva, gott jafnvægi, jákvæðni og góða lund.“

Sigrún segir að huga þurfi að ýmsu varðandi heilsuna. „Við þurfum að passa upp á holdafar, blóðsykur og blóðþrýsting og vera í reglulegu eftirliti hjá heimilislækni. Auk þess er brýnt að borða fjölbreyttan mat og muna að meinlætalíf er ekki endilega það sem mannskepnan þarf, við eigum að njóta líka. Það er heldur ekki gott að vera of grannur, nokkur aukakíló eru góður aukaforði. Allir eiga að taka lýsi eða D-vítamín og borða prótein og trefjaríkan mat. Hægt er að fá góðar ráðleggingar varðandi mataræði fyrir fólk sem er orðið 60 ára og eldra inni á vef Heilsuveru.“

Hreyfing skiptir máli

Hún segir að hreyfing skipi stóran sess þegar kemur að góðri heilsu. „Það er mikilvægt að stunda alhliða hreyfingu alla ævi og aðlaga hreyfinguna ef þarf, fólk getur lent í tímabundnum veikindum, slysum eða þurft á aðgerð að halda en það er mikilvægt að hætta aldrei að hreyfa sig. Aðalatriðið er að finna út úr því hvað fólki finnst skemmtilegt og hvers konar íþróttir eða hreyfing henti hverjum og einum. Vel má nýta tæknina ef fólk er til dæmis bundið heima við og ef til vill fá sjúkraþjálfun heim. Með aldrinum missir fólk vöðvamassa og þess vegna skiptir styrktarþjálfun miklu máli, ekki síst til að þjálfa rass og læri en það eru vöðvarnir sem hjálpa okkur að standa upp og setjast niður, sem skiptir mestu máli í því að við séum sjálfbjarga sem lengst,“ segir Sigrún.

Ýmsu öðru þarf að huga að og nefnir Sigrún jafnvægi. „Það er mikilvægt að þjálfa jafnvægið líka og ekki bara þegar jafnvægisleysi gerir vart við sig heldur byrja strax. Jafnvægi okkar er misgott en við getum öll þjálfað það. Dans er til að mynda frábær alhliða hreyfing sem þjálfar þetta allt en daglegur göngutúr og morgunleikfimin á Rás 1 er líka stórgóð þjálfun. Sumum hentar að hreyfa sig í hóp og er það víða í boði en almennt er talað um 30 mínútur á dag sem lágmarkstíma sem fólk á að hreyfa sig. Útivera er auk þess mikilvæg, hún er eins og vítamínsprauta, ferskt loft og náttúran gefur okkur kraft. Eldra fólki býðst einnig að komast í endurhæfingarinnlagnir ef þurfa þykir og mikið úrval er til af alls konar hjálpartækjum,“ segir hún og bætir við að einnig sér hægt að fá ráðleggingar á Heilsuveru varðandi hreyfingu fyrir fólk sem komið sé yfir 60 árin.

Maður er manns gaman

Miklar félagslegar breytingar eiga sér oft stað hjá fólki sem komið er á efri árin, börnin farin að heiman og sumir hættir að vinna. Hvaða andlegu áhrif hefur þetta á einstaklinginn og hvernig ætti fólk að takast á við depurð, kvíða og sorg?

„Mannskepnan er félags- og vitsmunavera, við göngum í gegnum breytingar alla ævi og tökumst á við alls kyns streituvaldandi atburði og þá skiptir máli að vera í andlega góðu jafnvægi og góðum tengslum við fjölskyldu og vini. Streitulosun og góður svefn skiptir miklu máli. Það er eðlilegt að ganga í gegnum erfið tímabil og upplifa depurð og kvíða. Á efri árum upplifir fólk oftar sorg og það er ferli sem þarf að ganga í gegnum en það er hægt að leita sér hjálpar víða ef fólk kýs eða þarf á því að halda. Það er gott að ræða um sorgina og minnast þeirra sem við söknum.“

Hún bætir við að virkni geti haft jákvæð áhrif og spornað við einmanaleika. „Virkni skiptir miklu máli og það er úr nógu að velja þegar kemur að félagsstarfi fyrir eldra fólk um allt land. Þar sannast málshátturinn „Maður er manns gaman.“ Einmanaleiki hefur oft verið talinn hvað erfiðastur fyrir eldra fólk en það má leita til heimsóknavina RKÍ ef fólk á fáa eða engan að, enginn ætti að þurfa að vera einn.“

En hvaða ráð gefur Sigrún til að koma í veg fyrir andlega hrörnun? „Við þurfum að þjálfa heilann. Það má gera til dæmis með því að ráða krossgátur eða sudoku, leggja kapal eða spila svo eitthvað sé nefnt. Einnig er gott að læra eitthvað nýtt og örva okkur, það hjálpar heilanum en því miður eru minnisjúkdómar alltof algengir. Það er hægt að fá aðstoð hjá heilsugæslu og Alzheimersamtökunum sem dæmi.“ Hún ráðleggur fólki að vera óhrætt við að leita sér aðstoðar finni það til dæmis fyrir minnisleysi og segir vera framfarir á þessu sviði eins og öðrum, það versta sé að fólk einangri sig.

Það eru forréttindi að eldast

Þegar hún er spurð hversu lengi fólk ætti að vinna þá stendur ekki á svörum. „Það eru forréttindi að eldast og mikilvægast að hver og einn finni sinn takt, sumir vilja vinna lengi því það er þeim mikilvægt, aðrir vilja hætta fyrr og njóta þess að eiga meiri frítíma. Ekkert er rétt eða rangt í þessu, það er bara mismunandi hvað við viljum í lífinu. Við lifum samkvæmt okkar gildum og hættum því ekki á efri árum, gerum það sem gleður okkur og eflir sama hvað það er.“ Sigrún bætir við að verst sé að gera ekki neitt því þá sé hætt við að fólk missi mikilvæga færni.

En hvað geta fjölskylda og vinir gert og hverju þurfa þeir að fylgjast með og vera á varðbergi gagnvart? „Fjölskylda og vinir eru helstu stuðningsaðilar eldra fólks og þeir sjá oft breytingar á heilsufari ættingja á undan viðkomandi. Þá skiptir máli að ræða málin, benda á og hjálpa. Það er gott að huga að heppilegu húsnæði í tíma og skoða þau úrræði sem eru í boði fyrir eldra fólk sem missir færni til að sjá um sig sjálft. Það getum við best gert sjálf og undirbúið okkur fyrir þetta æviskeið. Við getum safnað að okkur myndum og skráð söguna okkar, hlaðið niður tónlist sem kallar fram vellíðan hjá okkur og átt það tilbúið ef minnið fer að svíkja okkur. Látum okkar nánustu vita okkar óskir ef heilsufarið þróast þannig að við getum ekki sjálf sagt hvað við viljum. Þetta er vegferð sem fjölskyldan á saman og getur verið góð og gefandi,“ segir Sigrún að lokum.

Höf.: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir |